Sunday, 05 March 2017 11:33

Rétt tegund eða hvað ??

Söguhetjan hafði ákveðið að nú væri rétti tíminn til að kaupa sér “rétta” tegund af mótorhjóli og hvað er rétt tegund  á því herrans ári 2001 ? (SúúúSúkíí !) Nú auðvitað Harley Davidson annað telst ekki til mótorhjóla ekki satt og ef þú vilt ekki skilja þessa fullyrðingu þá er ekki hægt að útskýra þetta fyrir þér kæri lesandi !! Þ.e.a.s. þeir sem enn eru að lesa, læt eitt smá innskot fylgja áður en lengra er haldið: Ég spurði einu sinni Harley eiganda eftir að hann sagði frá því að konunni hans langaði að fá sér mótorhjól, en taldi að Harley hjól væru of þung fyrir sig, jæja tillaga mín eða spurning var: Afhverju fær hún sér ekki t.d. Hondu Shadow 600 eða svipað ?? Harley eigandinn svarar með áherslu: Þú setur ekki asna inní hesthús !!!!

CVO

Ég er mættur í umboð hinnar einu tegundar og hitti þar fyrir eiganda fyrirtækisins og tjáði honum að ég vildi eiganst Harley Davidson, það var eins og ég hefði sagt honum að hann hefði unnið stóran lottóvinning, hann brosti og sagði: Jæja kæri vinur (við þekktumst ekkert) nú erum við að tala saman, þú hefur semsagt áttað þig á því að Harley er ekki bara mótorhjól heldur lífstíll og yfirlýsing. Síðan fór hann yfir sögu Harley frá upphafi vegar, ég yrði að ganga í klúbb Harley eiganda ofl ofl ofl. Ég var í raun ekki bara að kaupa Harley heldur heila fjölskyldu félaga sem aka um á hinni einu réttu tegund ! Loksins þegar ég komst að til að segja af hvernig Harley ég væri að leita og hvaða eiginleika það ætti að hafa, þá er mér bent á eitt í búðinni sem var nú ekki stór og þetta hjól var svona frekar gamaldags ef segja má svo, með svona hliðartöskum úr leðri með alls konar sylgjum og króm smellum, meira að segja voru ekki standpedlarar heldur svona stigbretti (gott fyrir eldri borgara), stýrið virtist mjög svo hátt og svo var stærðar “rúða” á hjólinu, þessi Harley var í eina litnum: Svart, já eins og Henry gamli Ford sagði: þú getur fengið alla liti svo lengi sem hann er svartur !!

Road King

Eigandi umboðsins er svo vel máli farin að hann gæti örugglega selt eskimóa ísskáp og áður en langt er um liðið er hann búin að sannfæra mig um að nýlega hjólið mitt sem er ekki “réttrar” tegundar þó það komi frá Þýskalandi sé í raun verðlaust en hann muni gera mér greiða og taka það uppí á “sanngjörnu” verði (þessi þýskari var í raun dýrari en Harleyinn !!!). Það líða varla tveir dagar og ég er orðin eigandi af nýjum Harley með alveg ný hönnuðum mótor sem kallaður er Twin cam, en í raun er sami mótorinn og sá fyrsti V mótor sem þeir Davidson bræður og William S. Harley hönnuðu og smíðuðu, þ.e.a.s. tveggja strokka V mótor með undirlyftustöngum fyrir ventla o.s.frv. En þessi nýi mótor var nú með tveimur knastásum og enn með undirlyftustöngum og sagður ekki leka olíu. Þessi mótor var 88 c.inc. Eigandi umboðsins sagði mér að þetta hjól væri mjög aflmikið, en engin færi útúr umboðinu á hjólinu óbreyttu, ég yrði að fá mér aðra hljóðkúta, annað kveikjukerfi sem og lofthreinsara og “jetta” yrði blöndung. Ég fór heim og ræddi þessa nauðsynlegu hluti við konuna mína og dásamaði nýja Harley hjólið mitt, en hún sagði bara: Koma þessi hjól ekki með hljóðkútum !!!

 Softail

Þó svo að ég hafi áður átt Harley (smá viðbótarsaga) en það hjól keypti ég nær ónotað árið 1991 í USA. En þessi Harley var svokallaður Sporster 1200cc árgerð 1990. Ég man enn þegar ég labbaði inní umboðið þarna í Baltimore USA og skoðaði þau hjól sem voru til sölu þarna, sem voru meðal annars alveg nýr Fatboy árgerð 1990 (fyrsta árið sem það hjól var kynnt til sögunar), síðan 1988 FXR sem ekið var 18000 mílur ef ég man rétt. Þarna í þessu litla umboði sem staðsett var nálægt miðbænum tók umboðsmaðurinn sjálfur á móti mér og sýndi mér það sem var til sölu. Þegar ég sýndi áhuga minn á Sporsternum þá spurði hann mig: Er þetta fyrsta hjólið sem þú kaupir ?? (kannski átti hann við Harley!!) Nei nei svara ég fyrsta hjólið mitt var Honda 50 keypt 1966 ! Já segir hann en þú vilt samt kaupa Sporster ? Já já segi ég er þetta ekki flott hjól og aðeins ekið 1200 mílur !! Ja sko um ah jú jú segir umboðsmaðurinn, en viltu ekki frekar FXR hjólið það er hörku hjól !.

Sporster

Sporsterinn er keyptur og kemur nokkru síðar í mínar hendur í flottum kassa eftir nokkrar tafir í tollinum. Ég man að mér leið eins og litlum krakka á jólunum þegar ég hjólið er tekið úr kassanum og geymir tengdur, sem og sett bensín á flotta nýja Harleyinn minn. Það er skjálfhentur maður sem setur þetta besta hjól heimsins (já já SúúúSúkíí) í gang og það hrekkur í gang eftir nokkrar tilraunir, það hljómar eins og ja eins og Sporster, hristist all hressilega í hægagangi, enda 1200cc mótor boltaður beint í grindina. Ég ákveð að prufa græjuna þó engin skráninganúmer séu á hjólinu. Ég fer frá heimili mínu í suðurhlíðum og ætla upp að Perlunni, í fyrstu beygju rek ég niður standpedala all hressilega, smá hraðahindrun og demparar slá saman, síðan hristist græjan eins og blautur hundur af sundi ef hressilega er gefið inn. Hvað er ég eiginlega búin að kaupa og það koma upp í huga mínum orð umboðsmannsins í USA: Viltu ekki frekar skoða FXR hjólið !! Til að gera langa sögu stutta, þá reyndi ég ýmislegt til að gera Sporsterinn að einhverju sem það varð aldrei, nýtt púst, nýtt kveikjukerfi, heitari knastásar, “jettaður” blöndungur, ofl ofl, en það skipti engu, þetta var enn sama hjólið !!

Street glide

Aftur að alvöru hjólinu þ.e.a.s. softail hjólinu með 1450cc twin cam mótornum, nú er 2001 og að sjálfsögðu er þetta fullvaxinn Harley og ekkert í líkingu við Sporster eða hvað !! Að sjálfsögðu fór ég eftir “leiðbeiningum” umboðsmannsins og hóf að kaupa allt sem ég gat, því eins og menn/konur vita þá koma nær allir Harley þannig að þeir eru eins og naktar “Barbie” dúkkur í kassa þ.e. það þarf að kaupa allt í aukahlutalistanum til að hjólið verði flott ekki satt ??!!. Byrjað var á nýjum hljóðkútum, öðrum lofthreinsara, “jett” kitti fyrir blöndung, síðan ný handföng, flottari göngubretti, nýtt þetta nýtt hitt já það var örugglega veisla hjá umboðsmanninum, ég fékk krómeitrun og eina lækningin var að kaupa meira króm. En hvernig var þetta besta mótorhjól heimsins (já SúúúSúkíí) eftir allt þetta, aflið ógurlegt !!, aksturseiginleikar frábærir !! o.s.frv. Nei þetta var enn Softail Harley og svo sem ágætis hjól, ef þú hugsar rólega og tekur því rólega, því eins og áður sagt var þetta Harley og ef það þarf að útskýra þetta fyrir þér þá skilur þú þetta ekki. En ég er eins og kanarífuglinn sem flýgur á glerrúðuna aftur, aftur og aftur, ég átti eftir að kaupa marga Harley í viðbót við þessa tvo, en í dag á ég ekkert mótorhjól heldur bara, nokkra breta, (nýja og gamla), eina Hondu og einn Kawa og ef ég þarf að útskýra af hverju þá skilur þú þetta ekki eða hvað !!!!!!

 Street Rod

Höfundur er meðlimur í Göflurum og hefur því ekkert vit á mótorhjólum: Og ef það þarf að úskýra þetta fyrir þér þá skilur þú það ekki !!!

p.s. nokkrir af Harley hjólum sem ég átti þ.e.a.s. eins og myndir sýna

Read 696 times