Wednesday, 05 March 2014 18:30

#17 frá Óla bruna - Alvöru Indverskur=kaffihúsa Rakki

Indverskur Kaffi húsa rakki: Royal Enfield Continental GT 2014.

 

Á þessi græja heima fyrir utan t.d.  Ace Café í London ásamt öllum hinum Café Racer hjólunum, spurning og kannski fáum við svar við lestur þessarar greinar þ.e.a.s. þeir sem nenna að lesa þetta. Saga Royal Enfield nær lengra aftur en elstu menn muna, nema kannski bretaáhugamenn eins og Biggi breti, Tæmerinn ofl. góðir menn. En sagan nær aftur til 19. aldarinnar og þá til ársins 1933 þegar R.E. kom á markaðinn með hjól sem kallað var Bullet og í raun er GT hjólið byggt á sömu grunnhugmynd og þar með er GTinn í raun elsta mótorhjól heimsins sem er enn í framleiðslu, jú með smá breytingum !! En Royal Enfield lokaði verksmiðju sinni í Redditch í Englandi árið 1967, en þá þegar var hafin framleiðsla á R.E. í Indlandi og framleiddi Bullett hjólin í miklu magni og það var ekki aðeins almenningur sem keypti þessi hjól heldur líka lögreglan og herinn. Á Indlandi höfðu verið framleidd hin ýmsu hjól og þá aðallega í 125cc og 250cc, en svo kemur R.E. með þessar líka ofurgræjur í 350cc og 500cc. Meira segja sjálfur Harley er ekki með tærnar þar sem R.E. er með hælana í sölu á hjólum á Indlandi, hugsanlega verðið eða gæðin !! Spurning ?! En Harley er meira segja með verksmiðju á Indlandi. Allavega R.E. er með 95% af markaðinum í yfir 250cc. Honda á meira segja engan séns í þessari samkeppni. Sagan heldur aðeins áfram því árið 2010 seldi R.E. 50þús mótorhjól en árið 2012 var salan komin í 100þús hjól og fjöldin mun aukast, ný verksmiðja hefur verið opnuð og það er allt í góðum gír hjá R.E. sem er auðvitað ekki skrýtið því grunnurinn er sko breskur=breskt er best.

 

En snúum okkur okkar að nýja GT hjólinu sem er nokkuð stórt stökk fram á við, ja þeir segja það allavega og ekkert sem tengir það gamla Bullet hjólinu nema jú einn strokkur (cyl).GTinn er sem sagt 535cc (87.0 x 90.0mm) og er boltaður beint í grindina á fjórum stöðum. Er með beinni innspýtingu, Grindin er hönnuð af Harris Performance og er úr stáli, útlit er hannað af öðru ensku fyrirtæki (auðvitað) sem heitir Xenophya Desing. Bremsur eru frá Brembo, felgur eru úr áli frá Excel, fjöðrun er frá Paioli og frampípur eru 41mm og svona næst þetta flotta Café Racer útlit. Hjólin eru máluð rauð og áferð er bara nokkuð góð miðað við fyrri fram-leiðslu frá R.E. En svo setja menn útá litaáferð á frampípum ofl. þ.e.a.s. sagt að það sé ekki rétti grái liturinn!!

 

Jæja smá pruftúr á nýju græjunni, menn komnir í Belstaff jakka, með Davida hjálm, skó frá Lewis leathers o.s.frv. og hvar er prufað jú auðvitað í Bestalandi London. Það má bæði nota konutakka eða karlmannasveif til að koma hjólinu í gang, hjólið hrekkur í gang og svona “þumpar” eins og gamall Lister diesel!! Svo er auðvitað allar þessar mengunarkröfur frá ESB sinnum og þar með talið hljóð en skipta má um hljóðkút með lítilli fyrirhöfn. Það er nú ekkert hægt að hæla beinu innspýtingunni sérstaklega allavega í upptaki, en þegar komið er á ferðina þá lagast þetta. Mótor gefur gott tog frá svona 2 -3þús snúningum, en uppgefið hámarks tog er 32 fet/pund við 4000 snúninga. Hestöfl eru gefin upp 29.1 við 5100 snúninga, útsláttur er við 5500 snúninga og það tekur nokkurn tíma að komast á þennan snúning þ.e. að útslátti.

 

 

 

 

GTinn er bara nokkuð þægilegur á 40 til 50 mph, en svo fer hann nú bara ekkert hraðar en 80 mph og það er nú nokkuð yfir leyfðum hámarkshraða á Íslandi. Svo ekki er hægt að ná tonninu 100 mph á þessari græju og þannig nær hjólið ekki í Ton up hópinn, nema þá með hugsanlegum breytingum á mótor ofl. Maður veit alveg af því að GTinn er eins strokka og maður fær frítt nudd uppí hendur, iljar og rass ef farið á efri snúning, allt í lagi í smá tíma en verður leiðigjarnt. GTinn er ekkert ósvipaður í þessu og t.d. Honda CBR250R, en eflaust myndi Honda hafa vinningin í spyrnu, sem er svona frekar leiðinlegt á hjóli sem er með helmingi stærri mótor. En hver er bara leita að hámarkshraða því rétta “lúkkið” og “fílingur” er sko málið er það ekki. Hvar sem menn komu á nýja GTinum vakti hann athygli og hól frá nær öllum og stundum of mikla athygli í allri umferðinni í London. GTinn er ekki framleiddur með ofurhestöfl í huga en t.d. í samanburði við annan kaffi húsa rakka Guzzi V7 sem er með uppgefin 38 hestöfl og Triumph Thruxton þá á GTinn engan séns. GT vigtar reyndar minna er gefin upp 387 lbs. GTinn er um 6.3 sekúndur að komast í 60 km hraða og tekur heilar 12 sekúndur að komast í 100 km hraða og þetta eru mældir tímar á hjóli með nýjum opnari hljóðkút. En GTinn er bara flottur og “retro” lúkkið gefur honum sinn stað í þessari keppni um aftur til fortíðar og verðið er líka sæmilegt uppgefið $ 7200 í USA.

 

Ef þú ert sáttur við einn strokk og ekki of mörg hestöfl þá er GTinn eflaust rétta hjólið fyrir þig þ.e.a.s. ef þig langar í Café Racer. Sætið er þægilegt og bensíntankur er vel lagaður, hæð clip-ons stýris er í góðri hæð svo maður situr frekar uppréttur. Gírkassi er fimm gíra og er bara nokkuð góður, bremsur eru alveg fullnægjandi miðað við afl. Takkar og dót á stýri er ekki alveg í stíl við nútíma japana en virkar. Eins og áður sagt hefur hjólið vakið lukku allsstaðar og selst vel. En þú verður að muna að þetta er ekki framleitt í hrísgrjónalandi, svona frekar grófar suður, svona ítalskur frágangur á rafmagni og græjan titrar eins og graðhestur innan um a.m.k. þrjár merar, smá Harley í þessu. Þú getur örugglega keypt skemmtilegri hjól á sama verði en þú nærð aldrei þessu “lúkki”!! Koma svo hve verður fyrstur að kaupa þennan nýja Indverska kaffi húsa rakka. Svo má lesa meira tæknilegt á netinu.

Stolið og stílfært af netinu:

Óli bruni

 

Read 2477 times Last modified on Wednesday, 05 March 2014 18:45