Friday, 27 February 2015 12:34

Triumph Scrambler 2015

Heyrst hefur að formaður öflugasta mótorhjólklúbbs Hafnarfjarðar langi mikið í mótorhjól frá Englandi og er það mjög skiljanlegt því Breskt er best. Því bað hann mig (eina ferðina enn) að skrifa eitthvað um mótorhjól framleitt í Englandi og því ekki að hafa það eitthvað sem maður þekkir af eigin raun: Triumph Scrambler 900. Hjól þetta var fyrst kynnt til sögunar árið 2006 og var hannað ef segja má svo til heiðurs frægs mótorhjólahönnuðar John Mockett en hann er sagður hafa hannað meðal annars síðasta gamla Triumphinn.

Scrambler 2

Scramblerinn á sér nokkra bræður því í raun er þetta sama hjólið og t.d. Bonneville og Thruxton hjólin frá Triumph, þ.e.a.s. sama grind og mótor, en kveikju gráða er önnur á Scrambler heldur en bræðrum hans þ.e.a.s. með 270 gráðu millibili (interval) og því er annað tog í Scramblernum og hljóð. Hjólið lítur út fyrir að vera svona utanvega græja með uppliggjandi pústkerfi og virkar hátt í sæti, en þó jafnvel frægir menn eins og t.d. David Beckham hafi farið í torfærutúr (sjá sjónvarpsþátt) á svipuðu hjóli (breytt) þá er þessi græja örugglega jafn heppileg í „enduró“ og t.d GS1200 BMW, en Scramblerinn vigtar 230 kg með öllum vökvum. En Scramblerinn er flottur á möl, já bara gaman að aka honum á malarvegi. Hönnun og útlit hjólsins er sótt í góða fyrirmynd sem er Triumph TR6C Trophy Special, það þarf ekki að finna upp hjólið oft.

Scrambler 3

Þeir sem sjá Scramblerinn í fyrsta sinn telja að þarna sé á ferðinni gamalt mótorhjól, en það er fjarri sannleikanum, því nýi Trumphinn lekur ekki olíu, fer í gang, (uss nú er maður einn fyrir austan fjall farin að hrista hausinn), hjólið er með nær öllu sem er í nýjum hjólum í dag, beinni innspýtingu, allt kveikjukerfið tölvustýrt, með skynjurum í pústi og innspýtingu. Stýrið er breitt um 86 cm og liggur vel fyrir ökumanni, áseta er góð, þú situr nokkuð uppréttur og þarft ekkert að vera teygja þig í neytt, en fyrir þá sem eru stuttir í annan endann þá er hjólið frekar hátt, sætishæð er gefin upp 825mm. Fram og afturbretti eru frekar stutt og svona „old style“, eins og sætið sem er frekar langt og flatt. Bensíntankur tekur 16 ltr.

Scrambler 4

 Nýjasta útgáfan kemur með svörtum mótor og nú eru felgur líka svartar, sem og stýri, þannig að hjólið virkar bara „röff“ og „töff“ á mann. Eins og áður sagt þá látið ekki gamaldags útlit plata ykkur, hjólið er virkilega skemmtilegt í akstri, togið er virkilega gott 50 pund fet við 4750 snúninga og hestöfl eru ekki mörg 59 miðað við 6800 snúninga, en virka miklu fleiri, enda tekur það ekki nema sex sekúndur að fara í hundrað, og uppgefin hámarkshraði er aðeins yfir tvöhundruð, en það má ekki eins og allir vita, bara í níutíu. Vélin er tveggja strokka með fjórum ventlum á hvern strokk og tveimur yfirliggjandi knastásum, gírkassi er fimm gíra og mjög gott er að skipta hjólinu, handföng fyrir kúplingu og bremsu eru stillanleg.

Scrambler 5 

Hægt er að kaupa alls kona aukahluti fyrir Scramblerinn, t.d. veltigrindur, mótorpönnu, snúningshraðamælir, annað sæti, bensínlok ofl. Svo bjóða auðvitað aðrir aðilar alls konar hluti til breytinga, hvort sem um er að ræða, mótorstækkun, annað pústkerfi o.s.frv. Það er ekki mikið mál að gera Scramblerinn eftir eigin höfði Triumph verksmiðjurnar eru að slá í gegn hjá kaupendum á öllum aldri, það sýna sölutölur. Allt annað tæknilegt má lesa á netinu. Nú er bara að sjá hvort formaðurinn kaupi sér eitthvað frá Englandi þ.e.a.s. breskt hjól, eða hvort skrifa þurfi nokkrar greinar í viðbót um þessar gæðagræjur. Læt að lokum fylgja með smá texta frá mótorhjólablaði:

“With a stunning visual heritage straight from the off-road trails and scrambler scene of the 1960s which it dominated, the Triumph Scrambler takes one of the most iconic images in motorcycling and brings it up to date with 21st century technology in a road-based package.” ----- Total Motorcycle

 spekur

Stolið og stílfært frá mér og netinu

Óli bruni

Read 3612 times