Monday, 14 April 2014 19:25

#21 frá Óla bruna - Bob Hansen á Daytona 200 árið 1970

Bob Hansen Honda og Daytona 200 kappaksturinn Í USA 1970

 

Ofangreint nafn þekkja að sjálfsögðu allir Hondu eigendur, allavega allir sem þekkja eitthvað til Hondu og kappaksturssögu Hondu. Bob þessi reyndar fór til hjólahimna ekki fyrir löngu þá orðin rúmlega níræður ef ég man rétt. En hvenær byrjar fyrir alvöru saga Bobs með Hondu verksmiðjunum, jú á því herrans ári 1969, þegar CB 750 Hondan var kynnt til sögunnar. En Bob var einn besti tæknilegi ráðgjafi Honda sem og umboðsmaður á  þessum tíma og í raun eini maðurinn með hringlaga augnaumgjörð í USA sem Hondumenn treystu og báru virðingu fyrir og þá er mikið sagt því í þessa dag og eflaust enn er mikil stéttarskipting í Japan. Hondumenn vildu koma þessu nýja súperhjóli strax á spjöld sögunnar, CBinn var ekki mjög þekktur þarna í USA á fyrsta ári hjólsins og því var það Bob sem bar upp þá tillögu að senda nokkrar CB 750 Hondur í Daytona 200 kappaksturinn árið 1970. Hondumenn voru ekki mjög hrifnir í fyrstu en þeir treystu Bob algjörlega, en töldu samt að CBinn ætti ekki mikinn möguleika á móti breska heimsveldinu (skiljanlega). Bob sagði þeim að þetta hjól væri  skothelt og sagði ég er þegar búin að selja ein 1200 stk. án þess að bilanir hafi orðið. Bob bætti einnig við: Ég veit að það verða eflaust nokkrir einkaaðilar sem munu keppa á CBinum og það væri alls ekki rétt að þeir aðilar settu svartan blett á sögu Honda og þessa nýja hjóls sagði Bob, því þessir einkaaðilar eiga ekki eftir að eiga mikinn möguleika á móti kappaksturshjólum sem hönnuð eru fyrir kappakstur og studd af verksmiðjum viðkomandi tegunda t.d. Triumph, BSA og Harley. Um leið og ákveðið var að Honda firmað tæki þátt í Daytona kappakstrinum þá var hafist handa að finna bestu ökumenn þess tíma og Bob gerði þá kröfu að a.m.k. einn þeirra yrði frá USA og þá skildi það vera Dick Mann. Fljótlega komu fjórir kassar til USA og í þeim voru fjórar „race“ CB Hondur. Þeim var strax komið til Daytona. Ásamt Bob voru á staðnum tveir topp „mekkar“ þeir Ron Robbins og Bob Jamieson, frá Englandi komu ökumennirnir Tommy Robb, Ralph Bryans og Bill Smith, ásamt „mekkanum“ Steve Murray. Aðal Hondumaðurinn á staðnum var sjálfur Nakamura sem öllu jöfnu hélt utanum Formúlu eitt bílahópinn í Evrópu. Þó þessar CB Hondur ættu að heita nokkuð hefðbundin verksmiðjuhjól þá voru þau mikið smíðuð úr Titanium o.s.frv. Þau láku olíu eins og góður breti á heitum degi.  Þar var sandkast vélinni kennt um (verð að skrifa þetta aftur ÞAU LÁKU OLÍU).

Þau láku það mikið að eftir nokkra prufuhringi kom Ron Robbins inná viðgerðarsvæði og sjá mátti að mótorhjólaklossar hans voru allir í olíu og hann sagði: þetta er eins og að hjóla á helvítis Norton, skömmu síðar fór Ralph Bryans á hausinn á brautinni og það kviknaði í Hondunni hans. Bresku „mekkarnir“ sem ekki kölluðu allt ömmu sína, sögðu skömmu síðar: Við erum búnir að gera við hjólið hans Bryans og það er tilbúið, Bob Hansen leyst minna en lítið á það, þar sem Honda Bryans hafði logað nokkuð lengi. Nú upphófst nokkuð mikið rifrildi milli USA og Englands og endaði með því að hópana skildi leiðir og hvor myndi sjá um sig. Alls konar bilanir voru að plaga menn t.d. á hjólinu hans Dick Mann var kúpling að snuða svo þegar olía var skoðuð þá kom í ljós að í henni var fullt af svörtu plasti og þar var tímakeðjustrekkjari úr plasti að molna niður. USA „mekkinn“ Bob Jamieson fór með slatta af olíu til Ensku „mekkana“ til að sýna þeim og vara þá við, en þeir höfðu ekki stórar áhyggjur af svona smá plasti, þó Jamieson segði þeim að þetta drasl ætti eftir að eyðileggja olíudælu og/eða stífla olíugöng og leiðslur. Bretarnir voru mættir til að hafa gaman af þessu og þetta væru óþarfa áhyggjur. Kappaksturinn er hafinn og fljótlega er Dick Mann orðin fyrstur og nokkuð langt á undan næsta manni. Svo fóru sum BSA og Harley hjólin að detta út vegna bilana sem og Hondurnar. Hondur bretana fóru ekki marga hringi Bryans fór þrjá og Robb tólf. Bob Hansen sagði Mann að fara að slaka á og fara vel með hjólið til að klára þennan langa kappakstur, en Gene Romero á Triumph nálgaðist Mann hratt og örugglega eftir dapurt start. Svo Mr. Nakamura skipaði Bob Hansen að segja Mann að skrúfa uppá rörið (bæta í), þrátt fyrir allar hefðir og virðingu sem eru höfð í hávegum hjá Japönum skipaði Bob Hansen honum Nakamura að koma sér frá og skipta sér ekki af þessu. Hjá Japönum hefði þetta að öllu jöfnu bara þýtt eitt: að óhlýðnast yfirmanni gróflega og þar með brottrekstur. Dick Mann vann kappaksturinn með stæl, gerði CB 750 frægt (já já Tryggvi) sem og hann sjálfan, þ.e. Dick mann (veit að Tryggvi er frægur svo það þarf ekkert að skrifa neitt um það). Eftir kappaksturinn sagði Bob Hansen af sér áður en honum yrði sagt upp af Nakamura og gekk til liðs við Kawasaki USA.  Bob frétti reyndar löngu síðar að Nakamura og Honda ætluðu sér alls ekki að reka hann, heldur hækka hann í tign. Blessuð sé minning Bob Hansen sem kom Hondu CB 750 á spjöld sögunnar.

Stolið og stílfært úr mótorhjólablaði:  Óli bruni

Read 3377 times