Saturday, 15 November 2014 18:09

Fyrsta mótorhjólið þitt

Þetta er spurning sem við ættum öll að getað svarað án þess að hugsa okkur mikið um, því hver man ekki eftir fyrsta mótorhjólinu sínu, hvar það var keypt, hvaða ár, hvaða dag og jafnvel klukkan hvað. Liturinn, stærð mótors o.s.frv. þetta er hjá okkur flestum ógleymanleg stund sama hvað hjólið var gamalt, ástand og stærð á mótor.

Fyrsta hjólið mitt var að sjálfsögðu Honda !! og það var nokkur aðdragandi að kaupum þessa hjóls. Ég og minn besti vinur hann Haukur höfðum verið að skoða mótorhjólablöð í nokkuð mörg ár, ja sko erlend blöð og þau voru sko nokkuð stærri en t.d. Moggin í dag og prentuð á frekar lélegan pappír, en Haukur var áskrifandi að Cycle World. Þetta er á árumu 1964-1966.

Á þessum árum voru aðal hetjurnar Mike the bike Hailwood og Giacomo Agostini, þetta voru alvöru mótorhjóla hetjur sem óku mótorhjólum en ekki tölvukubbum. En snúum okkur að hugleiðingum okkar Hauks og jú vinar okkar Einars Axels. Við höfðum horft öfundaraugum á þessi fáu „litlu“ mótorhjól sem voru á götunum á þessum árum t.d. NSU og annað svipað sem og ein Bridgestone og svo þó nokkrar Hondur 50 sem voru flestar árgerð 1962-63.

Við Haukur höfðum safnað nokkrum aurum frá fermingu okkar sem og sumarvinnu, en foreldrar okkar höfðu takmarkaðan áhuga sem og enn minni fjárráð til að taka þátt í þessum hugleiðingum okkar um kaup á HONDU. En nú var ekki aftur snúið við vissum að það væru að koma til landsins nokkrar 50 kúbika Hondur og það væri Gunnar nokkur Bernhard sem væri með umboð fyrir þessi hjól. Gunnar var með umboð sitt í litlu plássi á Laugaveginum aðeins vestan megin við Heklu umboðið í dag.

Þangað var haldið einn daginn, en þarna var bara opið hluta vikunnar og aðeins part úr degi. Við hittum fyrir hann Gunnar og spurðum og spurðum og spurðum, fengum bæklinga sem og upplýsingar um verð, en greiðslu fyrirkomulag var aðeins staðgreiðsla við afhendingu hjóls. Við Haukur töldum að blái liturinn væri miklu fallegri en sá rauði, en það voru þessir tveir litir í boði. Og svo var mætt aftur nokkrum dögum síðar og sagt að við ætlum að kaupa hjá þér hjól.

Eitthvað vantaði nú uppá að ég ætti alveg fyrir hjólinu þ.e.a.s. uppgefið verð hjá Gunnari, en svona draumar stöðvast ekki við svoleiðis smámuni. Allir vasar voru tæmdir, seldar flöskur, ömmur spurðar (lítið þar) en þær töldu þetta drápstæki og því kæmi ekki til greina að aðstoða við svoleiðis vitleysu. En einhvernvegin náði ég að aura saman fyrir þessu og án aðstoðar foreldra. Nú var pantað skráninganúmer og viti menn hvaða númeri mér er úthlutað án klíku R-1000, já ég hringdi a.m.k. þrisvar sinnum í Bifreiðaskoðun Íslands til að fá að vita um hvort þetta væri örugglega rétt.

 

 

Jæja Einar Axel fær fyrstur okkar sitt hjól sem einnig var blátt og nokkrum dögum síðar Haukur vinur minn. En þar sem mér hafði gengið verr að afla fjármuna þá liðu nokkrir dagar þangað til að ég var klár í að ná mitt hjól. Það var lítið sofið þessa daga og hjólin hjá Hauk og Einari skoðuð og skoðuð og skoðuð. Maður skalf af spenningi nær alla þessa biðdaga.

En svo rann stundin upp, ég átti að ná í  Honduna mína heim til Gunnars sem bjó á Laugarásvegi, en ég bjó hjá foreldrum mínum að Laugarnesvegi svo það var ekki svo langur göngutúr að nálgast hjólið. Þarna gekk maður með alla mína veraldlegu eigur í a.m.k. tveimur vösum, jú þetta voru bæði seðlar og málmpeningar og upphæðin hafði verið talin í mjög mjög mörg skipti til að vera öruggur að ég væri með rétta uppgefna upphæð, sem ég hafði líka spurt Hauk um að sjálfsögðu hvað hann hefði borgað og hvort það hefði ekki verið saman upphæðin og okkur var sagt í upphafi, jú jú sagði Haukur.

Ég mæti í Laugarásinn og ýti skjálfandi af spenningi á dyrabjölluna, Gunnar kemur til dyra, alltaf snyrtilegur sem og brosandi og bíður mér að koma með sér inní bílskúrinn sem er við húsið þar sem hann býr. Hurðin ætlar aldrei að opnast að skúrnum finnst mér. En svo blasir við mér blá Honda innanum nokkra trékassa merkta Honda. Ég skelf í hnjánum og brosið hefur örugglega náð allan hringinn. Þarna stendur fyrsta hjólið mitt Honda árgerð 1966 blá að lit. Ég hef aldrei séð fallegri sýn, bara stend þarna og stari, á ég þetta virkilega, er mig að dreyma. Gunnar vekur mig af þessum draumi og segir eitthvað á þessa leið: Þarna er hjólið þitt og nú er bara eftir að borga !! Ég byrja skjálfandi að tína aura mína á trékassa einn sem stóð þarna og taldi upphátt þangað til allir vasar vorum tæmdir.

Ég horfi svo stoltur á Gunnar og segi: Já hér er þetta allt og í samræmi við uppsett verð, ég er sko að springa af monti að getað keypt sjálfur einn og óstuddur mitt fyrsta mótorhjól. Þá segir Gunnar: Þetta er ekki nóg, hjólið kostar meira !! En ég stama upp einhverju um sagt verð og Haukur hafi borgað sama og ég væri með á kassanum. Gunnar segir ja það sko urðu breytingar á gengi íslensku krónunnar, hvað veit ég um gengi krónunnar eða eitthvað í þeim dúr, nei orð skulu standa og hvað snertir það mig með eitthvað gengi, hvað þýðir annars orðið GENGI !! Ég endurtek það sama að ég eigi bara þessa aura og þetta sé rétt upphæð, maður er rétt fimmtán ára og ekki mikill nagli. Nei segir Gunnar það vantar uppá þetta. Ég styn upp ég skal koma með það sem uppá vantar á morgun og hugsa um leið hvar í veröldinni ætti ég að nálgast það sem uppá vantar, en til gamans þá var þetta svipuð upphæð og ca. 400-500 krónur í dag.

Jú jú segir Gunnar þú getur borgað þetta seinna, en ekki á morgun því þá verð ég upptekin við annað, hvenær villtu fá þína aura ?? Eftir þrjá daga þá verð ég við aftur til að afhenda þér hjólið segir Gunnar. Ég varla trúi þessu sem ég er að heyra fæ ég ekki hjólið fyrr en ég er búin að borga að fullu. Ég endurtek orð mín og segi: Ég sko borga örugglega þú mátt treysta því segi ég skjálfandi röddu, því það blasir við að ég fái ekki hjólið mitt afhent, þrír dagar hljóma eins og tíu ár í mínum huga. Ég hugsa með mér af hverju treystir hann mér ekki, ég stend alltaf við orð mín. En nei Gunnari verður ekki haggað ég fæ ekki hjólið nema að þessir örfáu aurar komist í hendur hans.

Það var ekki laust við að tár komi fram í augum, en ég hugsa með mér ég skal sko ekki láta hann sjá mig vera með blaut augu. Nei ég bít á jaxlinn og ég geng niðurlútur frá skúrnum í átt að heimili mínu og hugsa: Hvað á ég að segja við Hauk og alla hina sem vita að ég var að ná í fyrsta hjólið mitt, já það flaug ýmislegt í gegnum huga minn og eitt af því var af hverju var mér ekki treyst fyrir þessum örfáu krónum, hvar ætti ég að fá þá og já ég ætlaði mér aldrei að kaupa Hondu aftur og til gamans má geta þess að ég stóð við það í ótrúlega mörg ár. Jæja til að gera langa sögu aðeins styttri þá lánaði (gaf) ein frænka mín sem hét Elín þessa aura þó hún ætti lítið, ég fékk hjólið sem og að mörgum árum seinna sagði ég Gunnari þessa sögu og sagði við hann að ég hefði ekki keypt neitt frá Hondu í mjög mjög mörg ár eftir þessa reynslu. Held að hann hafi haft gaman að sögunni sem og staðfestu minni, en hvað veit fimmtán ára unglingur á þessum árum um gengi krónunnar og að reka fyrirtæki. Því verður að bæta við að þessar 1966 Hondur voru þriggja gíra og tvö og hálft hestafl og með innsigli í blöndung, en eldri hjólin þ.e.a.s. 1962-63 hjólin sem kölluð voru C-114 voru fjögurra gíra og fimm hestöfl, en það er önnur saga sem bíður betri tíma.

Skrifað eftir minni: Óli bruni

Read 3222 times Last modified on Monday, 17 November 2014 17:10