Sunday, 30 March 2014 11:06

#19 frá Óla bruna - Kawasaki Versys 1000 árg 2013

Kawasaki Versys 1000 2013 sem er stóri bróðir litlu systur Versis 650.

Þó nokkrir hér á landi þekkja til Versis 650 og þar á meðal ég, það hjól kom manni verulega á óvart og ég fór tvo hringi um landið á því og dóttir mín einn, þetta litla hjól fékk allstaðar góða dóma. En nóg um minna hjólið það hefur sannað sig í nokkuð mörg ár hér sem og annarsstaðar. Nýja Versis hjólið þ.e.a.s. 2013 árgerðin er talið með í supersport touring og þar eru margir að keppa og ganga mislangt í að útbúa hjólin í að þau teljist líka til utan vegar græju eins og t.d. BMW GS 1200 hjólið sem er nú engin léttavara og eflaust bara fyrir hraustari menn að takast á við í torfærum, já og svona smá verðmunur. Nýja 1000 hjólið hefur verið uppfært nokkuð mikið frá síðustu árgerð segja framleiðendur.

Allt er gert til að hjólið verði þægilegra í meðförum, í akstri sem og áræðanleika. Útlitslega séð er hjólið bara flott svona eigum við að segja „vígalegt“, en samt sagt að það sjáist að þetta er Kawi. Vélin er 1043cc fjögurra strokka línumótor, vatnskældur, með tveimur yfirliggjandi knastásum, sextán ventlum, sögð með virkilega góðu togi og þá sérstaklega á neðri snúning. Gírkassi er sex gíra og virkar vel með góðum hlutföllum. Afl til afturhjóls er stillanlegt svo hægt er að stilla átak mótors svo afl skili sér rétt við allar aðstæður. Hjólið fer létt með ökumann, farþega og þrjár töskur fullar af farangri og þar er hjólið mörgum skrefum á undan litlu systur. Fjöðrun er sögð mjög góð og henti í raun vel í allar venjulegar aðstæður jafnvel á grófri möl.

Áseta er góð svona frekar upprétt ef segja má svo, stýrið er boltað beint í topp „yokið“, er frekar breitt, vel staðsett og liggur vel fyrir ökumanni, þannig að handleggir eru ekki teygðir eða of bognir. Grindin er úr áli og með þessum öfluga mótor sem er í raun hluti grindar og 17“ felgum er hjólið líka mjög sportlegt og hægt að taka vel á því á malbikinu, fer vel inní beygjur, hægt að halla því hressilega mikið og með öllum þessum tölvustýrða KTRC búnaði fer það vel útúr beygjum þó tekið sé hressilega á græjunni. Bremsur eru sagðar mjög góðar tveir 300mm diskar að framan, bremsudælur eru með 4. stimplum hvor. Einn diskur að aftan að venju, svo er hjólið með ABS kerfi frá Bosch og er sagt með því fyrirferða minnsta kerfi í  heiminum.

Eins og áður sagt er aflið mjög gott sem og tog, hjólið hikar aldrei þrátt fyrir hressa inngjöf í háum gír. T.d. í samanburði við Z1000 hjólið er Versis hjólið með miklu betra tog á lægri snúning. Sætið er gott bæði fyrir ökumann og farþega, pláss er einnig gott hvort sem ökumaður er einn eða með farþega, standpedalar eru vel staðsettir og með góðri dempun. vindhlífar eru sagðar góðar, hægt að stilla fram“rúðu“  með tveimur tökkum, stór 21 ltr. bensíntankur og lítil eyðsla miðað við mótorstærð gera hjólið að frábæru ferðahjóli. Sagt er að hjólið getið borið allt að 220 kg, þ.e. ökumaður, farþegi og farangur. Undir sæti er gott geymslupláss sem og verkfærasett. Mælaborð er með hraða og snúningsmæli (digital), bensínmæli, klukku, vegalengdastillingu !! eyðslumæli og hitamæli, já nógu af mælum svo ökumanni ætti ekki að leiðast.

 

 

Þarna er hjól sem ætti að henta í nær allt og þá sérstaklega við okkar aðstæður, þar sem vegir, veður og annað er nú svona bara kannski ekkert til að hrópa húrra yfir, þó það séu auðvitað menn og konur sem líkar best þegar það rignir hressilega og rokið tekur vel í og vegur sem ekið er á möl. Ekki er vitað hvað þetta hjól kostar hér heima, en miðað við uppgefið verð í útlandinu ætti Versis 1000 að vera vel samkeppnishæft við öll önnur sambærileg hjól. Lesa má miklu meira um hjólið á netinu og þá auðvitað allt þetta ofurtæknilega.

Stolið og stílfært af netinu:

Óli bruni

Read 3288 times