Print this page
Friday, 17 February 2017 19:38

Sannar mótorhjólasögur

Allar mótorhjólasögur eru sannar ekki satt, allavega man ég ekki eftir mótorhjólasögu sem ekki er sönn eða hvað með þig. En mig grunar samt að aðrar sögur en þær sem eru aðeins “stílfærðar” gleymist fljótt !!

Þessi “sanna” saga gerist fyrir ekki svo löngu, það er laugardagur og mitt sumar og aðal söguhetjan hann SigurHansi er í óða önn að gera Honduna sína klára fyrir dagsferð með félögum sínum í félagi sem kennt er við bæjarfélag. Auðvitað var formaður þessa félags búin að segja SigurHansa að hann ætti að kaupa sér Súúsúkkíí og þá helst Bandító en ekki einhverja gamla CB Hondu, en SigurHansi hafði heyrt frá aðal Hondumanni landsins að ekkert hjól kæmist með tærnar þar sem CB Hondan væri með hælana ef segja má svo. Þessar CB750 Hondur væru maður lifandi ofurhjól samtímans (ja kannski í kringum 1969 !!) en þessi sanna saga gerist 2016.

Það er fallegt veður og CB Honda SigurHansa er glæsileg á að líta, allavega úr fjarska, eitthvað hefur nú misfarist í málningu þessa hjóls þó sagan segi að CB Hondan sé með “orginal” lakk. Ef vel er hlustað þá hljómar mótor þessarar CB750 Hondu eins og einhver hafi gleymt nokkrum lausum boltum í sveifarhúsi !! Reyndar hafði útlendingur sem búsettur er á eyju við suðurströnd þeirrar eyju þar sem þessi sanna saga gerist sagt SigurHansa að einhver á lyfjum hafi örugglega átt og gert “upp” þessa alveg “orginal” CB ofur Hondu, sagt SigurHansa í algjörum trúnaði og það mætti ekki fréttast: Þessi Honda er bara ónýt ! og það sem verra er að hún er ekki “orginal” eins og mínar Hondur !! En hvað vissi þessi “útlendingur”.

SigurHansi leggur CB Hondunni á áberandi stað við félagsheimili  félagsins því hann vildi að aðrir njóti “fegurðarinnar. SigurHansi heilsar félögum sínum og spyr þá hvert eigi að halda í þessu fallega veðri. Honum er sagt að aðeins einn maður ráði því: Semsagt Súúsúkíí eigandinn og formaður félagsins. SigurHansi heilsar uppá formanninn með orðunum: Fallegur CB dagur félagi. Formaðurinn virðist ekki heyra og fer að tala um mikið afl og tog í Bandítóinum sínum og hvað Súkku hönnuðir séu þeir einu með viti á eftir ja Harley !! SigurHansi bendir brosandi á sína CB Hondu og segir: Er hún ekki glæsileg, en tekur ekki eftir því að formaðurinn er farin að tala við einhvern sem gengur þarna framhjá um eitthvað sem heitir Mopar !! SigurHansi fær loksins uppgefið að halda eigi í gegnum Hvalfjarðargöng og síðan í Borgarnes og þar tekin smá kaffipása, þaðan yrði haldið að Vegamótum á Snæfellsnesi , endatakmarkið yrði Hellnar.  SigurHansa lýst vel á þetta en spyr samt um eitt: Hvaða hraða akið þið á kæru félagar ? Og bætir við ég vill alls ekki of hratt !

 

Ferðin er hafin og SigurHansi hefur komið sér mjög framarlega í fimmtán hjóla röð, já vel mætt í þennan hópakstur góðra félaga. Auðvitað eiga fallegustu og bestu hjólin að vera sem fremst ekki satt hugsar SigurHansi með sér og brosir útað eyrum þar sem hann situr á alveg “orginal” CB Hondunni sinni. Ferðin gengur vel og meðalhraði er í kringum 90 km á klst. Áður en SigurHansi veit af er CB Hondan og hann komin í Borgarnes. Þar taka menn sér smá pásu, spjalla saman og fá sér kaffi. SigurHansi gengur milli manna og bendir þeim á í raun fallegsta og besta hjólið í ferðinni CB Honduna. Hann fær misjafnar undirtektir því eins og eðlilegt er þá finnst mönnum sín tegund best, formaðurinn vill bara ræða Súúsúkkí. En þetta er góður dagur sólin skín og allir í góðu skapi.

SigurHansi passar sig að vera klár þegar ekið er af stað til að vera framarlega í röðinni, það er ekið rólega frá Borgarnesi og að hringtorgi einu sem er staðsett við gatnamótin útá Snæfellsnes. Hópurinn er í fallegri röð og SigurHansi er ánægður með félaga sína, engin framúrakstur og ekið á góðum og jöfnum hraða. En brosandi CB Hondu eigandinn er varla búin að sleppa þessum fallegu hugsunum þegar fyrsta hjólið ekur fram úr honum, síðan næsti, það skiptir ekki máli þó það séu beygjur og blindhæðir eða jafnvel bílar á móti það bara ætla allir framúr CB Hondunni hans SigurHansa. Hann horfir á hraðamælirinn og hann sýnir 100 km á klst. SigurHansi hugsar með sér: Ég læt ekki einhverjar Súkkur, Heimaha eða Kawasúkkí fara fram úr mér !! SigurHansi snýr uppá rörið og hraðinn eykst, nú er CB Hondan á réttu róli enda þarna á ferð Súperbike (fortíðarinnar). En andskotinn hugsar SigurHansi með sér þegar einhver Bretadrusla á kuppadekkjum fer fram úr CB Hondunni, nei þetta gengur ekki segir SigurHansi við sjálfan sig, ég læt ekki míglekan breta fara fram úr mér. Það er enn meira snúið uppá rörið og SigurHansi sér að CB Hondan er komin í 150 km hraða á klst, en það er nóg eftir veit hann.

SigurHansi finnst hann vera komin á ógnarhraða, mótorinn í CB Hondunni hljómar eins og einhver sé að hrista málningarfötu fulla af nöglum, næsta beygja nálgast ógnar hratt og SigurHansi verður að hafa sig allan við til að ná þessari kröppur beygju, en helvítis djöfulsins glæpamaður er þetta sem fer fram úr CB Hondunni og já hægra megin meira að segja og þetta er gamall Vængur framleiddur af Honda ! Hvílíkt virðingarleysi er þetta hugsar SigurHansi, eru menn brjálaðir í þessu félagi, vita menn ekki að hámarkshraði er 90 km á klst. á þessum vegi ??!!. SigurHansi lendir á smá hæðarmismun á okkar góða malbiki, CB Hondan tekur stökk og allir demparar slá saman (enda orginal), hjólið hristir sig eins og blautur hundur af sundi og SigurHansi horfir eina ferðina enn á hraðamælinn og hann sýnir nú 170 km á klst og þá allt í einu kemur lítill svokallaður hippi framúr CB Hondunni, sá ökumaður virðist njóta sín vel, er með lappirnar svona lagðar á einhverja pedala fremst á grind hjólsins. Er maðurinn brjálaður hugsar SigurHansi heldur hann að þetta sé GP kappakstur og hann sé Valentino Rossi eða hvað. CB Hondan virðist vera að hristast í sundur og hún skekur sig eins og góður graðfoli í nálægð merar, ætlar þetta aldrei að taka enda segir SigurHansi við sjálfan sig, næsta beygja blasir við og nú er það aðeins frábær aksturskunnátta SigurHansa sem bjargar því að hann aki ekki útaf á 180 km hraða á klst.

 

Loksins loksins loksins Vegamót og SigurHansi ekur CB Hondunni inná bílastæðið við þenna áfangastað. Hann stígur af hjólinu og sér þá að það virðist leka olía frá nær öllum hlutum þessa besta mótor heimsins, annar afturdemparinn virðist hafa losnað frá, annar spegillinn er horfin, já meira segja skráningarnúmerið hefur losnað og hangir á öðrum boltanum. Hvílíkt og annað eins hugsar SigurHansi með sér, enda var ekið á nær 190 km hraða á klst. þegar hraðast var ekið (ath. orginal hraðamælir). Þarna þegar SigurHansi er að skoða afleiðingar þessa brjálæðis akstur kemur að honum einn félaginn, já þessi á bretadruslunni og segir brosandi: Breskt er best og bætir við: Hef ekki séð svona mikla olíu utaná mótorhjóli síðan ég átti einu sinni Harley. SigurHansi nær öskrar á þennan vitleysing og segir: Þetta bretadrasl er eingöngu hægt að nota í brotajárn !!

SigurHansi ákveður nú að tala við formann þessa félags og segja honum að hann muni aldrei nokkurn tíma fara í hópakstur með þessum helvítis hraðafíklum. SigurHansi segir formanni hvað honum finnst um þennan hóp og bætir við: Ég held ég haldi heim á leið, CB Hondan þolir varla meira svona bull, ég bið að heilsa ykkur. Formaðurinn skilur ekkert í þessu og reynir að leiðrétta sagðan ökuhraða því hann hafi verið fremstur og hafi aldrei farið yfir 110 km hraða á klst. En SigurHansi hristir bara hausinn setur á sig hjálminn og sest á CB Honduna og reynir gangsetningu, mótorinn á CB Hondunni virðist vera þreyttur eftir þetta allt saman og svona dregur djúpt andan og rekur upp nokkur andköf, það kemur sprenging og svo önnur, en að lokum fer CB Hondan í gang, en virðist ekki ganga á öllum. SigurHansi ekur burt frá þessum hraðafíklum og CB Hondan skilur eftir sig smá slóð af olíu, hjólið virðist halla aðeins til hægri en hverfur að lokum sjónum manna sem standa þarna og skilja ekkert í þessu tali um hraðakstur. Sagan segir að SigurHansi hafi komist heim að lokum, hann hafi þakkað það frábærri hönnun Honda, því hvaða ökutæki þolir til lengdar 200 km hraða á klst !!!!!!

Alveg sönn saga sögð af SigurHansa !

Read 2638 times