Gunnlaugur Harðarson

Gunnlaugur Harðarson

Friday, 05 December 2014 10:05

Meira um "start"

Hér er mynd af manni sem var orðin leiður á kickstarti og fékk sér svona start (sjá meðf.  mynd), sagt er að þetta sé Súkka.
Veit ekki hvort það sé auðvelt að kaupa svona startbúnað, en eflaust vita Súkku eigendur betur um það !!!!

Wednesday, 03 December 2014 17:27

Startsveif

Ágætu félagar

Svona setja karlmenn hjólin sín í gang, hinir eru með konutakka tengdan rafstarti !!!!!

 

 

Sunday, 30 November 2014 12:13

Kawasaki Z-1000

Kawasaki Z-1000

Hvað heillar flest okkar ?

Jú að sjá hlutina eins og þeir eru= Nakið sporthjól Kawasaki Z-1000 árgerð 2013.

Hvenær kom Zetan fyrst fyrir sjónir almennings jú á því herrans ári 2003 (átti reyndar að heita ZR1000 heyrði ég). Þetta nýja hjól var til að fagna eina/fyrsta súperbæki heimsins þ.e.a.s. Z 1 sem kom á götuna þrjátíu árum fyrr eða 1973 (já já ég veit um CB Honduna). Þessi nýja Zta vakti strax athygli fyrir flott útlit og þarna árið 2003 var það ekki spurning að Z 1000 hjólið var flottasta nakta Japanska sporthjólið á markaðinum, skoðið bara myndir af hjólinu frá þessum tíma. Það var skráð með 123 hestafla mótor og stærð hans uppgefin 953cc og hjólið sko lét vita af sér ef skrúfað var upp á rörið, já hægt að spara framdekk verulega ! En samt var það nokkuð þægilegt í innanbæjar skjögti. Árið 2007 var aðeins hresst uppá hjólið með nýju útliti og auknu togi, síðan varð algjör breyting á hjólinu árið 2010, þegar t.d. að mótor var stækkaður um 90cc og við bættust 13 hestöfl og hjólið kom með ABS sem staðalbúnað. Einnig bættist við ný týpa sem kölluð var Z 1000SZ svona ferðaútgáfa með feringu og annarri fjöðrun og bæta mátti við töskum, svona fyrir þá eldri. Ztan hefur átt sér stóran aðdáenda hóp frá upphafi, en reyndar hefur litli bróðir Z 750 selst betur. Það er gaman að bæta því við að gerð var könnun meðal 58 eiganda Ztunnar sem höfðu ekið samtals 500þús mílur og þessi hópur var í raun á flestum árgerðum Ztunnar og um helmingur hafði keypt hjólið sitt nýtt, ¼  hafði keypt hjól sem var ekið í kringum 5000 mílur. Um 40% af af eigendum hjólanna hafði ekið meira en 10þús mílur frá því þeir eignuðust hjólið og þrír af þeim höfðu ekið yfir 30þús mílur og allir sögðust þeirra kaup svona hjól aftur. Smá hugleiðingar um hjólbarða en fyrstu hjólin komu með Battleax Bt-01 dekkjum en seinni hjól komu með Dunlop Sprotmax. Mjög margir sem skipta um dekk fara yfir á Michelin Pilot Power 2CT eða Pilot Road 3 og jú fleiri tegundir. Hjólið er sagt eyða nokkuð miklu en eins og alltaf fer eftir ökumanni. Zetan er sögð vel byggð og frágangur almennt góður og mjög lítið um kvartanir vegna þess. Nýjasta hjólið þ.e.a.s. árgerð 2013 er sagt langt besta 1000 Zetan fram að þessu og er sagt alvöru „streetfighter“. Afl, tog, útlit og aksturseiginleikar er  með því besta á markaðinum. Flestir sem taka í þessa nýju Ztu kaupa hana,ef á annað borð þeir eru að leita sér að hjóli í þessum stærðarflokk.  Eina sem kvartað er yfir er lítill bensíntankur og hart sæti. Skoðum hjólið aðeins betur og byrjum þá á pústkerfið, en hljóðkútar eru beggja vegna og halla upp, en samsetning greina og allra þessa óþarfa mengunardóts eru undir hjólinu, en þetta er bara flott og ekki eins og á of mörgum hjólum í dag þar sem hljóðkútur er bara öðru megin, þannig næst einnig að halla má hjólinu miklu meira. Sætishæð er sögð 32.1 tomma og það er það lágt að jafnvel þeir endastyttri ná niður öfugt við mörg önnur sporthjól. Bensíntankur er vel lagaður þannig að hné leggjast í raun inní tank. Grind er sögð tækniundur og er mikið byggð á ZX-10R hjólinu. Mælaborð er svona eins og mörg hjól í dag, fullt af Ledljósum og digital mælar. En gott er að lesa af mælum jafnvel í mikilli sól. Áseta eins og áður sagt góð og ekki þarf að teygja sig í stýri sem er svona“flatbar“ stýri. Hjólið er mjög hljóðlátt í hægagangi og það breytist ekki mikið þó snúið sé uppá rörið. Eins og oft þá er viðtaka inngjafar svona dulítið snögg eins og oft á hjólum með beina innspýtingu og alltaf nóg afl og lítið mál að losa sig við ökuskýrteini ef ekki er fylgst með hraðamæli. Gírkassi er góður og jafnvel þegar virkilega er tekið á því þá rennur hjólið í alla gíra. En þegar er komið vel yfir þriggja stafa tölu í hraða þá fer að taka vel í og menn þreytast fljótt á hraðbrautum, allavega á lengri leiðum á „góðum“ hraða. Bremsur eru virkilega góðar og að framan eru tveir fljótandi  300mm diskar og bremsudælur eru fjögurra stimpla. Framfjöðrun er stillanleg í báðar áttir og eru framlappir 41mm. Það mun engum leiðast á þessu hjóli, frábærir aksturseiginleikar og afl, meirihátta flott útlit, hvað vilja menn meira ? JÚ skoðið bara myndir af 2014 hjólinu þá kemur svarið. Þetta hjól er svona villinga tæki og menn munu örugglega vera mikið á afturdekkinu og já þræða milli bíla á gatnamótum og aka of hratt innanbæjar, nei nei þetta má ekki, en það má skreppa til Vestmannaeyja og prjóna bara á bryggjunni er það ekki. Lesa má betur um allt tæknilegt á netinu. 

Stolið og stílfært af netinu Óli bruni

Saturday, 22 November 2014 12:27

Öryggi öryggi öryggi = framtíðin

Eftir að hafa lesið um öryggisbúnað, þ.e.a.s. hlífðarbúnað til notkunar á mótorhjólum í mjög mörg ár þá datt mér í hug að fara lesa mig til aftur og ekki veitir af. Ég hef alltaf lesið mig til um þann búnað sem ég hef ætlað að fjárfesta í, sama hvort það séu klossar, hanskar, buxur, jakkar og svo auðvitað hjálma. Nú nýverið las ég nokkuð mikið um hjálma og það var gaman en samt svolítið sérkennilegt hvað það voru margar misvísandi greinar á netinu. Fyrir ekki svo löngu þá skrifaði einn blaðamaður í USA um hjálma og annað, þessi blaðamaður var búin að vera hjólamaður í mjög mörg ár, hafði einnig skrifað hinar ýmsu greinar um mótorhjól sem og öryggisbúnað fyrir hjólamenn.

Þessi blaðamaður var ósáttur við öryggisstaðla í USA, en t.d. eru hjálmar frá USA DOT merktir, þ.e.a.s. það er þeirra vottun. En framleiðendur eins og t.d. Snell vildu í raun nota sína eigin merkingar og vottanir og fengu þær viðurkenndar ef ég hef skilið eina grein sem ég las, en áður en lengra er haldið þá eru öryggisstaðlar miklu kröfuhærri í Evrópu varðandi hjálma. Blaðamaður þessi gerði prufur á nokkrum tegundum hjálma sem eru vinsælir í USA og með DOT merkingum, niðurstöður þessara öryggisprófa voru svo sláandi að hann hafði samband við ritstjóra þekkts mótorhjólablaðs, en þegar þetta var skrifað var þessi blaða-maður sjálfstætt starfandi, ritstjóri þessa blaðs tjáði honum að hann hefði lesið greinina og borið hana undir þrjá framleiðendur hjálma sem voru prufaðir. Hver var niðurstaðan ? Jú þeir hótuðu því að segja upp öllum auglýsingasamningum ef greinin yrði birt. Þessi blaðamaður sem vildi segja sannleikann varð í raun atvinnulaus eftir þessi skrif sín. Blaðamaður þessi heitir Dexter Ford og þið getið örugglega fundið greinar eftir hann.

Sumir blaðamenn mótorhjólablaða fullyrða að ódýr hjálmur (lokaður) geti verið alveg jafn öruggur og sá dýri, sel það ekki dýrara en ég „las“ það. En skrifin sem hér koma á eftir fjalla um nær allan öryggisbúnað sem við ættum að nota við akstur mótorhjóla. Hvaða kröfur gerum við til búnaðar á okkur sjálf ? Hann á að halda okkur þurrum í rigningu, sé ekki of heitur í hita, heitum þegar kalt er og númer eitt að við slösumst ekki illa við óhapp. Hvað á ég að gera þegar rignir ? Fara í regngalla yfir þann fatnað sem tryggir þig sem best í óhappi, nota vatnshelda hanska, sem og skó, það að vera blautur og kaldur gerir þig örugglega að verri ökumanni. Nokkur atriði sem við verðum að hafa í huga við kaup á þessum öryggisbúnaði: Hann er dýr, endist misvel, enn er samt alveg jafn mikilvægur og kaup á hjólinu sjálfu.

Reiknaðu alltaf með að það taki nokkuð vel í „budduna“ að kaupa þann búnað sem telst jafn sjálfsagður og að anda ! Við erum að tala um hjálm, jakka, buxur (samanrennt) eða heilan galla, hanska, klossa og brynju, svo regngalla. Nema menn fari í nælon „snjósleða“ galla sem uppfyllir margt í einum pakka. En eins og leðurfatnaður, þá verður virkilega að skoða eiginleika Goretex nælonfatnaðar, vegna öryggisstaðla, gallinn getur verið hlýr og vatnsheldur en gerir lítið fyrir þig í óhappi.

Þeir sem aka um án alls öryggis og telja sig virkilega flotta, kunni þetta allt og þurfi ekki að vera með fiskabúr á hausnum, eru að öllu jöfnu frábærir „líffæragjafar“ segja læknar a.m.k. Það að hjóla án alls öryggisbúnaðar, ja við nær öllum þekkjum einhvern sem hefur reynt sjálfan sig sem tilraunadýr. Er stíll og útlit mikilvægari en heilsa eða lífið ? spurning sem örugglega er svarað bæði já og nei, eða bara svona smáatriði eins og að getað hjólað aftur. Þetta er farið að hljóma eins og einhver móðursjúk kerling sé að skrifa þetta, en þær eru oft ágætar !! Við hjólaeigendur veljum fatnað og hjálma mjög oft eftir því hvernig hjól við eigum og notum. Harley= pottlok eða opin hjálmur, skálmar og jafnvel bara leðurvesti yfir skyrtu eða bol, Racer= túpugalli, lokaður hjálmur, góðir hanskar og klossar, hvor er betur varin í óhappi spurning !! En rannsóknir sýna að mannslíkaminn er ekki byggður fyrir meiri hraða en ca. 35-40 km á klst., en jafnvel á þeim hraða getur þú slasað þig eða jafnvel dáið. Meiri hraði þá er nær allt inní okkar líkama í hættu. Tala nú ekki um stærsta lífærið: skinnið það virðist þola illa að strjúkast við malbik, rannsóknir sína að þú missir ca. 1mm af yfirborði þess hluta líkamans sem snertir malbik á 50 km hraða og það bætast við  1 mm við hvern rúman kílómetra á klst, sem reiknast með að þú missir svona í þykkt 4 cm af holdi við að falla í götuna án hlífa á 90 km hraða, við vitum öll að sums staðar er þetta hold ekki til staðar og þá tekur hvað við ? beinin !!

Maður er nú bara hættur að hjóla við að lesa þessar hryllingssögur !! Nú er margir farnir að hugsa hvað ég hef aldrei orðið fyrir óhappi !! Það þarf ekki að svara þessu allir kunna svarið. Sumir miða sig við þessar ofurhetjur sem keppa á mótorhjólum nefni t.d. Rossi eða núverandi heimsmeistari í GP hann Marquez, sem féll nýverðið á rúmlega 200 mílna hraða og stóð bara upp og dustaði af sér rykið. Af hverju ? Jú var hann ekki í skálmum með opin hjálm og grifllur fyrir hanska ekki rétt, nei allir vita hvernig hann er klæddur í kappakstri. En það er nær öruggt að engin okkar er með brot af þeirri kunnáttu sem ofangreindir menn hafa og þrátt fyrir að þeir séu að hjóla við bestu aðstæður, þ.e.a.s. engin umferð á móti, engir ljósastaurar eða annað til að lenda á, þá klæða þeir sig í besta hlífðarfatnað sem völ er á. Þá koma menn og segja: Ja sko ég er búin að vera hjóla í tugi ára og ég sko passa mig og fer varlega, já þú gerir það en hinir í umferðinni, sem og hver er raunveruleg geta þín ef þú þarft t.d. að nauðhemla í bleytu, eða jafnvel bara þurru.

Ekki batnar þetta vill einhver kaupa hjólið mitt !! Blaðamaðurinn sem á hluta af þessari sögu er búin að vera hjóla í mjög mörg ár, er talin góður ökumaður, en hvað hann fer samt á hausinn öðru hvoru og hefur lært af biturri reynslu. T.d. síðast þegar hann fór á hausinn þá var hann á c.a 50 km hraða og var í fullum skrúða nema ekki í réttum buxum heldur venjulegum gallabuxum. Hann fór í götuna og tók stykki úr annarri rasskinn, braut upp gamalt brot á hendi, rifbeinbraut sig og það kom 4 cm gat á hnéð þ.e. á dýpt og svo eitthvað fleira, má ekki gleyma verknum af sjúkrahúsreikningum sem var rúmlega 40.000 dollarar, hann nefnir að t.d. kostar allur hlífðarbúnaður Marques 6.500 dollara og hann var á rúmlega 200 mílum.

Hjálmar er sá hlífðarbúnaður sem skiptir mestu máli. Hvernig eru hjálmar byggðir, jú það er límt saman eitthvað frauðplast sem er síðan fest inní plastkúlu með gati á fyrir augun. Þykktin á frauðplastinu skiptir verulegu máli og þá líka hvernig hjálmurinn er smíðaður, er kúpan samansett eða steypt í heilu lagi, þess má geta að samansettir hjálmar eru ekki leyfðir í keppnum í mjög mörgum löndum. Glerið fyrir augun er líka búið til úr mjög sterku efni, sumir framleiðendur hjálma prufa þetta gler með því að skjóta í raun stálkúlum í glerið, þessar kúlur ná allt að 150 km hraða á klst. Þessi blaðamaður fullyrðir að verð segi alls ekki allt um gæði og öryggi hjálma. Rannsóknir sýni að ódýrir hjálmar geti verið nær alveg jafn góðir og öryggir og mjög dýrir (aðrar rannsóknir sýna líka andstæðuna). Þessi blaðamaður leggur meiri áherslu á hvernig hjálmurinn passar þér og þrengi hvergi að, huga t.d. að móðumyndun og festingum. Menn eru oft að borga fyrir þekkt nafn eða jafnvel bara flotta málningu. Hvernig á hjálmur að passa ? Settu hann á höfuðið og taktu með báðum höndum um hjálminn, reyndu að snúa honum og ef höfuðið hreyfist með, jafnvel þó þú reynir að halda höfðinu beinu, þá passar hann, þeir eiga að vera þröngir en ekki meiða þig. Láttu ekki góða sölumenn plata þig, lestu þig til og láttu hjálminn passa. Munum öryggismerkingar þ.e.a.s. miðum við Evrópu staðal ECE 22.05 en ekki DOT eða Snell M2010 (lesa má betur á netinu um hvernig hjálmar eru prófaðir). Margir framleiðendur hjálma segja líftíma þeirra vera um fimm ár, en þá er miðað við nokkuð mikið sólarljós og hita við notkun, en um leið og hjálmurinn er orðin laus á höfði þér, eða hefur fallið í götuna, þá skulum við kaupa nýjan.

Hanskar eru sagðir mjög mikilvægur öryggisbúnaður, af hverju jú liggur í augum uppi að við berum alltaf fyrir okkur hendur ef við föllum, hvort sem við föllum niður við gang eða af mótorhjóli. Það þarf ekki mikinn hraða til að stórskaða á okkur hendurnar, svo eru í þeim líka fullt af allskonar beinum. Hugum vel að því hvernig hanska við kaupum, ekki bara að þeir veiti okkar vörn við kulda og bleytu, nei þeir verða líka að getað tekið við höggum og nuddi.

Mótorhjólajakkar, buxur og heilir gallar, þessi búnaður er hugsaður til að verja stórt svæði, hugum vel að því hvaða leður við erum að kaupa, eru jakkar og buxur með mörg földum saum, er saumurinn teygjanlegur, þolir hann vel bleytu. Nælonfatnaður t.d. Cordura 500D gefur þér ekkert svipaða vörn og 1000D. Jakkar og buxur ættu alltaf að vera renndir saman með góðum rennilás. Sama á við kaup á Gore-Tex fatnaði. Munum alltaf eftir að allur þessi búnaður á að vera með sérstökum varnarpúðum á viðeigandi stöðum. Kaupum ekki of lítil föt, en samt ekki of stór, þannig að þau hreinlega renni af þér við það að falla í götuna. Allur þessi varnabúnaður ætti að vera CE merktur og er oft skipt í tvo flokka CE1 og CE2. Gleymum heldur ekki brynjukaupum og heilar brynjur ætti að öllu jöfnu ekki að vera renndar saman um miðjan brjóskassan, heldur til hliðar eða á ská. Heilir gallar veita bestu vörnina. Síðan er til góður alhliða undirfatnaður, sem í mörgum tilfellum er líka með höggvörn. Gleymum heldur ekki að það sé hægt að lofta jakkann og buxur líka, það er stundum heitt, það ætti aldrei að renna niður aðal rennilásnum til að hleypa inn kaldara lofti.

 

 

Það eru líka til gallabuxur sem eru seldar sem öruggur fatnaður til aksturs mótorhjóla, rannsóknir sýna að svo er ekki, þær veita vörn en ekkert svipað og alvöru leðurbuxur eða nælonfatnaður. En þessar mótorhjólagallabuxur veita þó margfalt betri vörn en venjulegar gallabuxur og henta sæmilega við réttar aðstæður þ.e. lítinn hraða.

Klossar og mótorhjólaskór, við sjáum hjólaeigendur í strigaskóm, já meira segja þekki ég einn sem vill nota inniskó !! Kaupum ekki einhverja „kúreka“ klossa og teljum okkur trú um að þeir séu góðir á mótorhjól ! Vöndum vel valið, mótorhjólaskór þurfa að uppfylla nokkuð margt, eiga að verja okkur og þá sérstaklega ökklann, eiga að vera þægilegir, það sé gott að skipta um gír, þola rigningu og það sé líka hægt að ganga í þeim.

En hvað með ´“lúkkið“ maður minn, ég maður lifandi læt ekki sjá mig í einhverjum snjósleða- galla og með fiskabúr á hausnum !!, nei það er leðrið og opin hjálmur, ég vill „lúkka“ rétt !! Fyrr myndi ég mæta dauður en í gulu vesti með sjálflýsandi röndum !! Regngalli er bara fyrir kerlingar, allavega fer ég úr honum þótt það rigni ef ég ætla að láta sjá mig innan um aðra „alvöru“ hjólamenn !! Þú ert í kúkagalla, ert eins og krypplingur eða líkari tannkremstúbu. Gaman að öllum þessum orðum og setningum en gleymum því aldrei að þú ert að hjóla fyrir þig og engan annan.

Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni

 

Saturday, 15 November 2014 18:09

Fyrsta mótorhjólið þitt

Þetta er spurning sem við ættum öll að getað svarað án þess að hugsa okkur mikið um, því hver man ekki eftir fyrsta mótorhjólinu sínu, hvar það var keypt, hvaða ár, hvaða dag og jafnvel klukkan hvað. Liturinn, stærð mótors o.s.frv. þetta er hjá okkur flestum ógleymanleg stund sama hvað hjólið var gamalt, ástand og stærð á mótor.

Fyrsta hjólið mitt var að sjálfsögðu Honda !! og það var nokkur aðdragandi að kaupum þessa hjóls. Ég og minn besti vinur hann Haukur höfðum verið að skoða mótorhjólablöð í nokkuð mörg ár, ja sko erlend blöð og þau voru sko nokkuð stærri en t.d. Moggin í dag og prentuð á frekar lélegan pappír, en Haukur var áskrifandi að Cycle World. Þetta er á árumu 1964-1966.

Á þessum árum voru aðal hetjurnar Mike the bike Hailwood og Giacomo Agostini, þetta voru alvöru mótorhjóla hetjur sem óku mótorhjólum en ekki tölvukubbum. En snúum okkur að hugleiðingum okkar Hauks og jú vinar okkar Einars Axels. Við höfðum horft öfundaraugum á þessi fáu „litlu“ mótorhjól sem voru á götunum á þessum árum t.d. NSU og annað svipað sem og ein Bridgestone og svo þó nokkrar Hondur 50 sem voru flestar árgerð 1962-63.

Við Haukur höfðum safnað nokkrum aurum frá fermingu okkar sem og sumarvinnu, en foreldrar okkar höfðu takmarkaðan áhuga sem og enn minni fjárráð til að taka þátt í þessum hugleiðingum okkar um kaup á HONDU. En nú var ekki aftur snúið við vissum að það væru að koma til landsins nokkrar 50 kúbika Hondur og það væri Gunnar nokkur Bernhard sem væri með umboð fyrir þessi hjól. Gunnar var með umboð sitt í litlu plássi á Laugaveginum aðeins vestan megin við Heklu umboðið í dag.

Þangað var haldið einn daginn, en þarna var bara opið hluta vikunnar og aðeins part úr degi. Við hittum fyrir hann Gunnar og spurðum og spurðum og spurðum, fengum bæklinga sem og upplýsingar um verð, en greiðslu fyrirkomulag var aðeins staðgreiðsla við afhendingu hjóls. Við Haukur töldum að blái liturinn væri miklu fallegri en sá rauði, en það voru þessir tveir litir í boði. Og svo var mætt aftur nokkrum dögum síðar og sagt að við ætlum að kaupa hjá þér hjól.

Eitthvað vantaði nú uppá að ég ætti alveg fyrir hjólinu þ.e.a.s. uppgefið verð hjá Gunnari, en svona draumar stöðvast ekki við svoleiðis smámuni. Allir vasar voru tæmdir, seldar flöskur, ömmur spurðar (lítið þar) en þær töldu þetta drápstæki og því kæmi ekki til greina að aðstoða við svoleiðis vitleysu. En einhvernvegin náði ég að aura saman fyrir þessu og án aðstoðar foreldra. Nú var pantað skráninganúmer og viti menn hvaða númeri mér er úthlutað án klíku R-1000, já ég hringdi a.m.k. þrisvar sinnum í Bifreiðaskoðun Íslands til að fá að vita um hvort þetta væri örugglega rétt.

 

 

Jæja Einar Axel fær fyrstur okkar sitt hjól sem einnig var blátt og nokkrum dögum síðar Haukur vinur minn. En þar sem mér hafði gengið verr að afla fjármuna þá liðu nokkrir dagar þangað til að ég var klár í að ná mitt hjól. Það var lítið sofið þessa daga og hjólin hjá Hauk og Einari skoðuð og skoðuð og skoðuð. Maður skalf af spenningi nær alla þessa biðdaga.

En svo rann stundin upp, ég átti að ná í  Honduna mína heim til Gunnars sem bjó á Laugarásvegi, en ég bjó hjá foreldrum mínum að Laugarnesvegi svo það var ekki svo langur göngutúr að nálgast hjólið. Þarna gekk maður með alla mína veraldlegu eigur í a.m.k. tveimur vösum, jú þetta voru bæði seðlar og málmpeningar og upphæðin hafði verið talin í mjög mjög mörg skipti til að vera öruggur að ég væri með rétta uppgefna upphæð, sem ég hafði líka spurt Hauk um að sjálfsögðu hvað hann hefði borgað og hvort það hefði ekki verið saman upphæðin og okkur var sagt í upphafi, jú jú sagði Haukur.

Ég mæti í Laugarásinn og ýti skjálfandi af spenningi á dyrabjölluna, Gunnar kemur til dyra, alltaf snyrtilegur sem og brosandi og bíður mér að koma með sér inní bílskúrinn sem er við húsið þar sem hann býr. Hurðin ætlar aldrei að opnast að skúrnum finnst mér. En svo blasir við mér blá Honda innanum nokkra trékassa merkta Honda. Ég skelf í hnjánum og brosið hefur örugglega náð allan hringinn. Þarna stendur fyrsta hjólið mitt Honda árgerð 1966 blá að lit. Ég hef aldrei séð fallegri sýn, bara stend þarna og stari, á ég þetta virkilega, er mig að dreyma. Gunnar vekur mig af þessum draumi og segir eitthvað á þessa leið: Þarna er hjólið þitt og nú er bara eftir að borga !! Ég byrja skjálfandi að tína aura mína á trékassa einn sem stóð þarna og taldi upphátt þangað til allir vasar vorum tæmdir.

Ég horfi svo stoltur á Gunnar og segi: Já hér er þetta allt og í samræmi við uppsett verð, ég er sko að springa af monti að getað keypt sjálfur einn og óstuddur mitt fyrsta mótorhjól. Þá segir Gunnar: Þetta er ekki nóg, hjólið kostar meira !! En ég stama upp einhverju um sagt verð og Haukur hafi borgað sama og ég væri með á kassanum. Gunnar segir ja það sko urðu breytingar á gengi íslensku krónunnar, hvað veit ég um gengi krónunnar eða eitthvað í þeim dúr, nei orð skulu standa og hvað snertir það mig með eitthvað gengi, hvað þýðir annars orðið GENGI !! Ég endurtek það sama að ég eigi bara þessa aura og þetta sé rétt upphæð, maður er rétt fimmtán ára og ekki mikill nagli. Nei segir Gunnar það vantar uppá þetta. Ég styn upp ég skal koma með það sem uppá vantar á morgun og hugsa um leið hvar í veröldinni ætti ég að nálgast það sem uppá vantar, en til gamans þá var þetta svipuð upphæð og ca. 400-500 krónur í dag.

Jú jú segir Gunnar þú getur borgað þetta seinna, en ekki á morgun því þá verð ég upptekin við annað, hvenær villtu fá þína aura ?? Eftir þrjá daga þá verð ég við aftur til að afhenda þér hjólið segir Gunnar. Ég varla trúi þessu sem ég er að heyra fæ ég ekki hjólið fyrr en ég er búin að borga að fullu. Ég endurtek orð mín og segi: Ég sko borga örugglega þú mátt treysta því segi ég skjálfandi röddu, því það blasir við að ég fái ekki hjólið mitt afhent, þrír dagar hljóma eins og tíu ár í mínum huga. Ég hugsa með mér af hverju treystir hann mér ekki, ég stend alltaf við orð mín. En nei Gunnari verður ekki haggað ég fæ ekki hjólið nema að þessir örfáu aurar komist í hendur hans.

Það var ekki laust við að tár komi fram í augum, en ég hugsa með mér ég skal sko ekki láta hann sjá mig vera með blaut augu. Nei ég bít á jaxlinn og ég geng niðurlútur frá skúrnum í átt að heimili mínu og hugsa: Hvað á ég að segja við Hauk og alla hina sem vita að ég var að ná í fyrsta hjólið mitt, já það flaug ýmislegt í gegnum huga minn og eitt af því var af hverju var mér ekki treyst fyrir þessum örfáu krónum, hvar ætti ég að fá þá og já ég ætlaði mér aldrei að kaupa Hondu aftur og til gamans má geta þess að ég stóð við það í ótrúlega mörg ár. Jæja til að gera langa sögu aðeins styttri þá lánaði (gaf) ein frænka mín sem hét Elín þessa aura þó hún ætti lítið, ég fékk hjólið sem og að mörgum árum seinna sagði ég Gunnari þessa sögu og sagði við hann að ég hefði ekki keypt neitt frá Hondu í mjög mjög mörg ár eftir þessa reynslu. Held að hann hafi haft gaman að sögunni sem og staðfestu minni, en hvað veit fimmtán ára unglingur á þessum árum um gengi krónunnar og að reka fyrirtæki. Því verður að bæta við að þessar 1966 Hondur voru þriggja gíra og tvö og hálft hestafl og með innsigli í blöndung, en eldri hjólin þ.e.a.s. 1962-63 hjólin sem kölluð voru C-114 voru fjögurra gíra og fimm hestöfl, en það er önnur saga sem bíður betri tíma.

Skrifað eftir minni: Óli bruni

Friday, 14 November 2014 18:23

Mótorhjólahjálmar

Mótorhjólahjálmar

 

Hverju leita menn að þegar þeir kaupa sér hjálm sem og hvað er það sem veldur því hvaða tegund er keypt ? Er það útlit, verð, tegundaheiti, lokaður, kjálka eða opin, eða það sem margir aðrir hafa keypt. Stórt er spurt, en það er eins gott að vanda valið, því það er svo margt sem við ættum að skoða við val á viðurkenndum hjálm. Það ætti t.d. aldrei að kaupa hjálm án þess að máta hann og þá helst hjá aðila sem veit hvernig hjálmar eiga að falla að höfði viðkomandi. Ætti að kaupa notaða hjálma, nei tel svo ekki vera, nema viðkomandi hjálmur sé í raun nýr og hafi ekki verið notaður.

Margir miða við verðmiða hjálmsins sem auðvitað er erfitt að gagnrýna þ.e.a.s. þegar keyptir eru mjög ódýrir hjálmar, en hvernig verðmetum við höfuð okkar, ekki hægt eins og dæmin sanna. T.d. er sagt að svokallaðir hjálmar sem daglega eru kallaðir „pottlok“ veita minni vörn að öllu jöfnu heldur en derhúfan þín og geta líka valdið auknum skaða, þetta sýna rannsóknir, þeir sem nota þessi „höfuðföt“ eru líka oft kallaðir líffæragjafar af læknum !!

Er dýrasti hjálmurinn bestur, nei örugglega ekki, því stundum erum við að borga fyrir flotta málningu og eftirlíkingu af hjálm sem einhver kappaksturshetjan notar. Fyrir svona flesta þá er það útlit sem og hvað hjálmurinn er þægilegur sem veldur því að við kaupum viðkomandi tegund og jú orðspor manna á meðal.

Ef rætt er um öryggi þá þarf ekki að útskýra það lengi að opin hjálmur ver ekki andlit þitt og það hefur nær engin náð því að verja andlit sitt með höndunum ef við lendum í óhappi. Andlit og malbik fara mjög illa saman ef segja má svo. Kjálkahjálmar hafa verið mjög vinsælir í gegnum tíðina og eru vinsælir, reyndar hvergi leyfðir í ökukeppnum og af hverju ? Jú þeir hafa opnast við högg og þá ekki mikil högg. Lokaður hjálmur veitir því ökumanni nær örugglega mestu vörnina fyrir höfuðmeiðslum. En snúum okkur að smá könnun sem við öll getum nálgast á netinu, þ.e.a.s. hvað er besti alhliða hjálmurinn, miðað við öryggi og já hljóði, því umhverfishávaði getur verið alveg ótrúlega þreytandi og því nota margir eyrnatappa og já sumir nota heyrnatæki sem tengd eru einhverju tæki sem gefur þér möguleika á að hlusta á hljómlist eða annað.

Umhverfishávaði inní hjálm getur náð 115 dB og jafnvel meir á t.d. hraðbrautum. Við getum farið að missa heyrn við 85 dB hávaða og það er ekki aftur snúið ef við hjólum oft og lengi með þennan hávaða í eyrum okkar. Skoðum því þá fimm hjálma sem veita þér bestu vörnina gagnvart hávaða og hvað gerir þá svona hljóðláta. Þeir þurfa að vera þannig í laginu að þeir veiti sem minnst viðnám og dreifi vindinum rétt, svona svipað og við hönnun flugvéla sem og auðvitað mótorhjóla sem hugsuð er fyrir mikinn endahraða sem og bifreiðar. En áður en lengra er haldið þá segja sérfræðingar að nota eigi eyrnatappa þrátt fyrir að þú eigir og notir hljóðlátan hjálm.

Hjálmar eru misjafnir í laginu og á þeim eru oft hlutir eins og t.d. hökuhlíf sem fest er undir hjálminn að framan og virkar mjög vel að halda hávaða sem og vind frá því að fara inní hjálminn. En hvað eru það mörg fyrirtæki sem gefa upp dB hávaða inní hjálm miðað við hraða? Aðeins eitt fyrirtæki í heiminum og það er Schuberth, þeir nota vindgögn og mjög nákvæmar mælingar við hönnun sinna hjálma, Shoei kemur næst hvað varðar hönnun gangvart umhverfis hávaða og notar vindgögn við sína hönnun.

Hvað veldur í raun mesta hávaðanum? Það eru hvirflar sem myndast við viðnám, þetta geta verið loftgötin sem eru á hjálminum þínum, glerið fellur ekki nógu vel að, lögun hjálms og þá koma yfirleitt kjálkahjálmar illa út. Einnig eins og áður sagt vindur kemst undir hjálminn mjög auðveldlega ef engin hökuvörn er til staðar. Því er mikilvægt að skoða lögun hjálms, huga að að ekki séu of stór loftgöt eða annað sem gæti skapað hljóð, einnig eru til hjálmar þar sem hægt er að stilla gler þannig að það leggist betur jafnt að gúmmíþéttiborðum.

shoei rf1200

 

Shoey RF1200 þetta er hjálmur þar sem hönnuðir hafa hugað vel að lögun og að ekkert standi útfrá hjálminum. Hann er straumlínulaga og hugað sérstaklega að lögun hans fyrir neðan gler að framan, þannig að mótvind er beint vel niður á við. Þessi hjálmur er svo hljóðlátur að það munar um hvert loftop sem þú opnar, hann kemur einnig með hökuhlíf.

 

 arai Signet Q

 Arai Signet Q hjálmurinn er mjög svo kúlulaga og hönnuðir hjá Arai telja þannig lag geri hjálminn líka öruggari fyrir höggum. Þessi hjálmur er einnig hannaður sérstaklega með hljóð í huga og þrátt fyrir stærri inntök á lofti heldur en margir aðrir hjálmar, nær hann að vera mjög hljóðlátur. Hann er hljóðlátari heldur en dýrari hjálmar frá sama fyrirtæki, þ.e.a.s. miðað við þá hjálma sem hugsaðir eru til brautarnotkunar.

 Schuberth S3 Pro

Schuberth C3 Pro þessi hjálmur er sá hljóðlátasti á markaðinum og hámarks hljóð inní honum við rúmlega hundrað km hraða er einungis 84 dB, kemur meira að segja betur út heldur en S2 lokaði hjálmurinn frá Schuberth. Einnig er hægt að frá hálskraga með þessum hjálm sem útilokar enn betur öll umhverfishljóð. Svo eru sérstök Tubulators á gleri til að koma í veg fyrir hverfla, en á þessu svæði þ.e.a.s. í kringum gler myndast mjög oft mikið af hverflum og þar með hljóð.

 HJC RPHA Max

HJC RPHA Max hjálmar eru kannski ekki mjög þekkt nafn hér á landi en eru samt mjög þekktir í vissum löndum. Þessi hjálmur er sagður nær á pari við Schuberthinn sem kemur skemmtilega á óvart þar sem hann er í raun á mjög góðu verði. Það kemur kannski á óvart miðað við lag hans en prufur á honum gefa þetta til kynna.

 Schuberth S2

Schuberth S2 er mjög svipaður í laginu og hinn Schuberthinn, en lögun hans gerir það að verkum að hálskraginn er ekki eins, þ.e.a.s hann lokar ekki eins vel fyrir vind undir hjálm. En það munar nú ekki nema einu dB á milli þessara tveggja hjálma, en eitt db er nokkuð í hljóðmælingu annars væri varla verið að tala um það. Sá sem skrifar þessa grein (ekki ég) segir að jafnvel á 300 km hraða var þessi hjálmur svo hljóðlátur að ökumaður gat að sögn heyrt sjálfan sig hugsa !!

Það er að mörgu að huga með hjálma og þetta getur verið nokkuð mikil fjárfesting, en hvað er dýrmætara en höfuð okkar og það sem flestir eru með inní höfðinu. Ekki gott að lækna eða bæta heilabúið þegar menn eru búnir að skemma það og þá hugsanlega útaf því að þeir voru með ódýran hjálm eða alltof gamlan sem var alltof laus á höfði, munum eftir að smelli festingar fyrir ólar eru aldrei eins öruggar og þær sem þræddar í gegnum málmlykkjur. Þetta á einnig við kjálkahjálma, þær festingar sem festa kjálka ættu aldrei að vera úr einhverju plastdóti, heldur ekki það sem krækjurnar festast í.

Stolið og stílfært af netinu:

Óli bruni

Saturday, 08 November 2014 18:56

2015 Ducati Scrambler Classic

Hverjum langar ekki í Ducati jú álíka gáfuleg spurning og spyrja hverjum langar ekki í Harley Davidson !!! En allavega hefur mig langað í þó nokkur hjól sem Ducati hefur framleitt, en sá draumur hefur ekki ræst ennþá en hver veit. En í dag ætlum við að fjalla um nýjasta hjólið frá Ducati og hvað skildi það nú vera enn ein plasttúpan sem er undir einni sekúndu í hundrað !! Nei þeir hjá dúkkaverksmiðjunum vita hvað menn vilja og hvað selst í dag og það er “Retró”, hvort sem um er að ræða Café racer eða svona hálfgert “Off Road” úlit, en allavega nakin hjól þar sem allt sést. Og nú hefur Dúkkinn verður færður í nýtt form og kallast Scrambler, reyndar hafa ducatimenn áður verið með scrambler hjól, en það var árið þrjú og þá einhver eins strokka smágræja. Útlit nýja dúkkans er frá árunum uppúr 1970 og jafnvel aðeins fyrr. Þarna er græja sem er með gamaldags útliti svona svipað og nýja Triumph Scrambler hjólið sem hefur selst eins og heitar pönnukökur. Hjólið fæst í a.m.k. þremur útgáfum þ.e.a.s. hefðbundið og svo Classic. Classic útgáfan kemur með teinafelgum, álbrettum, bensíntankur er frekar lítill gefin upp 13.5 lítrar. Bremsur eru frá Brembo og með standard ABS, einn hálffljótandi diskur að framan 330mm og bremsudæla er með fjórum stimplum. Menn ganga nú ekki alla leið í elliútgáfunni nei það er einn dempari að aftan frá Kayaba og með preload stillingu, að fram eru 41mm framlappir með “upside down” fjöðrun. Það er margt á hjólinu sem grípur mann við fyrstu sýn, t.d. framljósið, sætið og bensíntankur, allt flæðir þetta saman ef segja má svo, framljósið er leadljós og fellur nær inní framenda hjólsins, flottur frágangur. Afturljós er líka lead. Útlit stefnuljós og staðsetning fellur vel að hjólinu, einnig eru neyðarljósa möguleiki (hazard), það eina eins og oft áður eru speglar þeir virðast alltaf stinga í stúf.  Að framan er 18 tommu teinafelga að aftan 17 tommu, hjólbarða eru frekar grófir frá Pirelli og setja skemmtilegan svip á hjólið, sem og að þau ættu að henta í nær allt. Vél er 803cc tveggja strokka og gefin upp 75 hestöfl við 8250 snúninga, togið er 50.2 lb-ft við 5750 snúninga, loftkæld og kemur í raun frá einu Monster hjólinu, með beinni innspýtingu. Gírkassi er sex gíra, kúpling er með barka svona old style. Pústkerfi er tveir í einn og sérstaklega hannað fyrir þetta hjól. Svo kemur smá rúsína í pylsuendan ef segja má svo þ.e.a.s. að aka má hjólinu 12000 km án þess að skipta um tímabelti eða annað hefðbundið viðhald, já dúkkanum hefur farið fram !! Hjólbarðar eru frá Pirelli. Einn mælir er á hjólinu og í honum er nær allt, líka snúningshraðamælir, er digital, já og alls konar viðvörunarljós. Stýrið er hátt og breitt, bremsuhandfang er stillanlegt. Allir rofar á stýri eru frekar “nettir” en samt þægilegir í notkun. Sætishæð ætti að henta öllum, jafnvel þeim sem eru stuttir í annan endan. Þetta hjól er að mínu áliti virkilega flott og á örugglega eftir að ná vinsældum allstaðar, einfalt og flott, hentar í flest og “lúkkar” flott, hægt að fá í a.m.k. þremur útgáfum, nú er bara að sjá hver verður fyrstur að fá sér svona græju.

Stolið og stílfært af netinu:

Óli bruni

Sunday, 02 November 2014 13:03

Mótorhjólaferðalag

Mótorhjólaferðalag

Að nota mótorhjól sem almennt ökutæki sem og til gamans og ferðalaga er ferðamáti sem hentar ekki öllum. Sagt er að í raun sé hægt að skipta fólki í tvo hópa:

Þeir sem segja að þetta séu hávaðasöm stórhættuleg tæki, sem ekið er af afvegaleiddum, skítugum mönnum sem gera mikið af því að horfa á eftir hinu kyninu, já og meira segja sumir þeirra með tattoo.

Svo er það hinn hópurinn sem dásamar þennan ferðamáta, segja frá frelsinu sem fæst með því að vera einn með sjálfum sér og hjólinu og vera ekki eins og allir hinir sem lokaðir eru inní einhverjum járnkassa með tuðandi kerlingu sér við hlið, sem og að eiga góða félaga með sama áhugamál, já hvenær hittast t.d. Skoda eigendur til að spjalla um síðustu ferð á Skodanum !!

Hvor hópurinn hefur rétt fyrir sér ? Eflaust báðir og ef maður tekur það besta frá báðum hópum þá lítur þetta vel út. En verða til mikið af sögum sem gaman er að lesa vegna bílaferðalaga jú ein og ein, en ekkert eins og ein góð  ferðasaga á mótorhjóli. Hér kemur ein þeirra og svona til að hafa gaman af þá snúum við nöfnum aðalleikara yfir á íslensku:

 

Síminn hringir og ég (Húni) svara og það er vinur minn Júlli sem segir heyrðu Bjössi minn já já ég er stundum kallaður Húni og meira segja ýmislegt annað skal ég segja ykkur í trúnaði !! Áfram með söguna og Júlli segir hvað segir þú um það að fara í smá ferðalag með mér og vini okkar Sigurjóni. Það er sko hjólamót sem mér líst vel á segir Júlli. Ég hugsa með mér jú ferðalagið hljómar vel og góður félagsskapur en þessi hjólamót eru öll nákvæmlega eins, ef þú hefur farið á eitt þá ertu búin að sjá þau öll. Þarna verður í boði eins og venjulega alltof dýr aðgangur, dýr matur og lélegur, frekar lélegar hljómsveitir, svo alls konar drasl til sölu, t.d. bolir á uppsprengdu verði af því á þeim stendur eitthvað um þetta mót, yfirleitt alltof mikið af ölvuðu fólki sem notar þessa átillu til að segjast hafa verið að hjóla. En það er alltaf gaman að hjóla og hitta góða félaga og ég verð að taka fram að þessi mót eru alltaf skemmtileg ef maður hittir gamla og góða félaga sem eru þarna til að hjóla og hitta aðra, bulla um mótorhjól, segja sögur, en ekki eins og alltof margir þessa dagana að sína öll merkin sín og ónotaða hjólið sem og að detta í það og muna jafnvel ekki eftir mótinu. (Er söguhetjan í AA!!) Heyrðu Júlli segi ég við verðum þá bara þrír ? Já segir Júlli úr því að Sigurjón fékk brottfararleyfi. Ég er til segi ég og með það sama er ég farin útí skúr til að pakka þessu smádóti sem ég ætla að hafa með.

Næsta dag hitti ég félaga mína á hefðbundnum stað, þó sumir komi seint, já hann Sigurjón er alltaf í vandræðum með þetta hjól sitt, fer stundum í gang og stundum ekki, eins gott að við erum allir sæmilegir í að gera við. Lagt er að stað og ákveðið hver myndi leiða og á hvaða hraða væri svona best að halda sér en mér finnst sjálfum best að aka á svona 110 km hraða þar sem leyft er að aka á 90. En Sigurjón vill helst ekki fara hraðar en 91 km á klst. og því er hann settur aftastur. Það er föstudagur mikil umferð og allir að reyna að komast frá borginni sem fyrst í frí grunar mig. Það er eins gott að vera vel vakandi, því menn á mótorhjólum eru svona þriðja flokks í augum mjög margra ökumanna þessara járnboxa á fjórum hjólum. Þeir eru að tala í GSMinn, mála sig, borða mat, kveikja í rettunni sinni, eða eru að tala við vinkonuna í aftursætinu. Og nú rétt í þessu sé ég lögreglubíl þar sem ökumaðurinn er að tala í GSMinn sinn og er að hlægja að einhverju, gaman í vinnunni hjá honum, hann ekur fram úr mér og mínum félögum, ég er á mínum 110 km hraða (uss lögbrot) en löggan hefur nú engan áhuga á því þessa stundina. Við höfum ákveðið að stoppa alltaf á ca. klukkustunda fresti til svona að teygja úr okkur, ja líka aðallega útaf því að Sigurjón er nú orðin nokkuð gamall og svo auðvitað hjólið hans þolir ekki mikið.

Rétt eftir síðasta stopp sem tók aðeins lengri tíma en venjulega því einn þurfti nauðsynlega að ræða við konuna og getið hver það var !! Skömmu eftir að við lögðum af stað aftur þá ökum við fram á stórann vörubíl með aftaní vagni sem hafði oltið, þessi bíll hafði verið að flytja svín til slátrunar og nú hlupu þau útum allt, ánægð með það að vera sloppin, það eru þó nokkrir ökumenn annarra bifreiða sem hafa stöðvað og reyna að koma þessum ferfætlingum af veginum, þar sem vörubifreiðin og aftaní vagninn loka aðeins hluta vegarins þá reyna sumir ökumenn að aka fram hjá þessu öllu, þeir eru sko á leiðinni í frí !! Svínin skilja ekkert í þessu, þau vita ekkert um almennar umferðarreglur eða umgengni við tvífætlinga á bílum. Ég fer að hugsa hver ætli hafi fundið uppá viðurnefni löggunnar með því að kalla hana „pigs“. Svínin hlíða ekki neinu og hafa bara gaman að þessu öllu. Við félagarnir fylgjumst með hlæjandi, ja svona í laumi, sjáum að við komumst áfram og látum okkur hverfa. Þetta með að stöðva á ca. klukkustunda fresti var nú aðallega tilkomið af því að ég er með mjög lítinn bensíntank á mínum Vtwin, en ég var nú svo gáfaður að hafa með mér aukabrúsa af bensíni í hliðartösku á hjólinu mínu. Og nú verð ég að segja aðeins frá því hvernig þessar töskur eru tilkomnar:

Sko góður vinur minn hann Tryggvi átti gamlan Gullvæng sem hafði ekki verið hreyfður í mjög mörg ár (skiljanlega), hafði staðið úti í öllum veðrum og var orðin mjög svo þreyttur, haugryðgaður. Því ákvað Tryggvi að gefa mér hjólið því hann vissi að ég gæti gert við nær hvað sem er jafnvel ítalskar tíkur. En eftir að ég fékk hjólið þá hugsaði ég með mér, ég mun eflaust aldrei nenna að nota þennan japanska VW á tveimur hjólum, en það væru samt eitthvað sem ég gæti notað af hjólinu á mitt hjól og það voru hliðartöskurnar. Ég bjó til festingar og náði að festa töskurnar á hjólið mitt, nú var ég sko maður lifandi komin með alvöru touring (ferða) hjól. Þetta var sko flott því ég hafði oft orðið bensínlaus langt frá næstu bensínstöð og þurft að biðja félaga mína um aðstoð að ná í bensín, þeir voru farnir að kalla mig bensíntíkina eða stundum móðurlausan björn. Ekki gaman en því voru þessar nýju Oldvængs töskur bjargvættur. En það þarf samt að stöðva og teygja úr sér og að sjálfsögðu að taka bensín á brúsa og hjól, já já og gera við hjá Sigurjóni, meðan hann talar við konuna sína, mikið hvað menn þurfa að tala við þessar kerlingar, ég er heppinn að búa einn. Nú ökum við inná næstu bensínstöð og Júlli ekur beint að næstu dælu sem laus er, Sigurjón ekur eitthvað til að leita að réttu dælunni, kannski betra verð !! Ég sit og bíð eftir því að bíll sem er við dæluna næst hjá Júlla klári og aki á brott. Það tekur smá tíma því sá sem er að dæla er að borða samloku og tala í GSMinn sinn, já segið svo að karlmenn geti ekki gert tvennt í einu.

Nú ég kemst loksins að og Júlli stendur þarna og bara að horfa í kringum sig, þegar hann allt í einu fer að benda á mig, bendir og bendir, segir ekki orð, heldur bara starir á mig og ég bara skil ekki táknmál, reyndar talar Júlli útí eitt, já hann samkjaftar ekki að öllu jöfnu, skil stundum ekki hvað hann getur hjólað lengi án þess að stöðva til að tala. Ég stend nú við hliðina á hjólinu mínu er búin að teygja mig í dæluna, eftir að hafa tekið bensínlokið af. Nú kemur eitt hátt og snött Bjössi frá Júlla og enn er hann að benda. Ég loksins sný mér í þá átt sem Júlli er að benda og sé þá að hjólið mitt logar að aftan, önnur Oldvængs taskan hefur losnað og sigið niður dregist með jörðinni, í þessari tösku var varabensínið mitt og það var líka komin gat á bensínbrúsann, nú lak logandi bensín um allt og við erum sko staddir á bensínstöð. Ég stend þarna og bara geri ekki neitt af viti, Júlli er enn að benda og Sigurjón er í símanum !! Enn stækkar logandi pollurinn, það gerist allt eins og bíómynd sem sýnd er hægt. Ég á að kunna rétt viðbrögð og hvað þá Júlli sem vann allt sitt líf við hættulegar aðstæður, Sigurjón ja ræðum það ekki. Hvernig hafði nú kviknað í þessu, eflaust þegar ég drap á hjólinu þá kom svona smá sprenging útum opnu rörin, kveikjan hjá mér kannski ranglega stillt, en mér fannst oft flott að sjá þessa blossa í myrkri þegar ég drap á hjólinu.

Nú voru allir þarna á bensínplaninu farnir að horfa og kalla eitthvað bull. Starfsmenn stöðvarinnar hlupu um eins og hauslausar hænur og öskruðu eldur eldur eldur, já eru þeir hálfvitar það sjá allir að það er kviknað í. Jæja loksins greip Júlli einhverjar tuskur sem voru þarna til að þurrka af og byrjaði að berja eldinn við töskuna, en það bara kviknaði í tuskunni !! Sigurjón var hættur í símanum og var nú á fullu að berja hjólið mitt með jakkanum sínum sem skömmu síðar stóð líka í logum. Jæja loksins kviknaði í peru í höfðinu á mér, ég brást við á snilldarmáta og náði að opna töskuna, teygði mig í logandi brúsann, greip hann og þeytti honum logandi af öllum kröftum í burtu. Logandi brúsinn svífur í fallegum boga með stæl, ég hefði sko orðið flottur kringlukastari !! En hvar lendir brúsinn, jú á hjólinu hans Sigurjóns og nú loga tvö hjól, hver andskotinn !!

Nú var Sigurjón alveg í vandræðum á hann að reyna að bjarga jakkanum eða hjólinu hans !! Nú var orðið eitt allsherjar panic þarna allir hlupu í allar áttir, en engin var í raun að gera neitt af viti. Þetta hefði orðið flott atriði í hasarbíómynd ekki spurning. Meira segja bílar sem voru að aka framhjá snarbremsuðu til að horfa á þetta ævintýri. Ein kona yfirgaf bílinn sinn og hljóp í burtu með barnið sitt á fanginu, hún hafði eflaust séð fyrir sér svona bíómynda atriði þegar bensínstöðvar springa í loft upp. Nú hafði Júlli fundið brúsa með hreinsiefni fyrir bíla og hellir úr brúsanum yfir hjólið mitt að aftan, það virðist hafa verið einhver vökvi í þessum brúsa sem ja svona hressir uppá eldinn ! Nú leit út fyrir að ég myndi ekki bara missa nýju Oldvæng töskuna, öll fötin mín, heldur allt hjólið. Rétt í því sem ég tel þetta allt vera búið koma þarna tveir menn ganga öruggum skrefum að sitthvoru hjólinu með eitthvað í höndunum, það gýs upp reykmökkur og skömmu síðar er allt slökkt, engin eldur lengur,þetta gerðist allt á örstundu.

Annar af þessum hetjum gengur til mín með slökkvitæki í hendi og segir jæja þetta bjargaðist áður en verr fór, hann kynnir sig með nafni og segist vera slökkviliðsmaður á frívakt og á leiðinni í veiði ásamt vinnufélaga sínum (hinni hetjunni). Horfir á mig svona eins og kona horfir á bilaða bílvél og segir: Sáuð þið ekki öll slökkvitækin sem eru staðsett hér um allt og vel merkt í þokkabót, já meira segja eitt þeirra var hengt upp beint fyrir ofan hjólið þitt !!! Ég reyndi að halda „kúlinu“ og stundi upp að þetta hafi allt gerst svo hratt. Þá sprakk hann úr hlátri og sagði að þetta hafi verið ein besta skemmtun sem hann hafi upplifað, þar sem engin hafi slasast og alltaf mætti bæta þessar hjólatíkur. Ég, Júlli og Sigurjón þökkuðum hetjunum fyrir. Síðan var farið að skoða hjólin, það voru aðeins yfirborðs skemmdir á lakkinu hjá Sigurjóni, en jakkinn var eitthvað sviðinn og vond lykt af honum og Sigurjón hafði áhyggjur af því hvað konan myndi segja !! Hjólið hjá mér hafði nú líka sloppið betur,já mínus taska og sviðinn afturhluti hjólsins en það fór í gang eins og allar alvöru græjur myndu gera. Það var haldin smá fundur og ákveðið að för skildi áfram haldið, ja þegar Sigurjón var búin að hringja í konuna og segja henni frá öllu og fá leyfi til að halda áfram

 

Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni