Wednesday, 10 June 2020 19:03

Gullmolinn

Allir vilja eiga Hondu CB750 allavega einu sinni og þá er ég að meina fyrsta “súper” bike hjólið sem kom í heiminn 1969 (sagt frá því 1968) og hjólið með einum yfirliggjandi knastás, diskabremsu að framan, rafstarti og fjórir strokkar, hvílík græja, aumingja bretarnir bara grétu í nokkra mánuði og eflaust gráta enn.

Ég eins og fleiri eignaðist fyrstu Honduna mína því herrans ári 1966 sem var heil 50 kúbic og þarna örfáum árum síðar sá ég þetta fyrsta ofurhjól: Hondu CB750, lak ekki olíu og fór nær alltaf í gang. Já ég ásamt tug þúsundum annarra dreymdi um þessa græju og ef þessir þrír sem lesa þetta þá geta þeir fengið allar upplýsingar um fjölda, árgerðir, liti og hverjir áttu þessar fyrstu CB750 sem komu til Íslands geta þá spurt Herra Hondu Tryggva “B” Sigurðsson, ef hann veit það ekki hefur það ekki gerst !

Jæja örfá ár fram í tímann eða til ársins 2019, síðasta árið sem allt var í lagi ekki satt eða hvað. Þá heyrði ég af því að einn eða tveir væru að flytja inn þessi ofurhjól í bunkum, flest nær ónotuð (ath. þetta er skrifað til að hafa gaman af smá bulli !!), í flestum tilfellum bara einn eigandi og öll komu þau frá “guðs eigin landi” USA. Þetta voru allt kjörgripir og á svo góðu verði að engin leið væri fyrir venjulegan mann/konu að flytja inn sjálfur og enda á svona góðu verði með flutning tollum o.s.frv.

Ég skoðaði nokkrar ofurHondur, já þó það væru smá göt á pústi (þessi fjóra í fjóra púst kosta lítið !!) og smá lakkviðgerðir þá voru þetta allt kosta kaup, já maður lifandi. En þar sem ég er orðin frekar fullorðin já meira segja löglegt gamalmenni, sé frekar illa og heyri lítið, þá bara fann ég ekki rétta hjólið.

Svo var það einn daginn þegar ég var að skoða eitt af þessum græjum sá ég annað í viðkomandi skúr sem bara leit virkilega vel út, ja sko miðað við mína sjón ! Ég hvarf aftur til ársins 1969 og hálf skalf í hnjánum, já bara eins og á fyrsta alvöru stefnumótinu eða réttara sagt þegar ég sá fyrstu Honduna mína heima hjá Gunnari heitnum Bernburg. Ég spurði: Er þetta flotta hjól til sölu ?

Viðkomandi sagði: Sko þetta er algjör GULLMOLI er eins og nýtt, en ég á það ekki, er bara hérna í smá yfirhalningu og er EKKI til sölu. Ég nefndi tölu sem ég taldi að væri virkilega gott verð jafnvel þó þetta væri GULLMOLI enda hjólið GULL-litað. Það eina sem skyggði á þessa dásemd var að einhver hafði haft fyrir því að mála svona hálfgerðar skrautrandir á bæði bensíntank og hliðarhlífar, en Sko GULLMOLINN var með original lakkinu og eins og allir vita þá bara elska ég allt original !

Nokkrum dögum síðar er ég mættur til raunverulegs eiganda og vildi ræða kaup á GULLMOLANUM, þar fékk ég sögu hjólsins aftur og það hafi verið gert upp af “toppmanni” hér á landi, hjólið væri eins og nýtt og nær algjörlega original, nema pústkerfi sem væri nýtt.

 

Reyndar sá ég já já var með gleraugu þarna, að smá frávik frá original t.d. krómaður afturgaffal og standpedalar og málaðir blöndungar. En þetta voru smáatriði fannst mér, prufaði ofurhjólið tvö til þrjú hundruð metra og eins og allir vita þá á ekki að þurfa að prufa Hondu langt. Kaupin handsöluð og fyrrverandi eigandi sagði mér aftur: Að hann hafi átt hjólið mjög stuttan tíma og mjög lítið ekið því, já bara svipað og ég.

GULLMOLINN er komin heim og já fimmtíu og einu ári eftir að ég sá fyrst Hondu CB750 er ég búin að eignast fyrsta spúperbike heimsins, já já bretar áttu sitt og svo auðvitað kom alvöruhjól frá Kawaski Z1/Z900, en það er nú allt önnur saga ! Nú stend ég þarna og horfi á GULLMOLAN eins og ástfanginn unglingur. Hvað skal gera ? halda því svona original með þessum indjánaröndum eða hvað ??

Nokkra daga fram í tímann og með miklu betri gleraugum sé ég: Rangt aftur tannhjól, röng keðja, framdekk er eflaust original, teinar og felgur eru eflaust original, sætisáklæði er nýtt, en svampur eflaust original, framfjörun er svona frekar slöpp og það skoðað og þá kemur í ljós að fagmaður hefur verið að verki: Demparapípur (efri hluti) eru handónýtar og málað hefur verið yfir ryð og skemmdir og svo settar gúmmihosur yfir. Inní dempurum er eflaust original olían ja sko þessir örfáu dropar. Bæði bretti eru þannig að það þyrfti að króma þau eða kaupa ný. Sviss/kveikjulás er á röngum stað ofl. ofl.

Nokkuð margir mánuðir fram í tímann og hvað hefur eiginlega gerst á þessum mánuðum ? Varla mikil vinna í GULLMOLANUM, en jú þar sem ég vill bara “original” hjól þá er hér smá listi:

Skipt um felgur og settir riðfríir teinar, nýtt sæti, ný uppgert fram og afturbretti, ný framlugt, ný stefnuljós, nýtt pedalasett, nýr bremsudiskur að framan, ný keðja, ný tannhjól bæði framan og aftan, nýtt framdekk og slanga, nýjar bremsurslöngur að framan, nýtt stýri, nýr hraða og snúningshraðamælir, ný handföng og já þetta original púst fékk nýjan eiganda því ekki er hægt að hafa óstimplað pústkerfi á GULLMOLA. Bretti, hliðarhlífar sem og bensíntankur málað og svo fullt af öðru sem ég bara man ekki því orðin gamall og gleymin !

Loksins loksins hægt að fara út á GULLMOLANUM, fallegt veður, logn og já sól. Hjólið sett í gang með nýrri olíu og síu, má bæta við að það gormur nokkur sem er í síuhúsi var á röngum stað svo sía gerði bara mjög lítið ! Vegurinn blasir við mér og ég er sko lagður af stað á fyrsta súper bike heimsins og já mínu. Hljóðið er þannig að fólk snýr sér við, brosir og veifar, eða var þetta fingur ! Fyrsti gír, annar, þriðji, fjórði og svo fimmti, en eins og allir vita þá er ofurafl í þessum Hondum og því hægt að taka hressilega á því. En hvað hjólið hikar aðeins í fimmta gír á vissum snúning en hressist við ef því er gefið inn. Því líkt afl og aksturseiginleikar, skrítið að bretarnir skildu alltaf vinna þessar Hondur fyrstu árin! En þetta hik er mér ekki að skapi svo eftir góðan hring þá er GUllMOLIN settur aftur á bekkinn og byrjað að skoða.

 

Fyrst er það blöndungar og þá jettastærð, jú bara nokkuð gott og flothæð (já smá tæknibull líka), en er ekki rétt að skoða kerti (nei ekki vaxkerti) og ytri kerti eru vel staðsett en þessi tvö í miðjunni, öruggt að það hefur verið þjóðverji sem staðsetti þau. Eftir smá bras með miðjukertin (já ég sé ílla) þá kemur í ljós að sá sem skipti um kerti síðast, ja allavega þrjú þeirra hefur verið hrifin af fjölþjóða þjóðfélagi, því það eru þrjár tegundir af kertum í hjólinu, þ.e.a.s. frá þremur framleiðendum, þrjú með sama hitastiga eins og sagt er, en eitt er öðru vísi eins og eðlilegt er í fjölþjóðasamfélögum, en frekar óhollt fyrir mótora !!!

Eftir smá bras og stillingar, já verð að bæta því við að einn sem á eins superbike og býr á eyju við suðurlandið var um tvö ár a.m.k. að stilla sitt ofurhjól og þá aðallega blöndunga, ég get því ekki kvartað mikið. Nú er þessari löngu sögu að ljúka eða hvað, nei eflaust ekki, því gömul hjól eru eins og gamlir menn: Þurfa smá ást, umhyggju og viðhald !!!

P.S. ljósmyndir fylgja þessari “bullsögu” og eru myndir af hjólinu fyrir og eftir !!!

Höfundur er eigandi GULLMOLANS (Óli bruni)

 

Gullmolinn 1-2

Read 771 times