Monday, 17 October 2016 20:22

Er Autopilot Tesla ekki prófaður með mótorhjól í huga?

tekið af billinn.is

Í bréfi til Elon Musk, forstjóra Tesla Motors spyrja norsku mótorhjólasamtökin NMCU þeirrar einföldu spurningar hvort að Autopilot sjálfstýribúnaður Tesla Model S sé prófaður með mótorhjól í huga. Ástæðan er slys sem varð á hraðbraut í Noregi í sumar þar sem að ekið var aftan á unga stúlku á mótorhjóli, en Tesla bíllinn var með Autopilot búnaðinn virkan. Stúlkan lifði slysið af en slasaðist alvarlega. NMCU segist ekki vera á móti búnaði í bílum sem geta komið í veg fyrir slys en benda réttilega á að enginn bíll sem er á markaði í dag geti kallast sjálfkeyrandi. Einnig benda samtökin á að í nýlegri rannsókn John F. Lenkeit sem kynnt var á mótorhjólaráðstefnunni í Köln í vikunni, að svokallaður ADAS búnaður (Advanced Driver Assistance Systems) er ekki nægilega prófaður með mótorhjól í huga. Norski markaðurinn er einn sá stærsti fyrir Tesla í Evrópu og þess vegna skiptir þetta talsverðu máli fyrir bílaframleiðandann. NMCU biður svo Tesla Motors í lok bréfsins “að hætta að markaðssetja sjálfvirkan skriðstilli bílsins sem Autopilot, sem fær eigendur Tesla bíla til að halda að þeir geti einfaldlega hallað sér aftur, farið að fikta í iPadinum sínum og hætt að hafa áhyggjur af akstrinum.” Svar hefur ekki borist frá Elon Musk enn sem komið er.

Read 1399 times