Saturday, 11 February 2017 19:25

Hugleiðingar eftir að ég heyrði í samgöngumálaráðherra í morgunútvarpinu

Kæri “vitlausi” bíleigandi/notandi, já þú þarna sem keyptir þér bíl sem er notaður er sem skattheimta við kaup á þessu “óþarfa” tæki, þú borgar innflutningsgjöld, af bílunum sem og flutningi hans til landsins, síðan vaskur ofan á allt saman. Þú þarft að tryggja bílinn og óbeint er að sjálfsögðu skattur af tryggingum bílsins, svo þarftu að kaupa eldsneyti, olíu, hjólbarða varahluti, viðgerðir og allt er skattlagt, síðan koma “smá” bifreiðagjöld, við tölum ekkert um afföll af þessu “óþarfa” tæki sem verður í raun verðlaust á örfáum árum og lánið sem þú tókst til að fjármagna bílakaupinn þarf líka að endurgreiða með vöxtum. Nú svo þurfum við stundum að fara á staði þar sem gjaldtaka er fyrir að leggja bílnum ekki satt. Eftir þessa upptalningu hverjum eiginlega dettur í hug að “fjárfesta” í bíl og já ég hef örugglega gleymt mörgu ?! Nei við eigum að nota almenningssamgöngutæki sem er auðvitað frábært því okkar góða veðurfar bíður uppá það mesta hluta ársins ekki satt, þó það rigni aðeins og smá snjór að viðbættu roki þá klæðum við okkur bara betur ! Þeir sem eiga börn skilja þetta enn betur hvað það er gott að fara með börn á ýmsum aldri í okkar almenningssamgöngutæki. Þetta er yfirleitt ekki nema nokkrir kílómetrar í næsta strætó frá heimili okkar ekki satt ! Það eru allstaðar góð strætóskýli sem verja þig og börnin þín fyrir öllu veðri ekki satt ?! Svo er það auðvitað eina raunverulega lausnin: Reiðhjól fyrir alla í fjölskyldunni, þetta frábæra samgöngutæki hentar öllum á öllum aldri ekki satt, það felur í sér stórlækkaðan kostnað ef bílnum er sleppt og hentar við öll tækifæri, allan ársins hring og í öllum veðrum ekki satt ?! Reiðhjólið er mjög heppilegt ja t.d. þegar við förum að versla inn mat og eða t.d. að kaupa okkur skáp í Ikea, já bara frábært tæki, ódýr líkamsrækt, aldrei að kaup eldsneyti, já bara við að skrifa þetta þá fer ég með mína bíldruslu á bílasölu á morgun og fæ að njóta góða veðursins á reiðhjólinu, þó reyndar í dag sé rigning og 25-30 metra vindur á sekúndu ! Hverning kem ég börnum mínum eða barnabörnum í skólann á reiðhjólinu ? Þ.e.a.s. þau sem geta ekki hjólað sjálf við allar aðstæður í skólann, íþróttir og áhugamál. Ég sé fyrir mér föður eða móður setja tveggja mánaða barnið sitt í barnastól á hjólinu eða í kerruna sem fest er við hjólið, smá frost og snjór eða rok og rigning skiptir ekki máli eða er það nokkuð ?! Svo er það unglingurinn minn sem neitar að fara í kerruna sem fest er við hjólið mitt, hann bara skilur ekki af hverju við eigum ekki bíl eins og aðrir “vitleysingjar”. En miskiljið mig ekki reiðhjól er frábært samgöngutæki við réttar aðstæður og hentar sumum en alls ekki öllum. En nóg komið þó ég hefði getað skrifað miklu meira, en hver er kveikjan að þessum skrifum: Jú nýjasta hugmynd núverandi stjórnvalda að fara innheimta nýjan skatt af “vitleysingjum” sem eiga bíla, þ.e.a.s. þeim sem langar að fara útfyrir stór Reykjavíkursvæðið ! Semsagt taka upp gjaldheimtu eins og í Hvalfjarðar-göngunum, ekki spurning að þetta er frábær hugmynd að skattleggja enn meira þá “vitleysingja” sem eiga og nota bíl, nú er það ekki lengur þeir sem stjórna Reykjavíkurborg sem vilja útrýma bílnum, nei nú eru það líka þeir sem stjórna landinu okkar. Bendi á að til að allir bíleigendur standi í sömu sporum, þá yrði auðvitað að setja gjald á þá sem vilja aka útfrá t.d. Akureyri, Ísafirði, Neskaupsstað, Hornafirði, því ekki má mismuna íbúum þessa lands, það verður að innheimta gjald af öllum þeim sem nota þau göng sem eru nú þegar tilbúin og þau eru þó nokkur víðs vegar um landið. Hvert stefnum við eiginlega í þessu landi okkar, allavega er ég hættur að skilja hver stefnan er, mig grunar að ríkiskassinn yrðu hálf tómur ef aðeins væru til ökutæki í eigu hins opinbera eða einkafyrirtækja þ.e.a.s. aðeins rútur-strætó-lögreglu og sjúkrabílar-steypubílar og já engin á einkabíl sem er eflaust draumur nokkurra sem stjórna okkar ástsælu höfuðborg í dag. Læt þetta duga því eflaust nennir engin að lesa þetta því allir eru að flýta sér að ná næsta “strætó”.

kveðja

Vitlausi bíl og mótorhjólaeigandinn

Read 2673 times