Monday, 19 June 2017 18:28

Stóra ferðalagið á besta hjóli heims (bullsaga) !!

Hann hafði hugsað um þessa ferð svo vikum skipti, já allavega í tíu mánuði og spenningurinn hafði aukist með hverjum degi því hann ætlaði að fara í þriggja daga ferðalag ásamt félögum sínum. Þó hann ætti lang besta hjól heims þá var samt mikið sem huga þarf að fyrir svona langt ferðalag !

Í það fyrsta það var að finna heppilega gistingu fyrir alla þennan hóp því a.m.k. kosti ellefu manns ætluðu að fara í þessa löngu og erfiðu ferð því nú átti að aka a.m.k. 500 km aðra leiðina og ca. 1200 km alls, já svona ferðalag krefst mikils af mönnum og eins gott að vera vel undirbúin.

Gisting er fengin í tveimur tíu fermetra timburhúsum sem í raun hýsa bara fjóra í hvoru en þessi hópur er vel stemmdur og þekkjast vel. Lítið mál að þó nokkrir hrjóti og leysi vind nær stöðugt, hvað eru þrjár nætur undir smá hljóðum frá báðum endum. Kannski verra að það er bara ein snyrting og hún er inní þessum tíu fermetrum. En það er einn stór plús: Fjögurra manna heitur potur á milli húsanna og hvað er dásamlegra en heitur pottur með tíu öðrum sveittum körlum, já í potti sem tekur bara fjóra !!

Minn maður hóf yfirferð á besta hjólinu um átta mánuðum fyrir ferðalagið og það var að ýmsu að huga fyrir þessa ferð. T.d. eru hjólbarðar nógu góðir fyrir þessa 1000 km, mun drifkeðja halda þetta út, það þarf að skipta um olíu og síu, það þarf að smyrja barka sem og annað sem smyrja þarf. Nú svo verður auðvitað að bóna hjólið nokkrum sinnum svo það haldi sínum eðalgljáa.

Olíuskipti gengu vel fyrir sig og ekki mikið af olíu fór á gólfið í skúrnum og þó, jú við síuskipti þá lak nokkuð af olíu á gólfið og minnti minn mann á umtal um leka Harley eða hvað þá gamla breta. En minn maður náði að þrífa þetta áður en eiginkonan skammar hann fyrir bölvaðan sóðaskap eina ferðina enn. Svo tók við smurherferð á börkum, alls konar nipplum ofl. Það var bölvaður hausverkur að ná undan dekkjum á þessari grjæu, já þessar leiðbeiningar frá hrísgjónalandi eru alltof flóknar fyrir minn mann, en að lokum hafðist þetta og nú var farið á næsta viðurkennda dekkjaverkstæði með báðar felgur til að nálgast nýja hjólbarða, sem svona okkar á milli voru ekki alveg nýir, þeir voru nokkurra ára gamlir og því á góðu verði. Já minn maður hafði lært ýmislegt af félögum sínum og þá sérstaklega einum sem segir stöðugt: afsláttur og já allt frítt er gott !!

Nýju gömlu hjólbarðarnir eru komnir undir og ekki voru leiðbeiningarnar um hvernig ætti að setja þetta undir betri úff alltof flókið. En við hjólbarðaskipti tók minn maður eftir því að drifkeðja hafði ekki verið smurð í a.m.k. mánuð ! Nú eru liðnir nokkuð margir mánuðir og minn maður er marg búin að fara yfir besta hjólið og hefur ekkert notað það þó ýmiss tækifæri hafi blasað við. Nei eftir að hafa bónað hjólið ca. níu sinnum þessa átta mánuði þá var eftir að fara eina yfirferð enn með sérstöku hlífðarbóni.

Dagurinn nálgast og spenningurinn sem og smá kvíði eykst, það þarf líka að pakka og konan hans neitar að pakka fyrir hann, hún segir bara þú getur sjálfur pakkað fyrir þessa hommaferð. Hann hugsar: Hvaða hvaða það er bara einn slíkur í þessum hóp og hann ætlar ekki með ! Minn maður er í vandræðum með að koma öllu fyrir því sem nauðsynlegt er að taka með. T.d. fjórar nærbuxur, tíu sokkar, átta bolir, fimm peysur, fjórar gallabuxur og einar sparibuxur, þrennar skyrtur, gönguskór, strigaskór, inniskór (konan bannar honum að ganga á sokkaleystunum), sundskýla, regngalli, goritexgalli, mótorhjólaklossar, vatnsheldar hlífar yfir klossa, tveir hjálmar ??, tvenn sólgleraugu, fernir hanskar af ýmsum gerðum og það minnir hann á að skoða hvort hitahandföngin á hjólinu virki. Síðan eru það ýmiss verkfæri, auka olía, olía fyrir keðju. Síðan auðvitað hreinsiefni fyrir hjólið og tuskur.

 

Jæja búið að hlaða hjólið og það eru tíu dagar í ferðina löngu, það lítur út eins og cameldýr sem ætlar að fara yfir stóra eyðimörk, er það ofhlaðið, nei ætti að vera í lagi, þó á bestahjólinu séu hliðartöskur, topptaska og tanktaska, kannsi ætti hann að hafa bakpoka fyrir nesti sem konan hefur tekið til fyrir hann og já nesti fyrir þrjá daga tekur líka sitt pláss. Svo má auðvitað ekki gleyma guðaveigunum sem konan má ekki vita af og þær verða faldar þangað til daginn sem lagt er í hann og þá þeim laumað á góðan stað. Vonandi duga þessir tveir viskípelar, ja hann ætlar að gefa með sér, já þrír bjórar fylgja með líka, nú ætlar minn maður að detta í það !! Það verður gaman að skála við félaga sína í heita pottinum.

Það er á morgun og minn maður sefur ekkert, hann hafði tekið sér tveggja daga frí fyrir ferðina, því það þarf að vera vel undirbúin. Síðasta nóttin er löng og honum kemur varla dúr á auga, maginn er í hnút og spenningurinn er að fara með hann, þetta verður sko gaman. Konan fer ekki á fætur á undan honum og kvartar yfir því að morgunmaturinn sé ekki tilbúin eins og venjan er ! En minn maður var lystarlaus með öllu. Það tók smá tíma að róa konuna og lagaðist ekki fyrr en á öðrum kaffibolla, eftir þrjú egg bacon og ristað brauð fyrir elskuna hans. Hún kveður hann ekki heldur bara spyr hvort hann verði komin heim svo hann geti græjað sunnudagsmatinn að vanda !!

Besta hjólið er lengi í gang og kannski ekki skrítið því það er örugglega spennt lika. Svo er það tékklistinn frá konunni, síðan hjólið skoðað vel með það er að hitna því eins og allir vita fer engin af stað áður en vél hjólsins er orðin vel heit. Minn maður drepur þrisvar á hjólinu áður en hann kemst af stað, hendur skjálfa aðeins. Hann ekur rólega að þeim stað þar sem hópurinn mun hittast og hann er mættur 45 mínútum áður en lagt er af stað, það mun engin þurfa að bíða eftir honum.

Menn mæta síðan koll af kolli, spjalla saman um væntanlega ferð og skoða hjóla hvors annars, hvaða hjól er mest skoðað ? Jú auðvitað besta hjólið og menn svona velta fyrir sér hvað allur þessi farangur sé að gera á hjólinu, ætli hann sé að taka fyrir hluta hópsins, því sumir eru bara með lítinn bakpoka ! Minn maður furðar sig á þessu kæruleysi, að leggjast í svona ferðalag ílla undirbúin, en það ekki hans mál en hann hugsar: Ég get allavega aðstoðað eins og vanalega í þessum ferðalögum, hann man vel eftir manninum sem lagði af stað á nær ónýtu afturdekki og sá á meira segja heildsölu sem selur hjólbarða, svo var það einn sem ók á tegund frá landi furðulegra forseta og sú græja bilaði auðvitað og minn maður var sá eini með verkfæri, en það hjálpaði ekki til í það sinnið, eins og búast mátti við af því hjóli hugsar hann.

Hann fer yfir reglur um hópakstur og minnir menn á hámarkshraða, menn eigi að halda hópinn og fara aldrei yfir 95 km hraða á klst. Bannað sé að lyfta framdekki, sem verður erfitt fyrir minn mann því besta hjólið er svo yfirhlaðið að aftan ! Nokkrir eru enn að setja bensín á sín hjól og aðrir þurfa að bíða á meðan, uss agaleysi hugsar minn maður.

Ferðin er hafin og minn maður leiði hópinn sinn og nú verður ekki stoppað fyrr en eftir námkvæmlega eina klukkustund, því ekki má þreyta menn, þreyttir menn eru hættulegir í umferðinni. Ferðin gengur hægt og mikið er um framúrakstur af öðrum ökutækjum, já þessir helvítis fávitar á húsbílum kunna ekki umferðareglurnar hugsar minn maður með sér þegar Fíat húsbíll ekur með ógnarhraða fram úr öllum hópnum, já meira segja í brekku. Þessi á Fíatinum veifar eins og óður maður þegar hann fer framúr og eflaust vegna þess að minn maður er félagi í húsbílaklúbb sem heitir: Gómarnir !!

 

Ferðalagið gengur vel, veðrið er gott og þessi stopp  einu sinni á klukkustunda fresti gera gæfumuninn, allir eru vel stemmdir, þó sumir séu eitthvað að tala um að gista á leiðinni, minn maður veit ekki til þessi að það ætti að gista á  leiðinni og hvers vegna þetta eru ekki nema rúmir 400 km á áfangastað. Þó ákveðið sé að hvert stopp sé nákvæmlega fimmtán mínútur, þá þarf alltaf að bíða eftir einhverjum og þá aðallega þessum sjúklingum sem enn reykja, minn maður hugsar með sér: eins gott að ég hætti þegar konan mín sagði mér það, en hún reykir nú enn svona þegar hún dettur í það allavega, en það er hennar mál að sjálfsögðu !

Áfangastaður nálgast og ekkert markvert hefur gerst á leiðinni nema í nágrenni við einn bæinn á leiðinni stöðvaði lögreglan þá og vildi vita hver ástæðan væri fyrir þessari lestarmyndun ? Já þessar löggur á þessum stað ættu nú að hugsa frekar um þennan hraðasktur sem þeir eru frægir fyrir að reyna að halda niðri. Þó minn maður bendi löggunni á óða manninn á Fíat húsbílnum þá verður sú löggan bara verri og segir: Ertu að grínast !! Já þessar löggur eru sérstakar, ætli þær verði ekki bráðum vopnaðar við öll og engin tækifæri, þá er eins og gott að segja ekki neitt því eflaust yrði vopninu beitt!!

Nú sjást þessi tvö fallegu hús og þau virðast nokkuð minni en ljósmyndir sýndu á heimasíðunni, malarvegurinn að húsunum hefur ekki verið heflaður í mjög mörg ár og það eru svo margar holur á honum að það gengur ekkert að forðast þær, það er hola við holu og að auki eru þær fullar af regnvatni og auðséð að það hafi ringt töluvert áður en hópurinn kom. Erfiðlega gengur að leggja hjólunum við húsin því jörð er blaut og hliðarstandarar síga niður í grasið, menn verða finna sér eitthvað til að setja undir þá svo hjólin haldist upprétt. Minn maður verður að finna stóra spítu því hjólið hans er frekar þungt !!

Húsin eru opnuð og á móti þeim taka óboðnir gestir í miklum mæli, það eru hundruðir af flugum þarna inni, lyktin er ekki góð og húsin virðast ekki hafa verið notuð lengi, það eru tvær tveggja manna kojur í hvoru húsi og við erum tólf með mér hugsar formaðurinn, átta manns í kojum og hinir á gólfinu, engar aukadýnur sjáanlegar en það eru lausar “sessur” í þessum eina sóffa í hvoru húsi, já þetta reddast hugsar minn maður þó sumir í hópnum séu farnir að tala um hver hafi pantað þetta og þeir ætli að fara leita sér að gistingu. Minn maður bendir á heitapottinn og segir til að létta á andrúmsloftinu: Nú fáum við okkur aðeins í tána og látum rennan í pottinn !! Það tekur nokkurn tíma að finna út hvernig eigi að láta renna í pottinn og það er auðséð að hann hefur ekki verið þrifinn í nokkuð langan tíma. Vatnið byrjar að renna og það er svona kakóbrúnt fyrstu tíu mínúturnar og að lokum verður það svona smá litað og minn maður brosir, dregur fram annan pelann sem hann faldi fyrir konunni. Bíður félögum sínum og þegar hann fær til baka er hann tómur !

Sumir eru að reyna að kveikja á grillinu og það gengur ekki alltof vel því brennarinn er ja svona aðeins ryðgaður og gasir flæðir frekar frjálslega, en þetta hefst og menn ætla að brenna af grindinni því hún ber þess merki að hún hafi ekki verið þrifin í langan tíma. Það komast fimm í pottinn í einu og þá með því að einn sitji í miðjunni, en þessir fimm ætla sér að nota hann og eru orðnir hressir og kalla stöðugt á meiri bjór og smá snaps, spyrja líka hvenær á að borða. Seinni pelinn er líka búinn og minn maður á bara einn bjór eftir !! Kvöldið er skemmtilegt menn vaða úr pottinum að grillinu, ná sér í brennda kótellettu og svo aftur í pottinn, það er orðin drulluslóð að pottinum að grillinu og inní bæði húsin, menn eru hættir að pissa inni því þetta eina klósett tekur ekki alltof vel við þegar sturtað er niður, eflaust er rotþróin full !! Kvöldið líður hratt og menn fara reyna koma sér fyrir, það var ákveðið að þessir yngstu fengju kojur og þessir gömlu væru á gólfinu, því þeir kæmust hvort er eð ekki uppí efri kojur !!

 

Minn maður á erfiða nótt, hann náði engum púða og þakkar nú fyrir að taka með sér öll þessi aukaföt, því hann liggur á þeim. Hrotur og búkhljóð eru á þeim nótum að það hefði verið betra að sofa á lestarstöð á háannatíma, en þetta var ódýrt og á heppilegum stað, já ekki nema þrjátíu km niður á aðalveginn og svo tíu km í næsta bæ. Menn eru líka að fara út til að pissa alla nóttina, því flestir voru með nóg af bjór fyrir sig. Minn maður liggur þarna og hugsar hvað þetta sé æði og gaman, hvað besta hjólið hafi farið vel með hann, enn þá allt í einu er stigið á lærið á honum og það hressilega og sá sem er þarna á ferð, hefur engar áhyggjur af því heldur rekur hressilega við og segir upphátt uss ég þarf að pissa aftur og nýbúin !!

Morgunverður á borðum kallar minn maður því klukkan er orðin átta og nú skal haldið í smá ferðalag um nágrennið og skoða fallegan foss sem og einhverja gamla kirkju. En menn eru eitthvað þreyttir, enda búnir að vera í löngu ferðalagi. Klukkan er orðin hálf ellefu og nú eru menn loksins komnir á fætur, sumir fara beint í pottinn sem er likari drullupotti en heitum potti, þrátt fyrir að gleymst hafi að skrúfa fyrir rennslið í hann, já menn eru líka fá sér smá bjór með þurru fransbrauði. Að lokum eru það fimm sem halda í þessa stuttu skoðunarferð um nágrennið og sú ferð er bara góð, minn maður kemst á klósettið í næsta bæ og fær sér líka aðeins að borða, því einhverjir borðuðu matinn hans sem konan hafði tekið til, en alltaf gaman að gleðja félaga sína.

Þegar komið er til baka er mikið stuð á staðnum, potturinn góði er í fullri notkun og grillið er líka í gangi, það eru pappadiskar útum allt utandyra sem innan, ásamt tómum bjórdósum. Þessir fimm eru varla búnir að leggja hjólunum þegar einn þeirra sem eftir varð kallar: Þið verið að drífa ykkur í næsta bæ og kaupa meira “bús” áður en lokað er. Minn maður segist redda þessu og leggur aftur af stað ásamt einum öðrum sem segist hvort er eða þurfa kaupa meiri mat fyrir sig. Kvöldið líður eins og fyrra kvöldið sem og nóttin, minn maður er orðin mjög þreyttur og sefur ekkert því hann drakk ekki mikið. En þetta er frábært góðir félagar og mikið fjör.

Helgin er liðin með tveimur skoðunarferðum fimm í þeirri fyrri en aðeins þrír í þeirri seinni !! Nú skal haldið heim, menn eru mislengi að vakna og því erfitt að fara að taka til. En minn maður fór framúr kl. sjö og fór að hreinsa upp rusl utandyra, síðan reynt að þrífa pottinn sem í raun gekk ekki, en leiguskilmálar voru á þeim nótum að húsunum yrði skilað hreinum og ekkert rusl á staðnum !! Það er ekki fyrr en uppúr tíu að fyrstu menn fara á fætur og röfla um að gott væri að fá eitthvað að borða, því löng ferð sé í vændum. Það er með herkjum að menn fást til að hjálpa við að taka til, en að lokum er þetta komið, þrír úr hópnum taka að sér að ferja rusl, en minn maður getur ekkert tekið því hans hjól er fullhlaðið. Lagt er af stað, veðrið er fallegt eins og það hefur verið alla helgina og minn maður minnir alla á að halda hópinn og huga að umferðahraða.

Það er stöðvað í næsta bæ og þessir þrír losa sig við allt ruslið og sumir fá sér puslu og kók, eða annað, minn maður fær sér tvær pulsur því hann er svangur vel. Menn tala ekki mikið en minnast á frábæra helgi og þynnku. Lagt er stað og það líður ekki langur tími þangað til allt í einu: Einn úr hópnum tekur framúr hinum og hverfur augsýn, það fylgja honum aðrir þrír skömmu síðar. Að lokum er það minn maður og sá næst elsti sem eftir eru og halda sér á réttum ökuhraða, en menn verða fá að spretta úr spori og þá sérstakleg þessir yngri, maður er ungur og leikur sér hugsar minn maður með sér. Að lokum er heim komið eftir frábæra helgi og minn maður getur ekki beðið eftir næstu ferð á næsta ári. Hann gengur frá hjólinu og öllum búnaði því annars myndi konan taka hann á teppið. Það er engin heima svo minn maður fer að þrífa hjólið og ekki veitir af því það er skítugt mjög, hann er varla hálfnaður þegar konan kemur heim og heilsar með orðunum: Er maturinn ekki að vera til, Sigga frænka og Gunni eru að koma í mat eftir hálftíma !!!!

Höfundur er:  fer aldrei í ferðalög, því konan gefur ekki leyfi !!

Heitur pottur

Read 1614 times