Sunday, 08 December 2013 21:36

Reynslusaga manns sem kaupir draumahjólið sitt

Triton hinn fullkomni cafe racer ?

Reynslusaga manns sem kaupir draumahjólið sitt.

Hvað er nú Triton spyrja margir, jú það er mótorhjól sem samansett er af Norton featherbed grind og Triumph mótor, gírkassi eftir smekk, sem og bremsur og fjöðrun o.s.frv. Heppnast þetta alltaf ? svarið er nei. En þegar þetta er gert af fagmönnum þ.e.a.s. þeim sem kunna til verka er þetta í raun fullkomið mótorhjól, bæði hvað varðar akturseiginleika og útlit. Okkur  dreymir flestum um hið fullkomna mótorhjól, allt eftir smekk, en er það til þetta fullkomna hjól ? En góður Triton er nokkuð nálægt því segja sumir mótorhjólablaðamenn, svo er spurning hvort maður eigi nokkurn tímann að trúa blaðamönnum hvort sem þeir eru að skrifa um mótorhjól eða bíla ! Maður einn í Englandi að nafni Mike hafði átt hin ýmsu hjól, Triumph, Norton, BSA og jafnvel Hondu, já og flest annað. En honum dreymdi alltaf sama drauminn og því ekki að láta drauminn rætast. Mike hóf að leita í hinum ýmsu mótorhjólablöðum hvað væri nú það besta. Margt kom til greina en að lokum voru það tvö hjól BSA Rocket Gold Star, sem er tveggja cylindra BSA, með flottu pústkerfi þ.e. tveir í einn og svo Triton (Norton/Triumph). En Mike leitaði og leitaði og allt sem hann fann var langt fyrir ofan hans kaupgetu. Byrjaði á því að kaupa BSA grind og mótor, fullt af öðru dóti, allt í kössum og ætlaði að smíða sér Rocket Gold Star replicu/eftirlíkingu, en ekkert varð úr því. Leitin hélt áfram og svo rak hann augun í auglýsingu um Triton hjól sem hafði verið óhreyft í ein tíu ár og nú hélt hann að Lottóvinningurinn væri hans, sá sem átti hjólið vildi fullt af peningum, en Mike sá strax að það þyrfti helling að gera til að hjólið yrði gott og eftir hans höfði. Jæja samningar náðust og svona til að gera söguna skemmtilegri, þá keypti Mike sér líka lítinn skúr til að hýsa hjólið. Flestir vita (jæja einhverjir) að Triton hjólin eru mjög misjöfn í útliti og svo má ekki gleyma að Featherbed grindin var smíðuð í tveimur gerðum: Wideline og slimline. En mótor alltaf Triumph, sumir notuðu 500cc en flestir 650cc. Hjólið hans Mike var með sæti fyrir tvo, einhverja ljóta vindhlíf (fyrir kerlingar og eigendur Harley er það ekki ?? má sleppa) og fleira óþarfa dót, en grindin var wideline Featherbed og mótorinn var samansettur úr T-140 750cc toppenda þ.e. cylindrar og hedd og T-120 neðri hluta sem og gírkassa. Semsagt stærri hluti mótors og gírkassa er það sem menn kalla pre-unit (googla þetta). Kúpling hafði verið uppfærð með sterkari gormum, öllu dótinu var haldið í grindinni með Converta mótorfestingum. Bensíntankur var 12 ltr. úr áli, með smá beyglum sem Mike lagaði sjálfur. Náin voru frá Norton en 19 ´´ álfelgurnar voru frá Borrani, en Mike setti ryðfría teina í stað þeirra sem fyrir voru. Notuð voru álbretti og festingar og Manx sæti. Norton framdemparar voru endurnýjaðir með stífari gormum og einnig breiðari brýr (yokes) þannig að hann gæti sett betri bremsu að framan og notuð var John Tickle tveggja arma borðabremsa. Þrátt fyrir að Mike væri farið að verkja í veskið þá var fjárfest í Gold Star kútum og clip on stýri frá Unity (þar fæst sko ýmislegt), bremsu og kúplings handföng eru úr áli. Notaður var sami hraða og snúningsmælir en notaðar festingar frá Britbits og RGM. Rearset pedalasettið var frá Rolston Precision Tooling en Mike lagfærði það eftir eigin höfði. Nú þegar búið var að raða þessu öllu saman þá klæjar flestum í lófana að prufa, reynt var að gangsetja, en það gekk ekki vel og  þegar það fór í gang, titraði það eins og Harley Sportster á sterum. Fyrrverandi eigandi sagði að mótor hefði gerður upp af fagmanni og hann hefði meira segja látið „ballensera“ sveifarás, því ætti mótor að ganga eins mjúklega og „alþingi“ vort !! Á mótor höfðu fylgt MK II Amal blöndungar (þið vitið þessir sem ekki þarf að præma!!) og þeim var skipt út fyrir MK I (þessa sem þarf að præma). Þó nokkur breyting varð við þetta, já svo mikil að Mike tók þátt í hópakstri „Spirit of the Sixties“ en það endaði ekki vel því hjólið gaf upp andann á miðri leið vegna rafmagnsbilunar (kom kannski Lucas= Prins of darkness við sögu). Enn þolinmæði þrautir vinnur allar er það ekki, jæja Mike skipti út Lucas Rita elctrónísku kveikjunni fyrir eina frá Boyer Bransden. Einnig var á sama tíma settur nýr 12 volta High output altenator frá L.P.Willams. Nú var reynt aftur og nú gekk þetta betur en hjólið titraði enn eins og graðhestur innan um tíu merar. En var þessi titringur hugsanlega eðlilegur, þetta var nú einu sinni mótor sem var boltaður beint í grindina og bara partur af því að vera á alvöru mótorhjóli. Mike tók þá ákvörðun að nota bara hjólið áfram, en var farin að hugsa um að nota svona boxara góm til að halda tönnum og dýrum fyllingum á sínum stað. Svo var það einn daginn að sveifarásinn gaf sig með þeim afleiðingum að stimpilstöng brotnaði og setti gat í sveifarhúsið. Þetta gerðist á lítilli ferð við engin átök. Jæja eins og alvöru mótorhjólamanni sæmir þá hugsaði Mike „back to the drawing board“. Við nákvæmari skoðun kom í ljós að eflaust hafði sveifarás verið skemmdur frá byrjun, svo nú var keyptur nýr sveifarás og settar alvöru legur, einnig stimpilstangir 7075 úr hertu áli frá Allens Preformance og olíudæla frá Morgo. Þá var fjárfest í nýjum Bonneville E3134  kambásum og viðeigandi fylgihlutum. Um jólin kom jólasveinninn með stál vafðar olíuleiðsur, nýja T-160 Triumph Trident startsveif og fleira góðgæti. Mike mætir svo tvíefldur aftur í hópakstur „Spirit of the Sixties“ og nú var klárað, en nokkrum dögum seinna þá brotnar undirlyftustöng og keypt var ný, en hún endist ekki lengi. Hver var örsökin jú of sterkir ventlagormar, nýir settir í staðinn og áfram haldið. Ætlar þetta aldrei að enda hjá aumingja Mike spyrjið þið eflaust og hugsið einnig: Ég mun aldrei kaupa mér gamalt breskt mótorhjól. Nei munið að þegar þið kaupið gamalt mótorhjól og það er sagt uppgert „eins og nýtt“ þá er eins gott að vita að viðkomandi seljandi kunni til verka og hafi fengið fagmenn í það sem hann gat ekki sjálfur gert. Það er í raun miklu betra ef sagan er ekki þekkt að kaupa eitthvað dapurt og gera hlutina sjálfur frá grunni. Sagan hans Mike heldur áfram, hann er búin að setja beltdrive í hjólið þ.e.a.s í stað keðju frá sveifarás að gírkassa þá er notað sérstakt belti úr gúmmíefnum og vírum ofl. Svo stendur til að fá sér betri frambremsu (4 leading shoe) t.d. frá Grimeca eða jafnvel frá Fontana þ.e.a.s. ef Mike vinnur í lottóinu, einnig stendur hugur Mike til þess að fjárfesta í 18 ´´ felgum, breiðari afturgaffli ofl. ofl. ofl. Mike heldur ótrauður áfram og brosir útað eyrum, hann er sjálfur búin að smíða hinn fullkomna cafe racer= TRITON. Blaðamaður sem prufaði hjólið hans Mike átti varla til orð að lýsa hrifningu sinni  á því og tók þar með undir þau orð að góður Triton er með því betra sem er á tveimur hjólum, blaðamaður bætti jafnfram við að nú ætlaði hann sér bara að kaup eina Featherbed grind og einn Triumph mótor sem og einn lítinn skúr, það væri ekkert mál að smíða góðan TRITON !!

Ólafur R. Magnússon ÞverDrulluGaflari

Read 5479 times