Thursday, 23 March 2017 18:18

Hér um árið

Hjólaferðalög eru alltaf skemmtileg og þá aðallega þegar eitthvað gerist í ferðinni og þá er ekki verið að tala um kvennafar eða að detta í það, nei það fylgir alltaf ekki satt og er ekki í frásögur færandi! Þessi ferð var ákvörðun þriggja félaga af sex og nú átti að heimsækja nesið með jöklinum. Fimm okkar áttum gömul hjól og já sumir jafnvel fleirri en eitt, allt breskt því breskt er best. Þessi eini sem flýgur um loftin blá átti að fá lánað hjól frá einum í hópnum.

 

Þrátt fyrir að þetta væri ekki löng ferð (tvær nætur) var smá undirbúningur með hjólin, svona tékka á olíu, keðju o.s.frv. En ekki leið á löngu þangað til dagurinn er runnin upp, það er fallegt veður og sól. Lagt er af stað og ekki líður á löngu þangað til sá sem alltaf er beðið eftir (er ekki alltaf einn slíkur í öllum hópum !!) óskar eftir því að stöðva í tómstundabúð íslendinga (ríkið fyrir hin ykkar) til að kaupa einn bjór eða þannig SKO. Við erum ný lagðir af stað frá tómstundabúðinni þegar sá tímalausi bendir á bensíntank sinn og stöðvað er við næstu bensínstöð !!

 

Hvalfjörðurinn er tekin og það er ekki löng leið að fyrsta áfangastað, en það er við vatn eitt sem er í nágrenni við nokkuð fræga laxveiðiá, þessi fyrsti áfangastaður er sumarbústaður í eigu foreldra eins okkar. Þarna skal áð, síðan grillað og fá sér einn öl ! Kvöldið er skemmtilegt þarna í bústaðnum, mikið bullað um mótorhjól og allt sem fylgir því að eiga Breskt er best, þessi eini hjólalausi skilur ekkert í okkur að vilja ekki ræða um flug og flugvélar, heldur bara olíuleka breta (orð flugmannsins).

Morguninn heilsar okkar með fallegu veðri og við fáum okkur morgunmat og gerum okkur svo klára til að leggja af stað, allir komnir með hjálm á höfuðið og klárir að leggja í hann, þá kemur sá tímalausi og segist þurfa að borða aðeins !! Menn drepa á hjólum og taka saman spjall um þann tímalausa en eru ekkert að æsa sig yfir honum því við þekkjum hann allir. En nú skal haldið á nesið með viðkomu í Borgarnesi, þar er stöðvað og fengið sér kaffi og smá bensín. Öll hjólin sem eru fjórir Triumph, einn Norton og eitt BSA, sem sagt allt það besta frá Englandi.

Leiðin á nesið þar sem stefnt er á sveitabýli eitt þar sem boðið er uppá gistingu og jafnvel heitan pott. Nokkru áður en komið er á áfangastað þá springur “eina” öryggið í besta hjólinu (Norton) og sem betur fer eins og allir alvöru hjólamenn vita þá er meðferðis aukaöryggi. Við komumst á áfangastað, ja eftir nokkur stopp til að bíða eftir þeim tímalausa sem telur það eðlilegt að allir bíði eftir honum, við hinir teljum að sá tímalausi sé fullur af kvenhormónum eða sé komin af ítölsku kóngafólki !!

 

Gamli sveitabærinn blasir við og það er tekið á móti okkur af ungri konu sem segist vera bóndinn og ráði öllu. Hún vísar okkur til herbergja og segist geta boðið okkur uppá kaffi og smá með því, að sjálfsögðu sé innifalin morgunmatur með gistingunni. Einnig sýnir hún okkur þennan forláta heita pott sem er yfirbyggður, hann megum við nota að vild. Það líður ekki langur tími þangað til við erum allir komnir í heita pottinn með viðeigandi veigar, sumir í sundskýlum en einn okkar í svona gráleitum nærbuxum (voru örugglega einhverntíma hvítar). Við dveljum þarna í pottinum í smá tíma en síðan skal haldið að hóteli einu þarna ekki langt frá sem brann reyndar síðar. Þar skal borða góðan mat og fá sér gott rauðvín og einn bjór.

Heitur pottur

Bóndakonan ekur okkur þangað því eins og allir vita ökum við ekki eftir einn. Á hótelinu er smá bið (við erum vanir) eftir borði, því fáum við okkur einn bjór og hugsanlega eitthvað með honum. Biðin er frekar löng og því einn og einn bjór og eitthvað með. Við setjumst að borðum og það eru pantaðar eðal steikur og sá tímalausi pantar eðal rauðvín með endar lærður frá útlöndum eða “silgdur” eins og sagt er einhversstaðar. Kvöldið líður hratt og nú farið til baka með bóndakonunni sem bauðst til að sækja okkur líka. Strax og komið er að sveitabænum þá er ákveðið að fara í heita pottinn. Þar er lengi verið með einum bjór og svo verða menn að reyna með sér og það er tekið hressilega á því sem og að talað er hátt og varla svefnfriður þarna í sæta sveitahúsinu.

Það er allt í einu komin morgun og við mætum við morgunverðarborðið, nema sá tímalausi hann kemur seinna !! Bóndakonan er frekar fámál og ber á borð fyrir okkur staðgóðan morgunmat, en segir svo: Ég veit alveg hvað einn ykkar borðaði í gærkvöldi, honum hefur ekki þótt maturinn þarna á hótelinu góður, en óþarfi að færa mér hann hálfmeltan inná klósetti !! Menn segja lítið og horfa á hvorn annan en engin viðurkennir þessi endurskil á matnum góða ásamt einum bjór. Menn klárar sinn morgunmat, borga fyrir gistingu og kveðja bóndakonuna með þökkum, en hún segir lítið og ekkert heyrist um að við séum velkomnir aftur. Við klæðum okkur í viðeigandi fatnað fyrir ferðalagið til baka og hjólin sett í gang, veðrið er enn fallegt og lífið er gott. En þá kemur sá tímalausi og segist þurfa fá sér morgunmat og gera sig kláran, já það er eflaust kostur að vera tímalaus.

Mat skilað

Við erum varla lagðir af stað þegar öryggi fer í annað sinn á besta hjólinu (Norton) og sem betur fer er til annað aukaöryggi. Nokkrir kílómetrar og enn fer öryggið, nú er bara eitt eftir og því er skellt í, eigandi besta hjólsins þarf að hlusta á athugasemdir um að BSA og jafnvel Triumph séu betri hjól, kjaftæði eins og allir vita !! Ekki búið að aka lengi þegar öryggið fer aftur og um leið springur að aftan á besta hjólinu. Nú eru góð ráð dýr, ekkert öryggi til og sprungið dekk, en sem betur fer vorum við staddir rétt hjá vélaskemmu og þar inni er maður að gera við traktor. Afturdekkið er tekið undan og meðan eigandi besta hjólsins er að brasa við dekkið biður hann hámenntaðann vélstjóra í hópnum að græja öryggið með smá vírþræði sem sagt að nota ætti einn þráð af tugum þráða úr vírspotta sem með var í för. Sá hámenntaði segist kunna sitt fag og það þurfi ekkert að segja honum til. Með aðstoð mannsins í vélaskemmunni er slanga í dekkinu lagfærð, þessum traktors viðgerðarmanni og bónda finnst við hálf klaufalegir við þessa viðgerð og rífur af okkur slönguna og segist klára málið. Honum er þökkuð aðstoðin og við leggjum aftur í hann eftir smá bið eftir þeim tímalausa !!

 Gott öryggi

Besta hjólið er bara best og líður fram veginn og við nálgumst gatnamótin að Borgarnesi, öryggið heldur sem og viðgerðin á slöngunni. En Adam er ekki lengi í paradís því allt í einu stígur upp reykur frá besta hjólinu og það virðist kviknað í því, já þetta er heljarinnar reykmökkur og ökumaður besta hjólsins rífur hnakkinn af hjólinu til að aftengja eina öryggið sem hafði verið viðgert af þeim hámenntaða, en í stað þess að finna einn vírþráð utanum sprungna öryggið þá var þar heill vírbútur í stað öryggis og þessi vírbútur var sverasti hluti rafkerfi hjólsins. En besta hjólið brann ekki til ösku aðeins nokkuð stór hluti rafkerfi þess, þetta þekkja menn þegar smáspenna nær jörð. Þarna erum við strandaglópar allavega sá sem ekur besta hjólinu. En eins og oft áður þá kemur þarna aðsvífandi maður á bíl með kerru sem á sitja leyfar af gömlu bresku hjóli, þessi með kerruna er þekktur fyrir að kenna á bíl og dreyma um að vera formaður mótorhjólaklúbba (uss nei bara bull). Hann býðst til að setja besta hjólið á kerruna og koma því til byggða, ferðafélagar aðstoða við þetta og gera stöðugt grín að besta hjólinu, telja nota megi það sem akkeri á bát, eða selja það í brotjárn !!

Þýsk eitrun

Ferðin er á enda og þarna situr eigandi besta hjólsins í bíl og hlustar á sögur um lang bestu hjól heimsins sem eru að sögn bílstjóra björgunarbílsins þýsk og vélar þessara hjóla séu eins og tveggja strokka Volkswagen, eigandi besta hjólsins situr þarna og verður að játa því að eflaust séu þessir þýsku boxerar bara nokkuð góðir (úff hlýtur að vera erfitt að viðurkenna þetta án þess að brosa). Ætlar þetta ferðalag aldrei að enda, það hljóta allir að skilja það að hátt í tveggja klst. tal um þýsk gæði getur gert hvern mann bilaðann eða jafnvel komið viðkomandi til að trúa þessu. Ferðin tekur enda og sagan segir að eigandi besta hjólsins hafi þurft sálfræðiaðstoð til að losna við hugsun sýna um þýsk mótorhjól. En segja má frá því að besta hjólið varð aftur það besta eftir smávegilega lagfæringu á rafkerfi þess= Ferðalög þar sem ekkert gerist eru ekki ferðalög sem menn muna eftir !!!!!

Höfundur er óþekktur með öllu.

Read 2518 times Last modified on Friday, 24 March 2017 21:17