Sunday, 02 April 2017 18:24

John Surtees

John Surtees kappaksturshetja sem varð bæði heimsmeistari á mótorhjólum og bíl.

 

Surtees 1 

Hver þekkir ekki þetta nafn sem er hér að ofan, allavega flestir sem eru komnir eins og sagt er: Til vits eða ára ! John fæddist á því herrans ári 1934, sonur eiganda og umboðsmanns mótorhjóla í London. John var ekki gamall þegar hann vann sinn fyrsta kappakstur og þá sem farþegi í hliðarvagni á Vincent mótorhjóli sem faðir hans ók, en feðgarnir voru dæmdir úr keppni vegna ungs aldurs John. Fyrsta alvöru keppnin sem John tók þátt í var þegar hann var fimmtán ára og þá í keppni sem fram fór á grasi.

Sextán ára var John farinn að vinna sem nemi í Vincent verksmiðjunum. Það leið ekki á löngu þangað til John var farin að stríða frægum kappaaksturshetjum og fór hann fljótlega að keppa á Norton keppnishjólum sem Norton verksmiðjunar létu hann hafa eftir að yfirmaður að nafni Joe Craig í keppnisdeild Norton sá hvað ungi maðurinn gat. Á fyrsta ári sínu þ.e.a.s. árið 1955 hafði John afrekað það að vinna þáverandi heimsmeistara Geoff Duke á Silverstone og einnig á Brands Hatch. En Norton verksmiðjurnar voru ekki fjárhagslega stöndugar og því ákvað John að fara keppa fyrir MV Augusta og ítalarnir kölluðu hann fljótlega Filio del vento= Sonur vindsins !

Árið eftir eða 1956 vann John sinn fyrsta heimsmeistartitil á MV Augusta, en árið eftir var ekki eins skemmtilegt fyrir John því Gilera sem og Moto Guzzi hjólin voru betri og John náði aðeins !! þriðja sæti í heimsmeistarkeppninni. En Gilera og Moto Guzzi hættu keppni í Grand Prix í lok ársins 1957 og því var það ekki erfitt fyrir John (og þó) að verða heimsmeistari árin 1958-1959 og 1960, John vann 32 keppnir af 39 sem hann tók þátt í, einnig var hann fyrsti maðurinn til að vinna Senior TT á Isle of Man þrjú ár í röð.

Árið 1960 ákveður John sem þá var tuttugu og sex ára að snúna sér að akstri kappaksturbíla og hans fyrsta keppni í formúlu 1 var á Silverstone brautinni og þá keppti hann fyrir Team Lotus. Í sinni annarri keppni náði hann öðru sætinu og keppti fyrir nokkur lið, en á árinu 1963 keppti hann fyrir Scuderia Ferrari og strax árið eftir varð hann heimsmeistari. Ekki var þetta allt dans á rósum því John slasaðist ílla árið 1965 þegar hann keppti í Ontario Kanada og brotnaði John mjög illa og það illa að sagt var að önnur hlið líkama hans hafi styðst um fjórar tommur. Honum var “tjaslað” saman án uppskurða að mestu leiti og náði sér nokkuð vel.

John hætti hjá Ferrari eftir að þeir sögðu við hann: Þú ert ekki í formi til að taka þátt í 24 tíma kappakstri vegna óphappsins, en John taldi sig vera í fínu formi og hætti því hjá Ferrari mjög ósáttur og fór yfir Cooper Maserati og náði öðru sætinu í heimsmeistarakeppninni þ.e.a.s. á stigum sem ökumaður. Hann ók síðan fyrir t.d. Honda, en stofnaði síðan sitt eigið lið árið 1970, en hætti sjálfur að keppa fyrir alvöru tveimur árum síðar.

 

John gerði ýmislegt eftir að hann hætti að keppa t.d. var með mótorhjólaumboð, Hondu bílaumboð. John Surtees kvaddi okkur 10. mars síðastliðinn. Engin annar hefur leikið það eftir að vinna bæði heimsmeistara titil í Grand prix mótorhjóla og Formúlu 1, þó t.d. Mike “the bike” Hailwood hafi gert það nokkuð gott í kappakstri á bílum. Blessuð sé minning þessa snillings, sem varð heimsmeistari árin 1956, 1958, 1959 og 1960 á mótorhjóli og síðan á heimsmeistari í Formúlu 1 árið 1964. Ekki má gleyma því að Surtees var heiðraður á ýmsan máta meðan hann lifði og lesa má miklu meira um hann á netinu sem og annarsstaðar.

 

Höfundur er félagi í Göflurum

Surtees 2

Read 1820 times