Monday, 16 February 2015 18:12

Suzuki GSX-R1000 árgerð 2015

Þetta er græja sem borðar Hondur í morgunmat segja sumir blaðamenn mótorhjólablaða, en hvað vita þeir. En hér er á ferðinni einn eitt snilldartækið frá „besta“ mótorhjólaframleiðanda heims!! 2015 Gixinn er sagður tæknilegt undur á tveimur hjólum. Mótor er hefðbundin fjögurra strokka línuvél 999cc, þjappa er 12,9:1, er vatnskæld, með tveimur yfirliggjandi knastásum, gírkassi er sex gíra og aflinu er komið til skila í öllum gírum og togið er líka mjög gott, þessi græja er hugsuð til að aka hratt (munum 90 km hámarkshraða) og uppgefin hámarkshraði er sagður 180 mílur á klst, ja svona rétt um 300 km á klst.

Allt þetta afl sem ökumaður hefur til umráða væri í raun alveg ónothæft ef ekki væri fyrir frábæra (ál) grind, góða fjöðrun, frábærar bremsur og annað góðgæti. Gixinn hefur verið í framleiðslu svo lengi sem elstu menn muna og 1000 græjan hefur náð því að vera besta hjólið í þessum stærðarflokk í yfir tíu ár og fengið titilinn The Top Performer (nú er S.A. farin að brosa, S.A. stendur fyrir Suzuki Always !!). Og nýjan 2015 græjan ætlar að standa undir nafni og öll þessi þróun þessa hjóls er sótt á brautir heimsins og þá aðallega MotoGP.

Gixinn 2

Hjólið kemur með tveimur fljótandi diskum (sérhannaðir til að standast mikinn hita) að framan og Brembo bremsudælum sem og ABS. Það er í raun alveg sama hvar þú gefur inn og í hvaða gír (ja svona innan skynsemismarka) mótor hjólsins tekur alltaf hressilega við sér. Mælaborð er með alls konar LSD mælum þ.e.a.s. bæði hraða og snúningshraðamælir. Svo er klukka, hitamælir, olíuviðvörun, gírstaða/í hvaða gír, brautarklukka o.fl. ofl. Standpedalar eru stillanlegir um 14mm á tvennan máta og bremsupedali færist með, einnig er hægt að stilla skiptipedala í samræmi við standpedala.

Sætið er úr leðri segja þeir. Framdemparapípur eru 43mm eru frá Showa (BPF) og er fjöðrun stillanleg á allan máta. Að sjálfsögðu kemur hjólið með Slipper Clutch, þannig að hægt er að skipta hressilega niður um gíra án þess að læsa afturhjóli. Pústkerfið er 4-2-1 og að sjálfsögðu hljóðkútur á stærð við stóra ruslafötu !! Svo eru allskonar skynjarar í pústkerfi, beina innspýtingin er einnig tengd tölvukerfi svo vinnur þetta allt saman til að allt virki nú rétt og bilar aldrei segir S.A. frekar en aðrar Súkkur !! Hægt er að stilla inngjöf á þrennan máta þannig að aflið komist til skila miðað við aðstæður og þessi stillitakki er vinstra megin á stýri. Hjólið kemur með tölvustýrðum stýrisdempara. Hægt er að skrifa miklu meira um hjólið, þ.e.a.s. allt þetta tæknilega og hvernig það „höndlar“ en prufuökumenn þessara hjóla eru flestir fagmenn og eflaust fáir hér á landi sem ná því að nota hjólið á þann máta sem þessir blaðamenn gera því þeir eru að aka á lokuðum brautum við bestu aðstæður. Jæja nóg komið um súkkur og næsta grein, ja kannski R1 Yammi eða alvöru Kawi, Hondugrein um RR Hondu hefur þegar verið skrifuð og send heimasíðu snillingum.

Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni

Gixinn 3 spekkur

Read 2780 times