Friday, 16 December 2016 21:55

Kröft­um Fenris sleppt laus­um

tekið af mbl.is

Í Kaup­manna­höfn er nýr dansk-ís­lensk­ur mótor­hjóla­fram­leiðandi að brjót­ast fram á sjón­ar­sviðið. Fyr­ir­tækið hef­ur látið lítið fyr­ir sér fara og áhersl­an verið á þróun nýrr­ar teg­und­ar mótor­hjóla. Eft­ir þrjú ár af hönn­un og próf­un­um er núna stefnt að því að hefja sölu á fyrstu hjól­un­um frá Fenris Motorcyc­les árið 2019.

Bjarni Freyr Guðmunds­son stofnaði Fenris með Jesper Vind. „Ég út­skrifaðist með masters­gráðu frá DTU í Kaup­manna­höfn árið 2011 og vann í fram­hald­inu heima á Íslandi í orku­geir­an­um, en fór fljót­lega aft­ur út til Dan­merk­ur til að at­huga tæki­fær­in í raf­magns­far­ar­tækja­brans­an­um. Ég kynnt­ist Jesper á þess­um tíma og fljót­lega urðum við sam­mála um að mjög áhuga­verðir hlut­ir væru að ger­ast á sviði raf­magns­mótor­hjóla, og framþró­un­in á milli ára of mik­il til að hunsa.“

Þeir Bjarni og Jesper stofnuðu fyrst fyr­ir­tækið Fut­ure Electric árið 2012 með það að mark­miði að búa til keppn­is­mótor­hjól sem nota mætti til að þróa tækn­ina áfram. „Við sáum tæki­færi í því að þróa betra afl­kerfi og stýri­kerfi og gát­um notað kapp­akst­ursum­hverfið til að bera okk­ur sam­an við aðra sem eru að fást við svipaða hluti.“

Eft­ir keppn­is­tíma­bilið 2014 ákváðu þeir fé­lag­ar að breyta um stefnu. Þá hafði þeim Bjarna og Jesper orðið mikið ágengt hvað snerti tækni­legu hliðina og orðið tíma­bært að huga að fjölda­fram­leiðslu á raf­magns­mótor­hjól­um fyr­ir al­menn­an markað. „Á þess­um tíma höfðum við verið að skoða tækn­ina og hvar mörk henn­ar lágu, við sáum fram á að geta náð bens­ín­hjól­um á fá­ein­um árum.“

Fyr­ir­tækið tók upp Fen­ris­nafnið í nóv­em­ber. Bjarni seg­ir nafnið inn­blásið af þeim fram­förum í hraða og krafti sem séu að eiga sér stað í þróum raf­magns­mótor­hjóla. „Fenrir var fyrst aðeins lít­ill úlf­ur sem guðirn­ir áttu, en hann óx og óx þar til hann var svo stór og sterk­ur að eng­inn gat hamið hann. Í dag er eitt stærsta verk­efni okk­ar að hemja kraft hjóls­ins og gefa öku­manni fullt vald á því.“

Stefnt á 4.000 hjól á ári

Sem keppn­islið fjár­mögnuðu frum­kvöðlarn­ir verk­efnið úr eig­in vasa en í byrj­un 2015 fékk fyr­ir­tækið danska og aust­ur­ríska fjár­festa til liðs við sig. „Það gerði okk­ur kleift að auka um­svif­in tölu­vert, og í byrj­un næsta árs mun­um við vinna að því að bæta við okk­ur enn meiri mann­skap.“

Bjarni seg­ir Fenris Motorcyc­les komið á þann stað í dag að tækn­in sé til­bú­in og síðustu próf­an­ir verði gerðar á mótorn­um í des­em­ber og janú­ar. „Næsta árið mun­um við vinna jöfn­um hönd­um að því að bæta tækn­ina og hanna út­lit hjól­anna og má vænta þess að eft­ir ár eða svo verði kom­in góð mynd á vöru sem færi á markað árið 2019. Það ár hyggj­umst við fram­leiða 500 hjól, og ætt­um auðveld­lega að geta náð fram­leiðslu­get­unni upp í 4.000 hjól á ári á inn­an við fimm árum eft­ir að fram­leiðsla hefst.“ Seg­ir Bjarni að mótor­hjól­in frá Fenris ættu að verða á svipuðu verði og sam­bæri­leg bens­ín­mótor­hjól.

Lá­rétt­ir gaffl­ar

En hver er áskor­un­in við að smíða raf­magns­mótor­hjól? Er þetta spurn­ing um eitt­hvað meira en að skipta út vél fyr­ir raf­hlöðu? Bjarni seg­ir Fenris hafa þurft að yf­ir­stíga margs kon­ar hindr­an­ir, og er sú fyrsta að koma allri tækn­inni fyr­ir. „Fyrsta mótor­hjól okk­ar var byggt á ramm­ann af gam­alli Hondu og kom­umst við fljótt að því að það væri alls ekki besta leiðin til að smíða raf­magns­mótor­hjól. Við þurft­um að fórna mik­illi getu og krafti til að koma raf­magns­tækn­inni fyr­ir í ramma sem var bú­inn til fyr­ir eitt­hvað allt annað. Varð því úr að þróa nýtt stell, sér­stak­lega sniðið að raf­magns­mótorn­um.“

Fenris fer þá leið að sleppa því að láta gaffal liggja beint úr stýr­inu niður í fram­hjólið. Þess í stað liggja fram- og aft­urgafl­arn­ir báðir lá­rétt út frá raf­mótor sem komið er fyr­ir neðarlega og aft­ar­lega á hjól­inu. All­ir aðrir hlut­ar hjóls­ins hvíla ofan á þess­um ramma, sem trygg­ir að auðvelt er að koma raf­hlöðum fyr­ir, enda þarf ekki að pakka þeim inn í þröngt sniðna grind. Þýskt sam­starfs­fyr­ir­tæki smíðar sjálf­an raf­mótor­inn og einnig fram­leiða sam­starfsaðilar raf­hlöðurn­ar og stýri­kerfi Fenris. „Við kom­umst mjög snemma að því að við gát­um ekki gripið til ein­hverr­ar til­bú­inn­ar lausn­ar og þurfti að hanna sér­lausn­ir fyr­ir alla hluta hjóls­ins. Til dæm­is er raf­hlöðupakk­inn allt öðru­vísi en í raf­magns­bíl­um.“

Betri stjórn í heml­un

Að hafa stýrið ekki bein­tengt við fram­gaffal­inn á meðal ann­ars að bæta stjórn á hjól­inu þegar hemlað er snögg­lega. „Á venju­legu hjóli get­ur hröð heml­un orðið til þess að „klára“ fjöðrun­ina í fram­hjól­inu. Við þetta fer höggið af brems­un­inni beint upp í hand­leggi öku­manns og hætt við að hann hafi þá minni stjórn á hjól­inu,“ seg­ir Bjarni, en í framöxl­in­um er svo­kölluð „hub center“-stýr­ing sem snýr öxl­in­um í sam­ræmi við snún­ing stýr­is­ins.

Það hvernig öxl­um og inn­volsi er komið fyr­ir veit­ir hönnuðum Fenris mikið frelsi: „Þetta þýðir að um leið og við höf­um sett fyrsta mótor­hjólið í fjölda­fram­leiðslu get­um við strax byrjað á því næsta og notað þenn­an sama grunn, og lít­ill vandi að t.d. hækka eða lækka sætið eða færa til stýrið án þess að þurfa að gera veru­leg­ar breyt­ing­ar á mek­an­íska hluta hjóls­ins.“

Ná stjórn á kraft­in­um

Hug­búnaður­inn skipt­ir miklu máli þegar raf­magns­far­ar­tæki eiga í hlut. Bæði þarf að vakta raf­hlöðurn­ar vel og tryggja að þær vinni inn­an marka sem há­mark­ar end­ingu þeirra, en líka að sækja aflið með þeim hætti að öku­manni sé ekki stefnt í hættu. „Þeir sem prófað hafa kraft­mikla raf­magns­bíla vita að snún­ings­átakið úr raf­magns­mótor get­ur verið gríðarlegt. Við kom­um fyr­ir skynj­ur­um sem nema hvernig hjólið ligg­ur og not­um hug­búnað sem kem­ur í veg fyr­ir að öll 150 kílóvött­in eða 200 hest­öfl­in úr vél­inni láti hjólið prjóna yfir sig. Get­ur not­andi hjóls­ins stillt hversu mikið hug­búnaður­inn gríp­ur inn í, þannig að tölv­an leyfi að fram­hjólið rísi upp um 0° og upp í allt að 40°,“ seg­ir Bjarni og bæt­ir við að há­marks­hraði fyrsta Fenris-hjóls­ins verði yfir 300 km/​klst. og hröðunin upp í 100 km/​klst. und­ir þrem­ur sek­únd­um, eða svipuð og hjá Ducati Panigale 1199.

Tóm­leg­ur markaður

Enn sem komið eru fáir keppi­naut­ar sem Fenris þarf að hafa áhyggj­ur af, og þeir fáu sem fram­leiða öfl­ug raf­magns­mótor­hjól í dag anna ekki eft­ir­spurn. „Stóru hefðbundnu mótor­hjólfram­leiðend­urn­ir eru ekki lík­leg­ir til að fara inn á þenn­an markað því tak­markað fram­boð á raf­hlöðum þýðir að ekki væri fjár­hags­lega hag­kvæmt fyr­ir t.d. Honda eða BMW að ætla að fjölda­fram­leiða raf­magns­hjól.“

„Eins og reið bý­fluga

Rétt eins og raf­magns­bíl­ar hafa ákveðna kosti og galla hafa raf­magns­mótor­hjól bæði sína styrk­leika og veik­leika. Bjarni seg­ir hjól­in frá Fenris hafa þann eig­in­leika að vera með krafta í köggl­um en henta samt vel til notk­un­ar í inn­an­bæj­ar­um­ferð. „Gall­inn við þau hraðskreiðu hjól sem við ber­um okk­ur sam­an við er að þau geta verið óþjál í þungri um­ferð og ekki skemmti­legt að vera stöðugt að berj­ast við kúpl­ing­una í dag­leg­um akstri. Þetta eru hjól sem njóta sín ekki að fullu fyrr en komið er út fyr­ir borg­ar­mörk­in. Raf­magns­mótor­hjólið er mun fjöl­hæf­ara, og jafn­gott til notk­un­ar í skrykkj­óttri borg­ar­um­ferð og úti á hraðbraut­un­um. Not­and­inn get­ur líka dempað niður aflið í raf­magns­mótorn­um til að laga hjólið að hæg­fara um­ferð, eða til að byggja upp hug­rekki áður en all­ir kraft­ar hjóls­ins eru leyst­ir úr læðingi.“

Áætlað er að staðlað drægi fyrstu mótor­hjól­anna frá Fenris verði 250 km en nær 190 km ef miðað er við dæmi­gerða notk­un. „Tveir hleðslu­mögu­leik­ar eru í boði; ann­ars veg­ar að nota inn­byggt hleðslu­tæki sem stungið er ísam­band heima eða ann­ars staðar þar sem kom­ast má í inn­stungu, eða að tengja mótor­hjólið við hraðhleðslu­stöð þar sem tek­ur um 45 mín­út­ur að full­hlaða hjólið.“

Bjarni seg­ir marga spyrja hvort raf­magns­hjól­in hljómi fal­lega, og hvort miss­ir sé af drun­un­um úr bens­ín­vél­inni. „Það heyr­ist tölu­vert í hjól­inu og nokkuð fal­leg­ur hvin­ur frá raf­magns­mótorn­um og keðjun­um sem hef­ur verið líkt við reiða bý­flugu. Við skilj­um vel þá sem hafa áhyggj­ur af hljóðleysi raf­magns­far­ar­tækja, og það heyr­ist lítið þegar hjólið stend­ur í stað. En þegar ekið er af stað heyr­ist vel í krafti raf­orkunn­ar, og þú heyr­ir í vél­inni hversu hratt þú ferð.“

Þessi teikning sýnir hvernig fyrstu mótorhjólin frá Fenris gætu litið ...
Þessi teikn­ing sýn­ir hvernig fyrstu mótor­hjól­in frá Fenris gætu litið út.
Stellið er fjölhæft svo að auðvelt er að útfæra ný ...
Stellið er fjöl­hæft svo að auðvelt er að út­færa ný hjól sem byggja á sama grunni. Að breyta t.d. stöðu sæt­is og stýr­is er lít­ill vandi. Teikn­ing­in sýn­ir tvær mögu­leg­ar út­færsl­ur.
Fram- og afturgaflarnir liggja út frá hringlaga mótornum sem situr ...
Fram- og aft­urgafl­arn­ir liggja út frá hring­laga mótorn­um sem sit­ur aft­ar­lega og neðarlega á hjól­inu.
Read 2808 times