Gunnlaugur Harðarson

Gunnlaugur Harðarson

Friday, 19 September 2014 18:59

Besta sporthjól ársins 2014= Ducati 899

Besta sporthjól ársins 2014= Ducati 899

 

Hvaða eiginleikum þarf ökumaður að ná útúr mótorhjóli til að geta kallað það besta sporthjól ársins. Jú það þarf að „höndla“ það vel að ökumanni líði vel við að reyna á hæfileika sína til fullnustu. Og ef það fylgir með í pakkanum að hjólið veki eftirtekt annarra þá er markmiðinu náð. Og þeir hjá Motorcycle.com segja að ekkert sporthjól á markaðinum nái þessu eins vel og Ducati 899. Hjólið gerir allt það sem þú „biður“ það um og þú fyllist auknu öryggi því oftar sem þú hjólar á hjólinu og þar með eykst eflaust hraðinn í beygjum og hnéhlífar farnar að strjúka malbikinu hressilega, allavega hjá sumum. Þessi mótor kallar á að þú fylgist vel með snúningshraða því þetta er ekki stór sleggja af tveggja strokka V mótor að vera. Það þarf að taka hressilega á græjunni og snúa vel uppá rörið svo allt virki rétt. Miðað við sporthjól þá er áseta sögð nokkuð góð þannig að hné eru ekki mikið að snerta eyru !! jafnvel hjá þeim hávaxnari. Hjólið á heima bæði á götunni (já já svona í fyrsta og öðrum gír) sem og á braut. T.d. á mjög mörgum brautum þá eru það ekki margir staðir á brautinni þar sem stærri Dúkkar eða fjögurra strokka lítra hjól njóta sín betur en Ducati 899. Nær eina hjólið sem eitthvað reyndi við að stela þessu fyrsta sæti í sporthjólunum var BMW HP4, en það vann reyndar í fyrra, líka kom til greina MV AugustaF3 800 hjólið, jú svo fékk einhver súkka smá áhorf ef segja má svo með GSXR750 hjólið, en Ducati 899 hjólið sló þeim öllum við og var þar með valið besta sporthjól ársins vegna alhliða ökueiginleika, útlits o.fl.

Ducati 899

Það hjól sem kemst næst Dúkkanum er hjól sem kemur frá sjálfum Erik Buell og er kallað Racing 1190RX, en flestir muna eftir Buell hjólunum þegar Erik fór í samstarf við sjálfan Harley Davidson hérna um árið en það fór eins og það fór, en Buell hjólin notuðu vélar frá Harley. En þessi græja frá Buell er víst svo meðfærilegt og skemmtilegt leikfang að flestum finnast þeir verða orðnir Marc Marquez eða jafnvel sjálfur Rossi. Endurkoma Erik Buell ? Eflaust og það með stæl. Vélin í þessari græju er í grunninn frá Rotax, en Erik er búin að endurhanna hana frá grunni, þetta er tveggja strokka V mótor. Togið er frá grunni og upp, endalaust tog, öfugt við mörg þessi sporthjól. En þetta hjól er ekki fyrir óvana, það refsar þér ef þú kannt ekki til verka. Fótpetdalar sem og bremsu og kúpplings handföng eru stillanleg. Það kom jafnvel til greina að Buelinn yrði valinn sporthjól ársins. En ekki var hægt að fá lánshjól frá helstu keppinautunum t.d. eins og Ducati með 1199 Panigale eða KTM RC8R hjólin. En hérna er á ferðinni alvöru sporthjól frá USA.

Buell

Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni

Sunday, 14 September 2014 15:40

BMW R1200GS Adventure 2014

BMW R1200GS Adventure 2014

Off road græja fyrir „KARLMENN“

Hitti mann í gær sem er svona segja má alvarlega sýktur af BMW veirunni (ökukennari) og þá datt mér í hug að skrifa um þetta hjól. Árið 2013 komu BMW verksmiðjurnar mörgum á óvart með því að kynna fyrsta vatnskælda R1200 GS hjólið, þ.e.a.s. vatnskældan boxermótor og fyrir þá sem vita ekki hvað boxermótor er, þá eru strokkar liggjandi eins og í gamalli bjöllu, Porsche og Subaru t.d. Fram að því höfðu öll GS hjól verið olíu og loftkæld. Nú á þessu ári komur svo Bimminn með svona meira utanvega græju (allavega í útliti) sem þeir kalla svo Adventure= „ævintýri“, sem er örugglega réttnefni, því það er örugglega algjört ævintýri að brölta á þessari græju utanvegar, eða bara jafnvel á grófum malarvegi, því hjólið vigtar sjálft lítil 260 kg, svo bætast við allar töskur. Hjólið er útbúið með sama „electróníska“ tölvubúnaði sem nota má til að stilla átak til afturhjóls á allan hugsanlega máta t.d. „utanvega“ niður brekku, í bleytu, spólvörn, tölvustillanlega fjöðrun o.fl. o.fl. Mótor er heil 125 hestöfl og það ætti að duga fyrir nær alla. Hjólið er að sjálfsögðu með ABS bremsum sem er einnig hugsað sérstaklega fyrir utanvegaakstur. Framangreint er aðeins lítill hluti þess sem kemur í þessu hjóli hvað varðar tæknibúnað. Tog er alveg sérstaklega gott og með þessum „tæknibúnaði“ þá er hjólið í raun mjög þægilegt í utanvegaakstri. En eins og áður er fram komið þá er þetta engin léttavigt, Ævintýrið/Adventure hjólið er um 22. Kg þyngra en venjulega hjólið, þar af eru um 10 kg vegna stærri bensíntanks. Hjólið tekur virkilega vel við sér útúr beygjum jafnvel þó menn séu komnir undir 3000 snúninga, græjan tekur við sér í nær öllum gírum, þó hraðinn sé orðin lítill, þannig að maður svona líður milli hringtorga (hvað eru menn að nota þetta innanbæjar !!) Þetta nýja hjól er 15 hestöflum kraftmeira en gamla Adventure hjólið, en nokkuð aflminna en t.d. 150 hestafla Ducati Multistrada hjólið, ekki raunhæfur samanburður segi ég, réttara væri að miða hjólið við stóra Triumph Tigerinn. Hjólið kemur standard með stýrisdempara og það hjálpar mikið við vissar aðstæður. Hjólið er búið Brembo Monoblock bremsudælum og þær virka virkilega vel og þá sérstaklega ef ökumaður hefur stillt átak og fjöðrun í samræmi við aðstæður. Sætið er frekar mjótt en samt þægilegt, jafnvel þegar ekið er mjög lengi. Með því að mjókka sætið svona þá er þægilegra að ná til jarðar jafnvel fyrir þá sem eru svona styttri í annan endann, en hjólið er samt frekar hátt í ásetu og margir kvarta yfir því og þá sérstaklega þegar ná þarf hjólinu af hliðarstandara í halla. Það er komið nýtt framgler (vindhlíf) og fyrir svona meðal stóra er hún í fullri hæð fyrir neðan sjónlínu, rúðan er stillanleg, en til að breyta rúðuhæð á ferð þá þarf ökumaður í raun að taka hönd af bensíngjöf til að stilla rúðuhæð. Áseta er virkilega góð, nóg rými fyrir fætur, stýri liggur vel við ökumanni og er frekar hátt. Eins og áður er fram komið þá er þetta stórt hjól, en mjög meðfærilegt og þægilegt í raun, svo væntanlegir kaupendur ættu ekki að láta útlitið og stærð fæla sig frá, þetta er eins og myndir sýna algjör „töffari“ en samt gott götuhjól. Eins og venjulega er verðið „gott“ og hægt að kaupa alls konar aukahluti með græjunni t.d. hitahandföng, þrjár extra stillingar til akstur, krús „contol“, og betur stillanleg fjöðrun. Á þessu hjóli getur þú í raun ferðast um allan heiminn við nær allar venjulegar aðstæður. Það eru komin nokkur venjuleg R1200GS til landsins þ.e.a.s. þessi nýju vatnskældu og þau eru að sjá virkilega flott hjól, það þýðir reyndar ekkert að spyrja eigendur þeirra um gæði þeirra eða notkun því þú færð engin neikvæð svör, en það er samt gaman að lesa svör þeirra sem prufað hafa hjólið og já keypt það, um það má lesa á netinu eins og allt annað tæknilegt.

Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni

Saturday, 06 September 2014 17:48

Honda CB1300S alvöru hálfnakið mótorhjól

Honda CB1300S alvöru hálfnakið mótorhjól

Sölutölur sýna að nakin, þ.e.a.s. mótorhjól með lítið af hlífum njóta sífellt meiri vinsælda og það er skiljanlegt því flest okkar vilja sjá allt sem við höfum keypt og ætlum að nota er það ekki ?. Í dag ætlum við að skoða hjól sem búið er framleiða a.m.k. frá árinu 2003 sem alveg nakið, en síðan árið 2005 hefur  hjólið verið með hálfri „feringu“ og þá var S bætt við heiti hjólsins, sem og ABS bremsur og með smá „hanskahólfi“. Þetta „retró“ útlit vekur upp gamlar minningar hjá mörgum hjólamönnum. Á ofangreindum tíma töldu Yamaha verksmiðjurnar með XJR hjólið og Suzuki með GSX 1400 að til að hægt væri að kalla hjól „retró“ þá yrði það að vera loftkælt. En Hondumenn hlustuðu ekkert á slíkt og því er 1284cc línumótor CB hjólsins vatnskældur. Ekki spurning að við nútíma notkun í mikilli umferð þá hentar vatnskælingin miklu betur og jú svo eru það auðvitað þessu grænu „kerlingar“ sem eru að gera allskonar kröfur vegna mengunar. Þessi mótor „sleggja“ er alveg frábær í akstri, það er endalaust tog um 11.8kg-m við 6000 snúninga. Það er í raun hægt að taka af stað í öllum gírum, en gírkassi er fimm gíra, er eins og nær allir Hondu gírkassar: Frábær. Það er engin þörf á því að vera hræra í gírkassa það er bara tekið á gjöfinni og CBinn tekur við þessu öllu, sama hvaða gír þú ert í og ekki má gleyma að hjólið er engin léttavigtar græja, vigtar um 236 kg. Þessi græja á að virka stór og karlmannleg ef segja má svo og jú „Retró“. Stýrið er frekar breitt og liggur vel við ökumanni, svo ökumaður situr svona í hálfgerðri bænastellingu (gera það ekki flestir Hondueigendur !!). Sætið er stórt og rúmgott, hægt að stilla sætishæð, það fer vel bæði um ökumann sem og farþega, fótpetalar eru staðsettir frekar neðarlega og liggja vel við. CBinn er engin „racegræja“ því þetta er fullvaxið mótorhjól og það fylgja því alltaf einhverjir mínusar þegar maður er svona stór er það ekki. Á litlum hraða þá virkar hjólið frekar þungt og ekki beint lipurt, en sætishæð er góð fyrir styttri menn og konur, þ.e.a.s. 790mm, svo ökumaður í meðalhæð ætti ekki að vera í  vandræðum að setja báða fætur niður ef þess er þörf. En hjólið „höndlar“ vel í gegnum beygjur og það er hægt að halla því nógu mikið fyrir flesta. Vindhlíf virkar vel og tekur nær allan vind frá eftir hluta ökumanns þrátt fyrir að ekið sé eins og menn séu staddir á lokaðri braut. Allur frágangur er eins og nær alltaf hjá Honda: Fyrsta flokks. Bensíntankur tekur 21 ltr. og það er bensínmælir, af þessu magni er 4.5 ltr. á varatank. Eins og áður sagt er vélin fjögurra strokka línumótor, ventlar eru sextán, það er bein innspýting á hjólinu og hún virkar mjög vel, ekkert hik eða hikst. Hestaflatala er ekki svo há sögð 114 og hámarkshraði er sagður 220 km. Framdempara pípur eru 43mm og það eru tveir hefðbundnir demparar að aftan, ekki mikið um stillingar á fjöðrun þessa hjóls en eitthvað þó. Að framan eru tveir 310mm diskar og bremsudælur eru með 4 stimplum, að aftan er einn 256 mm diskur. Mælaborð er með slatta af ljósum sem og alls konar stillingar til að muna hitt og þetta og hraða og snúningsmæli í þessu analogue kerfi sem menn eru mishrifnir af.  Þessi sleggja er sögð fara 17 km á einum lítra svo nú er bara að reikna hvað græjan eyðir á 100 km !! Hjólið fær góða dóma fyrir vélina og virkni hennar, þægilegt, hentar í flest, en það neikvæða er aðeins of hátt verð miðað við samkeppnina, smá titringur á 4000 snúningum. Nær allir eigendur þessa hjóls gefa því fyrstu einkunn en þrátt fyrir það og hafa verið í sölu lengi frá fyrstu kynningu þá hefur þessi CB aldrei selst í miklu magni. En gleymum ekki að þetta er HONDA og það segja sumir að það séu bestu hjólin, reyndar svona okkar á milli þá segja Súkku, Yamma og Kawaeigendur það sama að þeirra hjól séu bara allra best, Harley eigendur neita nær allir að ræða samanburð !!! Allt annað tæknilegt sem þið nennið ekki að lesa má finna á netinu eða jafnvel á fésinu.

Stolið og stílfært af netinu:

Óli bruni

Wednesday, 03 September 2014 18:42

2015 Harley Davidson Street 750 vatnskældur

Jæja það eru tveir menn búnir að væla !! mikið í mér að ekkert sé skrifað um draumhjólið þeirra Harley Davidson, þessir kæru félagar eiga báðir HONDUR og annar þeirra á líka Harley og hinn Súkku.
Súkku eigandinn hefur ekki hætt að tala um gæði Harley eftir að hann leigði sér eitt í USA í sumar, en öllu hefðbundu bulli slepptu (sem má birta mín vegna) þá er hér grein (sem allir lesa !!) um þessa nýju græju frá Harley og hún er sko vatnskæld, er hugsuð fyrir yngri kaupendur sem og eldri borgara (þessir tveir hér að ofan !!). 

Óli bruni (Mr. BURN)

 

2015 Harley Davidson Street 750 vatnskældur

 

Jæja hér ætlum við að fjalla um það nýjasta frá Harley verksmiðjunum og í raun alveg nýtt frá Harley allavega frá því V-Rod var kynntur til sögunar hér um árið. Hér er hjól sem höfða á til yngri aldurshóps hjólamanna og ekki veitir af segja sumir því gömlu loftpressurnar virðast ekki alveg ná til þeirra yngri. Ekki byrjuðu þessar prufur vel á  þessu nýja hjóli því stýrislegur höfðu verið of hertar á prufuhjólunum, en eins og menn vita þá bila Harley aldrei en stundum koma fram svona smá verksmiðjugallar ! En þessu var reddað með öðru hjóli til að prufa. Svona við fyrstu sýn líkist hjólið dulítið V-Rod en strax við fyrstu metrana þá kom í ljós að hjólið „höndlar“ betur en V-Rod, svona hlutlaust í beygjum og leggst vel inní þær án átaka. Þyngdarpuntur er neðarlega og hægt að leggja hjólið nokkuð vel án þess að eitthvað rekist niður. Street hjólið krúsar létt á 70 mílunum og virkar vel í lengri akstri þrátt fyrir að vera frekar lítið mótorhjól. Það vigtar um 500 pund með fullum bensíntank, sætishæð er 28.3 tommur (já já menn verða bara að snúa þessu yfir í kg og cm með apppppinu sínu). Hjólið var Dyno testað og niðurstaðan var nú svona og svona: Hestöfl 57.6 við 7955 rpm (snúninga) og togið var 43.2 lb.ft. við 3790 rpm, ekki svo slæmt af 750cc tveggja strokka hjóli. Það verður að koma því að það vantar nauðsynlega snúningshraðamælir á þetta hjól, en gleymum ekki að það má kaupa hann sem aukahlut fyrir lítið ! Á Dynobekknum var hjólið á 4.500 snúningum á 70 mílunum í sjötta gír, en útsláttur er við 8000 snúninga. Togið er gott í Streetinum er kannski ekki alvega á pari við t.d. 883 Sportinn, en hestöflin bæta vel fyrir það auk þess sem Streetinn snýst miklu meira, því hann er með keðjudrifna yfirliggjandi knastása og fjóra ventar á hvern strokk. Ekki er hægt að skrifa neina grein án þess að HONDA komi ekki við sögu og þá er gerður samanburður á NC700X Hondunni með útslátt á hæsta snúning en Honda gefur upp öndina á 6500 snúningum (slær út) komum að einu alvöru hjóli sem er Ducati Monster 696cc sem er gefin upp 65 hestar (við mótor) og togið er 44 lb.ft., svo Streetinn er bara að skila góðum niðurstöðum í afli og togi, ekki oft sem Harley gerir það miðað við verð. Streetinn er 4.6 sekúndur í 100 km hraða og fer ¼ míluna á 13.69 sekúndum og nær 93.8 mílna hraða, það tekur já NC700X Honduna 13.86 sekúndur að fara ¼ míluna og Hondan nær 94.2 mílna hraða. En berum saman tvo Harleyja þ.e.a.s. 883 Iron Sportsterinn og Streetinn á ¼ mílunni, þar tekur Streetinn, Sportsterinn í nefið því það tekur Sporsterinn 14.53 sekúndur að fara ¼ míluna og hann aðeins 90.8 mílna hraða. Til að það sé öruggt að fara hratt þá er nauðsyn að hafa góðar bremsur og þar fara málin að vandast aðeins, ja eins og var algengt hérna á árum áður hjá Harley, þ.e. lélegar bremsur. Það þarf að taka hressilega á frambremsu sem og afturbremsu til að hægja á Steetinum og þegar bremsur versna eftir því sem oftar er tekið hressilega á þeim, en það er einn diskur að framan og bremsudæla er með tveimur stimplum. Mælingar sýna að frá 100 km hraða tekur það 152 fet að stöðva Streetinn, en Harley verksmiðjurnar segjast vera að skoða þessi mál betur. Áseta er góð fyrir ökumann, en fyrir farþega er frekar þröngt ef segja má svo, en þröngt mega sáttir sitja segir einhversstaðar. Verðið á Streetinum er vel samkeppnisfært allavega í USA. Svo má líka skoða litla bróðir 750 Street hjólsins sem er mjög svipað en er 500 cc. Þarna eru komin tvö hjól sem örugglega höfða til yngri kaupenda, ja allavega vona Harley firmað það, hver verður fyrstur til að kaupa svona græju, ég veðja á einn í Vestmannaeyjum sem á HONDU sem og Harley og svo einn í Hafnarfirði sem á SÚKKU og HONDU, en dreymir um Harley á hverri nóttu eftir að hafa ekið svoleiðis græju í sumar, við sjáum til hvor verður á undan.

Stolið og stílfært af netinu:

Óli bruni

Monday, 01 September 2014 17:11

Enn meira frá Óla bruna

Hér er svo mynd af átta hjólum þar sem skilgreint er hvaða heiti fylgir hvaða útliti eftir breytingar, t.d. er sumum tamt að kalla allt Cafe Racer þó í raun sé hjól í Brat stíl, en við lærum á hverjum degi eitthvað.

Monday, 01 September 2014 10:08

Meira frá Óla bruna

Á svokallaðri menningarnótt og þarna í miðbænum var haldin Custom Bike show og þar sem ég (Óli bruni) var í dómnefnd ásamt Einari Malbora og Njáli öku-
kennara. Þá náði ég mér í fyrstu verðlaun í breytt hjól fyrir Yammann sem ég "eyðilagði" síðasta vetur (sjá meðf. mynd)


p.s. Uss þetta er sjúkdómur að vilja bara fjalla um sjálfan sig, ætli þetta sé Hondu eitrun !!!!

Ein breyting er orðin á Yamma frá þessari mynd þ.e. komin nýr frambremsudiskur svona fljótandi og já annað stýri, maður jú alltaf að breyta einhverju !!!

Monday, 01 September 2014 17:02

Frá Óla bruna

Hér er mynd af þremur eldri borgurum sem standa, og allavega tveir þeirra standa í einhverju sem kallaður er rockstandur (ala Spessi), en ég fylgi aldrei neinum línum !!!  Á þessari mynd er frá vinstri talið Egill Óskabörn Óðins, Spessi besti ljósmyndari landsins og svo bara ég (Óli bruni).

Myndin er tekin (já já ég veit engin HOnda) þar síðasta laugardag á svokallaðri menningarnótt og þarna í miðbænum var haldin Custom Bike show.

(meira síðar)

 

Mike „the bike“ Hailwood

Hver man ekki eftir ofangreindum kappakstursökumanni mótorhjóla, ef ekki þá hafa menn hugsanlega gleymt að lesa um mótorhjól svona almennt (smá grín). Mike Hailwood er og verður besti hjólaökumaður heimsins og eflaust segja margir hvað með alla hina sem keppt hafa á undan og eftir að Mike dó, eins og t.d. Giacomo Agostini sem reyndar Mike keppti við í mörg skipti, eða Doohan, Valentino Rossi, Phil Read o.fl. o.fl. Það verður að skoða þetta í réttu samhengi og miða einnig við hvaða hjólum menn voru að keppa á. En Mike var einn af þessum mönnum sem bara settist uppá hjólið sem nota átti í viðkomandi kappakstur og ók af stað, varð yfirleitt nr. eitt nema eitthvað bilaði. Af hverju var hann kallaður The bike, jú hann gat ekið öllu með stæl. Hann var ekkert mikið fyrir að kvarta yfir hinu og þessu, það bara reyndi á hans eiginleika. Hann var af ríku fólki komin og pabbi hans keypti allt það besta í mótorhjólaheiminum í upphafi fyrir hinn unga son, en gamli maðurinn hafði einnig keppt í kappakstri á sínum yngri árum, en þegar Mike var að vaxa úr grasi rak pabbi hans mótorhjólaumboð. Mike byrjaði á minibike á grasflötum nærri heimili sýnu, mjög svo ungur.  Mike reyndi fyrir sér á menntabrautinni en hætti fljótlega, fór síðan að vinna hjá pabba gamla og síðan hjá Triumph firmanu. Vegna ríkidæmis  Mikes eða réttara sagt pabba hans, varð það miklu erfiðara fyrir Mike að sanna sig í upphafi fyrir öllum hinum sem nær alltaf komu úr fátæku umhverfi. En það tók Mike yfirleitt ekki langan tíma að sanna sig, bæði á brautinni sem utan hennar, því hann var talin með skemmtilegri mönnum=hrókur alls fagnaðar og aldrei nein „prímadonna“. Mike var fæddur 2. Apríl 1940 og dó í bílslysi ásamt dóttur sinni 23. mars 1981 aðeins fjörtíu ára gamall. Hvenær hófst svo saga hans á kappakstursbrautum heimsins jú á því herrans ári 1957 og þá á Oulton Park og var hann rétt orðin 17 ára, náði þá strax ellefta sæti. Strax á árinu 1958 vann hann sinn fyrsta kappakstur þá þolaksturskeppni í Thruxton 500. Hann hélt áfram að taka menn í nefið, en síðan kom að því að Honda menn sáu til Mikes og hann fór að keppa fyrir þá árið 1961. Og strax sama ár var Mike fyrsti maðurinn í sögunni til að vinna þrjá kappastra á Isle of Mann þegar hann vann í 125cc, 250cc og líka 500cc flokknum. Hann hefði líka unnið fjórða kappaksturinn ef keðja hefði ekki slitnað á 350cc AJS hjólinu hans hefði ekki slitnað. Það var síðan sama ár eða 1961 að Mike Hailwood varð 250cc heimsmeistari á fjögurra strokka Hondu. Árið eftir gekk Mike til liðs við MV Augusta og varð heimsmeistari með þeim fjögur ár í röð í 500cc flokknum. Síðan fór Mike aftur til Honda  og vann fjóra heimsmeistaratitla í viðbót í 250cc og 350cc flokkunum. Framagreint er bara hluti af því á þessum árum sem hann vann, t.d. árið 1965 vann hann Hutchinson 100  kappaksturinn á Silverstone á BSA Lightning Clubman svo það þurfti ekki Hondu til að vinna. En þessi kappakstur fór fram í mígandi rigningu og þarna sló hann við t.d. Triumph Bonneville verksmiðju „preppuðu“ hjólunum. Meðalhraði Mike í þessari keppni var 134 km/klst. Eflaust er Hailwood þekktastur fyrir alla sýna vinninga í TT keppnum á Isle of Man (eða Manarkappaksturinn eins og ég las nýlega í nýrri Íslenskri mótorhjólabók), því þegar árið 1967 gekk í garð hafði Mike unnið þarna tólf sinnum, en frægsta keppni hans var eflaust sú á árinu 1967 þegar hann og Agostini áttust við í Senior TT, en endaði með því að Mike vann, meðalhraði hans voru 175.05 km/klst. og það met stóð í ein átta ár, þessa keppni vann hann á Hondu RC181. Áður en lengra er haldið þá hætti Mike að keppa á mótorhjólum og sneri sér að kappakstri bíla og gerði góða hluti þar bæði í Formúlu Eitt og World Sport Cars, vann t.d. árið 1972 Formúlu tvö Evrópu titilinn og komst á pall árið 1969 í 24 tíma keppni Le Mans, lesa má betur á internetinu um afrek Mike í bifreiðakappakstri, en hann hætti að keppa á bílum árið 1974 eftir að hafa slasast nokkuð mikið í keppni í þýska Grand Prix í Nurburghringnum. En Mike var sko ekki hættur því 3. Júní 1978 kom hann til baka og keppti aftur í Isle of Man TT hjólakappakstrinum, þá búin að vera hættur í ellefu ár. Hann var orðin 38 ára og nær allir töldu að hann ætti engan möguleika á verðlaunasæti eftir svo langa fjarveru. Hann fékk hjól frá Ducati umboði í Manchester sem hét Sports Motorcycles, hjólið var Ducati 900SS með feringum og Mike kom öllum á óvart nema þeim sem þekktu hann og vann kappaksturinn með stæl, við gífurlegan fögnuð áhorfenda. Hann kom aftur árið á eftir í sömu keppni og ók þá „tútattara „ Suzuki RG500 og vann. Mætti síðan síðar þessa helgi á sama hjóli í Unlimited Classic keppina og slóst um fyrsta sætið við Alex nokkurn George sem ók 1100 Hondu og þar munaði aðeins tveim sekúndum á milli þeirra félaga en Alex vann. Eftir að Mike hætti keppni þá opnaði hann Hondu umboð í Birmingham í Englandi og hét það Hailwood and Gould (Rodney Gould einnig kappaksturhetja). Það var síðan sunnudaginn 21. Mars 1981 að Mike var að aka með börnum sínum tveimur þeim Michelle og David og á leiðinni að ná sér í fisk og franskar, þegar ökumaður stórar vörubifreiðar tók ranga ákvörðun og ók í veg fyrir Mike, dóttir hans Michelle lést samstundis en Mike og sonur hans voru fluttir á sjúkrahús þar sem Mike lést tveimur dögum síðar af meiðslum sínum, hann var 40 ára gamall, sonur hans David slapp með smávægileg meiðsli. Þess má geta að ökumaður vörubifreiðarinnar var aðeins sektaður um 100 pund. Sagan segir að Mike hefði sagt konu sinni sem og spákonu einni að hann myndi deyja 40 ára gamall í bifreiðaslysi og þá ekki í kappakstri. Saga Mike „The bike“ lifir góðu lífi og er margt gert til að minnast hans t.d. árleg Mike Hailwood Memorial Run í mars á hverju ári frá fyrrverandi Norton verksmiðjunum í Birmingham. Hailwood vann 76 Grand Prix kappakstra og komst 112 sinnum á pall í þeim kappakstri, 14 Isle of Man TT, 9 heimsmeistaratitla ofl. ofl. ofl. Ducati heiðraði minningu hans með því að smíða Ducati 900ss Hailwood replicu og voru seld um 7000 þannig hjól, Ducati endurtók reyndar leikinn aftur nokkuð mörgum árum síðar. Margt annað hefur verið gert til að minnast þessa heiðurs-manns t.d. var hann heiðursfélagi í AMA Motorcycle Hall of Fame árið 2000 og ári síðar International Motorsports Hall of Fame og minning hans lifir um ókomin ár.

Stolið og stílfært af netinu:  Óli bruni

 

ps fleiri myndir í "spjallinu" 

Hvað er líkt með blondínu og bresku mótorhjóli !!??

Jæja smá sönn saga af manni sem átti ljósku fyrir kærustu (konan hans í dag) og ók um á bresku mótorhjóli (breskt er best). Sagan hefst með því að nokkrir góðir vinir ákveða að hjóla austur fyrir fjall, njóta góða veðursins, já já þetta var fyrir nokkrum árum og þeir sem áttu hnakkaskraut að leyfa þeim að fljóta með. Nú það var haldið af stað og næsta stopp var Hveragerði, þar sem gert var stutt stopp og hjól yfirfarin, þið vitið að það verður að fara vel með gamla gripi, sko hjólin !! Nokkuð fyrir austan Selfoss, já breta eigendur fara alltaf langferðir, þá heyrir sá sem segir þessa sögu mikinn hávaða, svona járnaglamur og samhliða því þetta líka öskur frá ljóshærða hnakkaskrautinu. Það var sko nauðhemlað og farið af baki til að sjá ástæðu þessa alls. Sú ljóshærða stundi upp að henni verkjaði sko agalega í vinstri kálfann. Við nánari athugun kom í ljós að hressilega blæddi úr kálfa ljóskunnar og hún var með nokkuð stóran skurð á kálfanum. Ekki var mikið um plástra með í för, en eins og eigendur breskra mótorhjóla vita þá er alltaf haft með í för þetta gráa tape/límband (gaffer tape), því þetta límband má nota í allt. Næsti hálsklútur var síðan „teipaður“ utanum kálfann með gráa límbandinu. En hvað hafði valdið þessu slysi, jú afturljósið með númerafestingunni (já já þessi hjól titra aðeins en þó aðeins minna en Harley!!) á hafði dottið af og einhvern veginn fallið í götuna og þaðan í kálfa kærustunnar, já allt getur gerst. En það var auðsjáanlegt að það þurfti að sauma þetta sár svo nú var haldið að sjúkrahúsinu á Selfossi til að láta rimpa þetta saman, að sjálfsögðu var afturljósið með númerinu tekið með. Eins og eðlilegt er þá var nú ekki hlaupið að því að fá einhvern til að sauma ljóskuna saman þ.e. sárið áðurnefnda. Nú tók við bið og lengri bið og enn lengri bið eftir lækni sem mætti um síðir, virtist hafa fermst fyrir hálfu ári miðað við útlit. Hann skalf svo mikið við þessa „stóru“ aðgerð á maður hélt að það myndi líða yfir hann. Kannski var það útlit okkar, allt þetta leður, skegg og tattoo, hver veit. En þegar þessu var öllu lokið var myrkur skollið á og nú voru góð ráð dýr, því að aka í myrkri án þess að hafa afturljós var nú ekki heppilegt, þið vitið tugtinn (löggan) og allt það. Hvað gera menn jú eins og allir vita þá geta eigendur breskra mótorhjóla gert við allt eða bara búið það til. Svo nú var tekið til hendinni, náð í smá vírbúta og límbandið góð, ljósið tengt , skoðað hvort allt virkaði, síðan var blessað ljós „teipað“ aftan á hnakkaskrautið (ljóskan) og mikið hlegið að þessu. En við komust heim án annarra áfalla. Sú ljóshærða sagði daginn eftir: heyrðu góði, nú ertu búin að merkja mig með stóru öri, að auki er ég orðin hluti af þessu blessaða hjóli þínu, þú losnar aldrei við mig úr þessu það er ljóst. Enn má sjá örið á ljóskunni rúmum þrjátíu árum síðar, en bresku hjólin hafa farið og komið= Breskt er langbest með ljósku með.

Óli bruni.

„Sannar“ hetjusögur mótorhjólamanna  !!!!

Við höfum allir/öll heyrt sögur um ofsahraða á mótorhjóli, hafa stungið lögguna af, rétt sloppið við að lenda á stórum vörubíl, slæma vegi, hrikalegt veður o.fl.  o.fl. Jæja alltaf hægt að bæta við „sönnum“ sögum, því alltaf þegar mótorhjólmenn hittast þá koma sögur af hinu og þessu. Þessi hér gerist á bensínstöð þar sem gamall jálkur sem vinnur á stöðinni sér þegar ungur maður á mótorhjóli stöðvar við næstu bensíndælu:  Sá gamli segir, þetta er helvíti flott mótorhjól sem þú ert á, hvað er þetta, Harley, Kawasaki eða Honda ?? Nei segir sá ungi þetta er 450 Husaberg !! Nú segir sá gamli eitthvað nýtt frá hrísgrjónalandi !! Nú frá Svíþjóð, ég hélt nú bara að þeir gætu bara framleitt félagsmála-vandamál þessir Svíar !! Hvað kemst þetta hratt segir sá gamli, nú ekki nema í 140 km, uss uss þegar ég var ungur átti ég Harley Davidson árgerð 1949 og hann sko komst í 130 í öðrum gír skal ég sko segja þér og þegar maður skipti í þriðja lyfti hann framdekki !! og þín græja kemst bara í 140 !! Ja hérna segir sá gamli. Nú er þetta bara notað utanvega að mestu leiti, já nú skil ég betur, með þessi ræfilslegu dekk og þetta er allt svo lítið og hálf hallærislegt finnst mér segir sá gamli, bara með einn dempara að aftan. Hvað er svona græja þung, nú ekki nema 130 kg, uss uss maður verður nú að hafa einhverja vigt undir sér til að kalla þetta mótorhjól, gamli Harleyinn minn var sko yfir þrjúhundruð kíló, það var sko alvöru mótorhjól og fjöðrun var eins og á Kadilják. Maður þarf sko vigt og afl til að geta sagt að maður sé á mótorhjóli segir sá gamli. Heyrðu ungi maður segir sá gamli við hérna á stöðinni seljum sko fullt af bætiefnum í bensín, eitt þeirra eikur afl um ca. 30% þér veitti nú ekki af því að fá þér svoleiðis svo þetta sænska undur komist nú eitthvað áfram, ég seldi einum Hondu eiganda þetta efni um daginn og meira segja á Hondu komst hann yfir 200 km hraða skal ég segja þér, já alveg satt sagði mér það sjálfur og þessi Honda var bara 500 kúbik og tveggja strokka skal ég segja þér. Þetta er mjög ódýrt miðað við gæðin skal ég segja þér maður lifandi, nú þú vilt þetta ekki, skil ekki þennan ungdóm í dag. Heyrðu segir sá gamli hvaða dæld er þetta á hljóðkútnum hjá þér ?? Sá ungi orðin þreyttur á öllu bullinu og segir ég var að reyna að stökkva yfir Almannagjá og náði ekki alveg yfir. Nú segir sá gamli það er nú ekkert ég man hérna fyrir mörgum árum að ég og vinur minn Heimir sem sat aftaná vorum á langt yfir 200 km hraða á malarvegi þegar allt í einu að rolla með lamb í eftirdragi, hleypur í veg fyrir okkur, þú skilur það þíðir ekkert að reyna að hemla á mölinni sko, svo ég heyri Heimi öskra: Torfi Torfi, ég heit sko Torfi skítur sá gamli inní, beygðu til hægri !!! beygðu til hægri og ég gerði það segir sá gamli og hvað heldurðu ég Heimir og Harleyinn fljúgum fram af háum kanti, örugglega langt yfir 20 metra skal ég segja þér, svo ég öskra á Heimi að halda sér fast. Og nú eru góð ráð dýr segir sá gamli því fyrir neðan okkur Heimi er bara fullt af stóru grjóti, en svona 5-10 metra til vinstri við okkur er smá sandræma svo ég halla Harleyinum í loftinu og næ að lenda á þessum eina stað sem auður var af grjóti segir sá gamli og er nú orðin rauður í framan að rifja þetta allt upp !! Við Heimir lendum bara snyrtilega og þar sem það er sko alvöru fjöðrun á Harley þá er 20 metra stökk ekkert mál skal ég segja þér maður lifandi !! Jæja við náðum sko að stöðva á tveimur metrum, sko það voru sko alvöru borðabremsur á Harley. Við fáum okkur smá Pilsner til að róa taugarnar en sjáum svo fljótlega að það verður eftir að komast upp aftur úr þessu gili segir sá gamli. Nú segir Heimir við mig: Torfi þú bara ert ekki nógu kaldur að keyra nú tek ég við, því það þarf að taka á þessum græjum. Jæja segir sá gamli við reyndum við háa brekku uppúr þessu gili, en Harleyinn var bara of aflmikill svo við þurftu að hleypa aðeins úr afturdekki sko til að fá betra viðnám skal ég segja þér, þetta er sko gott að vita ungi maður að hleypa aðeins úr !! Þetta vissir þú ekki er það !!

Hvað ertu að flýta þér segir sá gamli við unga manninn á Husaberginu, heyrðu þú lætur það nú eftir mér að heyra söguna til enda segir sá gamli. Jæja við sko komust uppúr gilinu og sko spólandi alla leið, en skömmu síðar þá varð Harleyinn bensínlaus maður lifandi. Það voru um 50 km í næstu bensínstöð. Þá segir Heimir við mig: Torfi sérðu vörubílinn sem nálgast okkur, ég húkka sko far með honum !! Já sko segir sá gamli Heimir grípur bara í afturhluta vörubílsins þegar hann ekur fram hjá okkur og við bara teikum (þetta orð þekkja allir eldri borgarar, en það þíðir að hanga aftan í bíl) að næstu bensínstöð og þar sem Harley er svo lipurt mótorhjól þá var þetta ekkert mál þó við værum tveir á hjólinu, sko hann Heimir er sko hraustur maður skal ég nú segja þér, er sko enn að æfa þó gamall sé. Nú við bara rúllum þetta áfram, en svo allt í einu þá beygir helvítis vörubíllinn áður en við komum að bensínstöðinni, Heimir sleppir en þá höfðu gömlu skórnir hans fest í einhverju á vörubílnum (laus sóli),  ég öskra Heimir Heimir þér var nær að hafa ekki tímt að kaupa þér nýja mótorhjólaklossa !! Nú segir sá gamli ég hélt að löppin myndi bara rifna af aumingja Heimi, en hann er sko svo hraustur maður lifandi. En svona vorum við sko dregnir áfram í allavega 5 klukkustundir skal ég sko segja þér, hvað ekki fara ungi maður segir sá gamli,ég er ekki búin með söguna !! Sá gamli heldur áfram það var sko eins gott að við áttum nóg af pilsner og vorum líka með brauð sem við borðuðum þarna í þessum drætti. Við höfðum reynt að öskra á vörubílstjórann en hann heyrði ekki neytt, þá datt Heimi snjallræði í hug tók eina tómu pilsner flöskuna og henti henni fram fyrir vörubifreiðina svo hún lenti á húddinu (vélarhlíf) og þá stöðvaði loksins helvítis vörubílstjórinn eftir 5 klukkustunda ferðalag !! En nú var annar skórinn hans Heimis alveg ónýtur segir sá gamli. Nú við fengum sko enga hjálp frá þessum helvítis vörubílstjóra, hann bara skildi okkur eftir þarna bensínlausa og með ónýtan mótorhjólaklossa, drykkjar og matarlausir maður lifandi. Nei nei bíddu aðeins ekki fara segir sá gamli við unga Husaberg manninn, sko þá allt í einu kemur þessi líka flotta blondína á svaka flottum bíl, hún var sko með þau stærstu brjóst sem ég hef séð sko. Nei nei ekki fara segir sá gamli við þann unga, en Husaberg maðurinn er bara rokinn í burtu og sagan ekki öll sögð, óþolinmæðin í þessu unga fólki í dag segir sá gamli við sjálfan sig, má ekki vera að neinu, ekki einu sinni að hlusta á góðar sannar mótorhjólasögur.

Óli bruni.