13.07.19 - Einn þekktasti Gaflari landsins hann Gulli fæddist þennan dag fyrir “SEX”-tíu árum
Flest er fertugum fært, en hvað þá sextugum, já nú erum við að tala saman. Það eru SKO ekki allir sem ná þessum þroska og um leið áfanga að verða “SEX”-tugur. Eins og flestir sem kunna að lesa þá skýrir það sig sjálft að ná þessari tölu “SEX”-tugur. Gulli er með hressari mönnum og eins gott því hann tók að sér nær öll störf fyrir klúbbinn okkar Gaflara, já hann sér um að opna, laga kaffi, taka til meðlæti, segja sumum að það eigi að drekka og borða það sem er í boði á staðnum ekki setja í vasana ofl ofl. Já svo finnst honum lítið mál að taka til og vaska upp, loka húsnæði okkar. Að því loknu leiðir hann oft hópinn (þessir fjórir sem mæta) í góða ferð. Nú myndu margir spyrja, hvað eru ekki fleiri í stjórn Gaflara ? Jú en formaðurinn er oftast upptekinn við að halda húsbílnum gangandi eða í ferðalagi með Gómavinafélaginu. En snúum okkur aftur að afmælisbarninu, hann er dellukarl með stóru D-i. Hann á fleiri Mopar bíla heldur en sjálfur ja sá sem nefndur var hér á undan. Einnig á hann orðið nokkur mótorhjól, bæði gömul og ný. Hann stjórnar eins og allir vita einum banka og fer létt með það (já já ekki bankastjóri en ræður flestu). Við sjáum Gulla líka standa sveittann í flestum uppákomum Gaflara, já meira segja við að gróðursetja tré þar sem ekkert vex. Það er hægt að skrifa mikið meira um þennan góða félaga okkar, en þar sem Gulli ætlar að bjóða öllum Göflurum í veislu næsta þriðjudag (lesist þriðjudagshittingur Gaflara) og þar verður boðið uppá veislumat (lesist kaffi og hugsanlega tvo konfektmola) sem og ræðuhöld annarra en Gulla, þá er bara að mæta. Blóm og kransar afþakkaðir, en allt áfengi er vel þegið segir Gulli. Mætum því vel næsta þriðjudag og samfögnum með Gulla.
Afmæliskveðja Óli enn bruni