Monday, 11 August 2014 09:18

Hvað er líkt með blondínu og bresku mótorhjóli !!??

Hvað er líkt með blondínu og bresku mótorhjóli !!??

Jæja smá sönn saga af manni sem átti ljósku fyrir kærustu (konan hans í dag) og ók um á bresku mótorhjóli (breskt er best). Sagan hefst með því að nokkrir góðir vinir ákveða að hjóla austur fyrir fjall, njóta góða veðursins, já já þetta var fyrir nokkrum árum og þeir sem áttu hnakkaskraut að leyfa þeim að fljóta með. Nú það var haldið af stað og næsta stopp var Hveragerði, þar sem gert var stutt stopp og hjól yfirfarin, þið vitið að það verður að fara vel með gamla gripi, sko hjólin !! Nokkuð fyrir austan Selfoss, já breta eigendur fara alltaf langferðir, þá heyrir sá sem segir þessa sögu mikinn hávaða, svona járnaglamur og samhliða því þetta líka öskur frá ljóshærða hnakkaskrautinu. Það var sko nauðhemlað og farið af baki til að sjá ástæðu þessa alls. Sú ljóshærða stundi upp að henni verkjaði sko agalega í vinstri kálfann. Við nánari athugun kom í ljós að hressilega blæddi úr kálfa ljóskunnar og hún var með nokkuð stóran skurð á kálfanum. Ekki var mikið um plástra með í för, en eins og eigendur breskra mótorhjóla vita þá er alltaf haft með í för þetta gráa tape/límband (gaffer tape), því þetta límband má nota í allt. Næsti hálsklútur var síðan „teipaður“ utanum kálfann með gráa límbandinu. En hvað hafði valdið þessu slysi, jú afturljósið með númerafestingunni (já já þessi hjól titra aðeins en þó aðeins minna en Harley!!) á hafði dottið af og einhvern veginn fallið í götuna og þaðan í kálfa kærustunnar, já allt getur gerst. En það var auðsjáanlegt að það þurfti að sauma þetta sár svo nú var haldið að sjúkrahúsinu á Selfossi til að láta rimpa þetta saman, að sjálfsögðu var afturljósið með númerinu tekið með. Eins og eðlilegt er þá var nú ekki hlaupið að því að fá einhvern til að sauma ljóskuna saman þ.e. sárið áðurnefnda. Nú tók við bið og lengri bið og enn lengri bið eftir lækni sem mætti um síðir, virtist hafa fermst fyrir hálfu ári miðað við útlit. Hann skalf svo mikið við þessa „stóru“ aðgerð á maður hélt að það myndi líða yfir hann. Kannski var það útlit okkar, allt þetta leður, skegg og tattoo, hver veit. En þegar þessu var öllu lokið var myrkur skollið á og nú voru góð ráð dýr, því að aka í myrkri án þess að hafa afturljós var nú ekki heppilegt, þið vitið tugtinn (löggan) og allt það. Hvað gera menn jú eins og allir vita þá geta eigendur breskra mótorhjóla gert við allt eða bara búið það til. Svo nú var tekið til hendinni, náð í smá vírbúta og límbandið góð, ljósið tengt , skoðað hvort allt virkaði, síðan var blessað ljós „teipað“ aftan á hnakkaskrautið (ljóskan) og mikið hlegið að þessu. En við komust heim án annarra áfalla. Sú ljóshærða sagði daginn eftir: heyrðu góði, nú ertu búin að merkja mig með stóru öri, að auki er ég orðin hluti af þessu blessaða hjóli þínu, þú losnar aldrei við mig úr þessu það er ljóst. Enn má sjá örið á ljóskunni rúmum þrjátíu árum síðar, en bresku hjólin hafa farið og komið= Breskt er langbest með ljósku með.

Óli bruni.

Read 1240 times