Wednesday, 09 July 2014 15:16

#28 frá Óla bruna - Kawi W800

Kawasaki W 800

Erum við alltaf að leita að upphafinu, eða erum við bara stöðnuð, spurning en allavega sína skoðana kannanir það að þau mótorhjól sem talin eru nakin og svona meira „retró“ í útliti vekja meiri eftirtekt og já aðdáun en mótorhjól sem fela allt sem gaman er að horfa á. Margar verksmiðjur hafa reynt að ná „retró“ útlitinu og með misjöfnum árangri, t.d. Triumph með sína línu af „old style“ línu. En sumir gera betur en aðrir og þá komum við að Kawasaki W 800 sem er virkilega vel heppnað hjól í gamla útlitinu og mjög margir halda að þeir séu að horfa á gamlan tveggja cylindra breta frá því í kringum 1965,  svona eftirlíking  af BSA A10 eða A65, því má reyndar bæta við að á árinu 1999 hafði Kawasaki komið með W 650 hjólið en það náði engum sérstökum áhuga hjá kaupendum, þá aðallega vegna lélegs afls og daprar fjöðrunar, þeirri framleiðslu var hætt 2008. Nýja endurbætta hjólið er með 773cc mótor og er með beinni innspýtingu sem er látin líta út í líkingu við venjulega blöndunga. Mótorinn er með yfirliggjandi knastás sem er knúin með drifskafti frá mótor og hlífin utanum skaftið er vel sjáanlegt og setur skemmtilegan svip á mótor og lítur út eins og hlíf fyrir undirlyftustangir á gömlum breta. Vélin er loftkæld. Til að ná þessu gamla útliti þá er hjólið með tveimur mælum þ.e. hraðamæli og snúningshraðamælir, sem og alls konar viðvörunarljósum og klukku. Sagt er að öll frágangsvinna sé virkilega góð á hjólinu, sem og málning. Það sem vekur kannski mesta athygli er áhugi yngri kaupenda á þessu hjóli sem er meira segja með teinafelgur í „ala“ 1960 stíl. Það þarf ekki alltaf bara afl og mikinn hraða til að ná til kaupenda, Kawinn lítur bara út eins og alvöru mótorhjól. En við ökum ekki bara á útlitinu einu, það þarf líka að vera gott að aka hjólinu og afl þarf að vera ásættanlegt og standast samanburð við t.d. aðal keppinautin í þessum flokki sem er Triumph Bonneville, reyndar er Trumphinn aflmeiri, en færu menn nokkurn tíman að keppa á þessum hjólum (ha hvað ??!!). Vélin togar virkilega vel og virkar vel alveg frá 2500 snúningum, þannig að það er í raun aldrei dauður punktur frá þeim snúning, jafnvel í hærri gírum. Hraðaaukning mun ekki valda þér hálsríg en hjólið er flottur „krúser“ og ágætis ferðahjól. Á hraðbraut eyðir hjólið svona 6.28 ltr. á 100 km, sem er svo sem ekkert til að hrópa húrra yfir og þá aðallega útaf því að bensíntankur tekur aðeins 14 lítra og viðvörunarljós bensíntanks fer að blikka eftir svona 160 km. En með svona sparakstri gætir þú komist nokkuð mikið lengra. Kawinn höndlar vel og er svona þægilegur, sætið er frekar langt og með góðri ásetu. Fjöðrun er tveir dempara að aftan með einfaldri stillingu, fjöðrun að framan er sögð svona þokkaleg og frampípur eru með gamaldags gúmmí sokkum „gaitors“, sem munu verja pakkdósir vel. Þetta er ekkert sporthjól, líður svona í gegnum beygjur svo lengi sem ekki er verið að taka hressilega á því, en með því að aka hjólinu eins og það er hannað þá fer það vel með ökumann. Frambremsa er einn 300mm diskur sem virkar nokkuð vel.  Hljóðkútar setja skemmtilegan svip á hjólið svona í nokkurs konar Peashooter stíl, en samt líkar gömlu BSA kútunum. Handföng fyrir kúplingu og handbremsu eru stillanlega, fimm stillingar fyrir kúplingu og fjórar fyrir bremsu. Hægt er að fá hjólið í tveimur stílum svona hefðbundið og svo svona cafe racer útliti, sem má verulega bæta með aukahlutum. Ég held að það séu aðeins tveir W 800 Kawar  til á landinu og sagan segir að annar þeirra sé jafnvel til sölu. Sjá meðfylgjandi tæknilegar upplýsingar um Kawann.

Óli bruni # 173

Read 3086 times