Monday, 02 November 2015 21:32

Að eiga aflmikið mótorhjól er “alveg” nauðsynlegt !!

Það kaupir engin heilvita maður vélarvana mótorhjól, sko við kaupum okkur ekkert minna en 1000cc græju og þá helst með fjórum strokkum, t.d. Súkku Bandit eða eitthvað svipað, allavega súkku sko.

Nú þessi sanna saga hefst í útjaðri stórborgarinnar Reykjavík og þá á bensínstöð. En söguhetjan setti bensín á hjólið, fékk sér eina með öllu og skolaði henni niður með lítilli kók (mikið atriði að hafa það litla kók !!). Minn maður sem notar aðeins seðla, engin kort fyrir hann sko. Borgar fyrir bensínið og meðlætið með einum 10.000 króna seðli, er aldrei með minni seðla, allavega ekki til að byrja með eftir heimsókn í bankann.

Fer útá plan horfir í kringum sig til að athuga hvort það sér einhver að horfa á hann og flotta hjólið hans. Jú hann sér eina ljósku á flottum Bimma sem horfir á hann og brosir sínu blíðasta. Minn maður brosir til baka og er lengi að setja á hjálminn og hanskana. Setur í gang og þenur hjólið hressilega, svona til að sýna ljóskunni “hvurslags” svaka græju hann er á. Ekur síðan af stað, horfir í speglana og tekur eftir því að ljóskan leggur líka af stað á sama tíma og er enn að horfa á hann.

Minn maður prjónar í burtu og heldur því áfram að hringtorgi sem er þarna rétt hjá, hann rétt nær beygjunni kringum hringtorgið því hann kom alltof hratt að því, var að sýnast fyrir ljóskuna !! Það er farið að rökkva og hann sér bílljós fyrir aftan sig og þó hann taki framúr nokkrum bílum, þá fylgja ljósin honum. Hann hugsar þetta er ljóskan sko og ég maður lifandi ætla að sýna henni hvað ég er flottur ökumaður á flottri græju.

Hann gefur meira inn og það líða varla nema nokkrar sekúndur og hann ekur á ógnahraða framhjá Litlu kaffistofunni. Hann er komin í 200 (sko segir söguna sjálfur) upp brekkuna og stefnir að Hveradalabrekkunni, hann er í góðum gír og horfir alltaf reglulega í speglana og enn fylgja ljósin honum, þessi Bimmi er alvörugræja hugsar hann. Nú er skrúfað hressilega uppá rörið og minn maður er alveg hættur að horfa á hraðamælin, heldur bara hangir á græjunni og tekur framúr öllum bílum sem blikka ljósum og flauta á hann stöðugt.

Nú taka Kambarnir við, flottar beygjur og gaman gaman eða þannig sko. Hann tekur fyrstu beygjuna á hraða sem hann ræður varla við, shit hugsar hann þegar hjólið er alveg komið útá brún og næsta beygja er komin, sem og að helvítis andskotans geðveika ljóskan á Bimmanum er enn alveg við afturljósið hjá honum og er að reyna að taka framúr honum niður Kambana.

 

Nei og aftur nei það skal sko aldrei gerast, hann gefur í og hugsar ég frekar drepst en að láta einhverja heimska ljósku taka mig í spyrnu !! Kambanir eru búnir og hann heldur að næsta hringtorgi og fer síðan inná planið hjá Olís, því hann er bara búin á því og ætlar að þykjast að fá sér kaffi. Hann er varla búin að leggja hjólinu, þegar svartur Bimmi rennur uppað hliðina á honum (ljóskan var á bláum Bimma hugsar hann) og útúr honum stígur gömul kona ja svona allavega um 80 ára gömul því hún er alveg hvíthærð með mikið af hrukkum. Sú gamla segir heyrðu vinur minn þér liggur dálítið á !! Ég er búin að elta þig frá bensínstöðinni þar sem þú misstir veskið þitt fullt af 10.000 krónu seðlum, ég þorði ekki að skilja það eftir og elti þig hingað væni minn. Og bætir við: Það var eins gott að þú ókst ekki hraðar en þú gerðir, því ég var á gamla bílnum mínum segir sú gamla.

Minn maður reynir að þakka fyrir sig og stamar upp þakka mikið, viltu fundarlaun ?? Nei nei segir sú gamla, þú ættir bara að safna þér fyrir aflmeira hjóli væni minn !! S

Sko þessi alveg gjörsamlega sanna saga segir okkur að það er yfirleitt ökumaður sem kemur hjólinu hratt við allar aðstæður, beint sem og í beygjum, en sögurnar sem súper ökumenn segja eru alltaf skemmtilegar þegar beygjur eru sagðar teknar á 180 km hraða og jafnvel þannig beygjur að jafnvel Rossi myndi ekki ná þeim. En góðar sögur eiga aldrei að líða fyrir sannleikann ekki satt.

Íló inurb

Ducati Monster 1200

Ducati Monster 1200

 

 

Read 2354 times