Sunday, 03 November 2013 10:24

#6 frá Óla bruna - Ducati Diavel

Diavel krafta krúser frá já, sjálfum Ducati

 

Hver hefði trúað því að Ducati ætti eftir að koma með krúser mótorhjól á markaðinn, því Ducati er þekkt fyrir allt annað en eitthvað sem virðist hugsað fyrir að bara sitja á og já bóna.

 En Ducati er eins og önnur fyrirtæki í mótorhjólabransanum, þeir vilja ná til sem flestra og það er öruggt að þeir sem hafa efni á og langar í alvöru krúser þeir munu kaupa sér Diavel, eða réttara sagt djöfulinn, nei Diavel þýðir ekki djöfull á Ítölsku, sumir segja að þetta sé í raun fyrirfram ákveðin prentvilla !!! Þessi súperkrúser hugmynd er svo sem ekkert ný af nálinni, við sjáum fyrir okkur t.d. V-Maxinn (Diavel er reyndar nær 100kg léttari en Maxinn) og V-Rod o.fl. græjur. Ducati myndi eflaust aldrei láta frá sér mótorhjól öðruvísi en fullhannað og með góða alhliða eiginleika, (ræðum ekki um frágang á rafmagni).

En hvernig þeir hafa náð Dúkka með 240mm afturdekki í hóp mótorhjóla sem sögð eru „höndla“ virkilega vel, ja það sýnir hvað þessi verksmiðja getur. Diavel hjólið kom á götuna 2011 og blaðamenn mótor-hjólablaða sögðu að þetta væri mest „ögrandi“ hjól frá upphafi frá Ducati og slái algjörlega við síðasta „nýja“ hjóli Ducati sem var Multistrada 1200S hjólið.

Hvað er svona nýtt ? jú nær allt útlit, áseta, afl, akturseiginleikar  og hljóð. Þó ótrúlegt sé þá er, köllum græjuna bara djöfulinn hér eftir og þó !, þá er hann með sömu grind og Multistrada hjólið og með sama 90 gráður V 2 1200cc mótor. Diavel hjólið kallar bara á athygli hvar sem það sést, þetta er svona alvöru krafta græja, eins og flottur vaxtarræktarmaður sagði ein blaðakonan og bætti við ja kannski líkara amerískum rugby leikmanni tilbúnum að taka af stað í fullum herklæðum, allt sampakkað en um leið og hann fer af stað já passið ykkur bara.

Framdemparar eru 50mm frá Marzocchi og eru sagðir stillanlegir. Eins og áður sagt þá er mótor sá sami og í Multiströdunni, en Dúkkamenn ná miklu meira útúr mótornum, hestöfl eru gefin upp 162 við 9.500 snúninga og togið er 94 fet pund á 8.000 snúningum, miðað við 150 hestöfl og 87,5 hjá Strödunni. Þessari aukningu ná þeir með öðru pústkerfi og inntaki á beinu innspýtinguna o.fl. Gírkassi er sex gíra og er sagður hefðbundin Dúkki. Mótor er tengdur gírkassa með Slipper kúpplingur, ekki dónalegt það, hægt að gíra niður hressilega. Bensíntankur tekur um 17 lítra og er vel falinn ef segja má svo. Öll ljós á hjólinu eru LED ljós. Sætishæð er sögð 30.3 tommur og sæti sagt þægilegt. Hjólið er með nokkuð hefðbundnum Dúkka afturgaffli þ.e. á einum armi, þannig að önnur hlið afturfelgu sést vel. Þyngdardreifin milli fram og afturhjóls er í hlutföllunum 50.8/49.2, en breytist að sjálfsögðu ef farþegi er með.

Prufuökumenn segja að hjólið sé frábært í akstri  og „höndli“ virkilega vel sem er ótrúlegt miðað við stærð aftur-hjólbarða 240/45/17 frá Pirelli, jafnvel í þröngum beygjum.  Pirelli framleiddi þennan hjólbarða sérstaklega fyrir Ducati með þetta hjól í huga. Allt kemur þetta skemmtilega á óvart miðað við útlit hjólsins, þetta er ekki bara krúser heldur hörku sporthjól. Hægt er að halla hjólinu í beygjum um 41 gráður áður en fótpedalar rekast niður. Hjólið kemur í nokkrum útgáfum og þá er Carbon hjólið sérstaklega flott. Þrátt fyrir beina innspýtingu er hægagangur í kringum 1.000 snúninga og hefðbundið kúpplings Dúkka skrölt heyrist ekki, en hið þekkta Dúkka hljóð er enn á sínum stað. Eitt af því fáa sem prufuökumenn kvörtuðu yfir var afturfjöðrun og þá sérstaklega þegar tekið var hressilega á hjólinu útúr beygjum, þá vildi slá saman, en afturfjöðrun er frá Sachs. Að framan eru tveir fljótandi bremsudiskar og bremsudælur eru frá Brembo (Monobloc) og eru bremsur sagðar með því betra á markaðinum. Hjólið er svo sem engin léttavara en samt með léttari „krúserum“ vigtar 463.5 pund.

Og hverjum myndi ekki langa í einn Diavel, allavega væri ég sko ekki á móti því að eiga einn sérstaklega eftir að hafa sest á einn í Þýskalandi 2011, já reyndar á þrjá í umboði einu. Er ekki komin tími á einn svona, það eru þó nokkrir Dúkka aðdáendur sem og eigendur á Íslandi, hver þeirra verður fyrstur ??!!

Stolið og stílfært af netinu.

Óli bruni

Read 2348 times