Friday, 16 October 2015 17:15

Látum drauminn rætast og kaupum draumahjólið eða hvað !!!!

Kannski ekki rétti tíminn fyrir svona smá sögu, en vorið kemur fljótt.

 

Hverjum hefur langað að kaupa sér mótorhjól og þá eitthvað sem við sáum í æsku eða hjól sem við sáum í mótorhjólablaði o.s.frv. Nú sjáum við rétta hjólið og rjúkum af stað og bara kaupum án þess að skoða almennilega eða kynna okkur ástand eða sögu draumsins.

 

Sögumanni hafði lengi langað í Hondu CB750 og þá helst árgerð 1972-74, hjólið yrði að vera í toppstandi og þá helst uppgert af fagmanni. Minn maður átti nýlega Hondu CBF600 og var hjólið lítið ekið. Helst hefði hann viljað skipta nýju græjunni uppí þá gömlu, en ekki var mikið um svoleiðis skipti þó minn maður leitaði víða.

 

En svo sér hann auglýsingu þar sem þessi líka gullfallega CB750 1973 Honda er auglýst til sölu og sögð nýuppgerð af “topp” fagmanni, allt sé nýtt í mótor, rafmagn ofl. ofl. Hjólið sé lýtalaust með öllu, meira að segja “orginal” hljóðkútar. Minn maður hringir og eftir smá viðræður þá segist eigandi 750 hjólsins vera tilbúin í skipti með “réttri” milligjöf, því þetta gamla hjól sé með því besta á markaðnum og uppgert af “besta” fagmanni í uppgerð eldri hjóla.

 

Minn maður er með hálfgerðan magaverk af spenningi þegar hann ekur rúma 700 km á sendibíl með nýju Honduna aftaní. Honum líður eins og þegar hann var lítill og jólin ætluðu aldrei að koma og ekki mátti opna pakka fyrr en eftir matinn.

Hann mætir á staðinn einn og það verður að segja frá því að kunnátta hans á gömlum hjólum var mjög takmörkuð, hann var vanur því að treysta orðum manna, einn svona af gamla skólanum: Orð skulu standa.

 

Hann getur varlað andað, hann er mættur á staðinn og þarna stendur gamli draumurinn og er bara miklu fallegri en hann mundi. Síðan hefst smá skoðun og þá sér hann að þó nokkuð af boltum sem og rær eru ryðgaðar og fallið á sumt. Hann spyr um þetta og honum sagt að þetta sé allt “orginal” og svona smáhlutir skipti engu, hjólið sé “nær” lýtalaust ! Jæja hjólið er gangsett þ.e.a.s. reynt að gangsetja það, það tekur “eðlilega” langan tíma að starta svona gömlum hjólum segir sérfræðingurinn !!!

 

Hjólið fer nú í gang með smá reyk sem sagt sé vegna innsogs, þó mínum manni mynti að sterk blanda þá svartur reykur, en bláleitur ef óþétt með ventlum eða lélegir stimpilhringir. Þetta hættir segir “special” -listinn þegar hjólið er orðið heitt. Það heyrist dálítið hátt í mótor segir sá spennti, þau hljóma öll svona, allt eðlilegt segir Hondu doctorinn (kalla hann ýmsum nöfnum til gamans). Eru þetta ný dekk, þau glansa svo mikið, já já segir úpermekkinn, bara bar á þau rétt efni !!

 

 

 

Má ég prufa segir kaupandinn væntanlegi og skelfur í hnjánum af spenningi. Það er nú ekki vani hjá mér að leyfa mönnum að prufa áður en keypt er, ég er með lítalausann feril segir: Veit allt um CB750 Hondumaðurinn. En ég get farið með þig smá hring sem farþega ef þú endilega vilt, en bætir við: Vil helst ekki selja mönnum sem treysta mér ekki. Á þessari stundu mætir annar maður á svæðið sem kaupandi og dásamar græjuna og segir líka marg oft, sko hann hafi oft keypt hjól af þessum manni og hann sé sko sá besti í uppgerð svona hjóla.

 

Nú er farið að skoða nýju Honduna og Prófessor Honda finnst hún frekar þreytt miðað við sagðan akstur og árgerð, ásett verð sé alltof hátt fyrir svona ílla farið hjól og nýi maðurinn á svæðinu tekur undir þessi orð. En málin þróast og CB750 guðinn segist helst vilja hætta við, en ef borguð sé rétt upphæð (nokkuð hærri en rætt var um) þá geti hann svo sem gert þetta ef borgað sé rétt upphæð og þá aðallega þar sem sá “Cb-blindi” hafi ekið svo langa leið !!

 

Hjólið er keypt og minn maður heldur varla vatni, orðin eigandi af æsku-draumnum, en áður en hann lagði í hann var honum sagt af Sá besti að aka mjög varlega í um 3000 km vegna þess að mótor væri nýuppgerður, ekki fara yfir 3500 snúninga og aldrei nota efsta gír !!

 

Það er vetur og ekki mikið hægt að prufa nema smá snúning í hverfinu hjá nýja eigandanum, en vorið kemur fljótt og nú er farin hringur, eftir að reynt hafi verið að koma hjólinu í gang, sem gekk ekki, því “nýi” rafgeymirinn reyndist ónýtur !! Enn reykir hjólið eins og gamall og góður Harley, einnig hefur hljóðið í mótor lítið lagast, heldur eykst meir og meir eftir því sem hjólið hitnar. Með því að gefa aðeins meira inn, ja snúa græjunni aðeins meira heldur en Allt best sagði, þá virðist þessi nýuppgerða súper CB750 Honda snuða á kúplingu !!

 

Draumóramaðurinn hefur reynt að hringja í þann “klára” í mörg skipti og segja frá hinum ýmsu ágöllum og þá hefur bara verið sagt að hann hafi sætt sig að öllu leyti við ástand hjólsins og það hafi verið vitni að þessum kaupum, sem og afsal þar sem sagt er með stórum stöfum að engin sé ábyrgðin og líka tekið fram að sérfræðingur ætti að skoða hjólið. Draumóramaðurinn hafi fallið frá þessu öllu og farið burt brosandi útað eyrum !!

 

Jæja nú er farið með draumahjólið til raunverulegs sérfræðings til skoðunar og þegar honum er sagt hver hafi gert upp hjólið þá var sagt, jæja enn eitt fórna-lambið, en vonum hið besta. Að lokinni skoðun þá kemur í ljós að eftirtalið er að:

Rafkerfi er komið að útskiptum-Gera þarf upp mótor og gírkassa-Skipta um kúplingu-Blöndungar eru frekar þreyttir-Pakkdósir í dempurum eru ónýtir-Hjólbarðar eru of gamlir-Drifkeðja er ónýt-Kaupa þyrfti nýja hljóðkúta ofl. ofl. ofl. Minn maður hugsar: Já ég lét drauminn verða að veruleika en þetta var martröð af verstu gerð ! Niðurstaðan annaðhvort að henda þessu eða láta fagmanninn gera græjuna upp.

 

 

 

 

Eftir enn fleiri símtöl til Súper-Prófessor-Doktor Honda og þar á meðal var lögfræðingur látin ræða málin við hann, þá var niðurstaðan sú að lítið eða ekkert væri að hafa til baka af þessum töpuðu peningum og hjólið yrði gert upp að nýju, það væri þó einn plús, hjólið væri vel málað bæði grind, tankur og hliðarhlífar, felgur og teinar væru í góðu standi, svo þetta var ekki allt ónýtt. Allavega dýr lærdómur hjá mínum manni og segir okkur öllum að láta fagmenn skoða notuð hjól fyrir okkur flest, allavega þá sem hafa meiri þekkingu, nema að við séum vel að okkur sjálf, en augu sjá betra en auga. Látum ekki orðagljáfur slá ryki í augu okkar, jafnvel þó draumurinn heiti Honda, þó það hafi ekkert með þessa sögu að gera, því eins og allir vita er HONDA besta (japanska) hjólið eða var það Súkka, kannski Kawi, Yammi, ja mann það ekki !!!

 

Óli bruni

Read 4043 times