Saturday, 09 May 2015 21:50

Fyrsta óhappið !!!!

Hver man ekki eftir því þegar hann/hún fór fyrst á hausinn á mótorhjóli sínu ?? Eflaust ekki margir sem muna það ekki, jú svo nokkrir „ofurökumenn“ sem segja: Aldrei neitt komið fyrir mig. En sagan segir okkur að það eru aðeins til tvenns konar mótorhjólaökumenn:

1. Þeir sem eru búnir að fara á hausinn og

2. Þeir sem eru á leiðinni á hausinn !! Hérna eru tvær sögur um fyrsta FALLIÐ.

Það er fallegt haustveður, síðla kvölds og engin umferð, myrkur er skollið, engin götuljós því ekið er á góðum sveitavegi, en samt ekki langt frá byggð. Maður nýtur augnabliksins og hefur ekki áhyggjur af einhverjum radaráhugamönnum sem afla tekna fyrir ríkissjóð !! Hraðinn er samt ekki svo mikill rétt rúmlega hundrað, ja gæti verið meiri ef hjólið gæfi manni þann möguleika, en svo er ekki, meiri hraði og ég væri farin að sjá þrjár til fjórar akreinar í stað tveggja því græjan væri farin að titra svo mikið við aukinn snúning mótors.

Nei bara að njóta þessara síðustu hjóladaga haustsins, það er stutt í veturinn og þar með lítið hjólað, en meira gramsað í skúrnum. Ég bara horfi á það sem ég sé í minnkandi birtu, það er virkilega fallegt þarna, fjöllin, haustliturinn á öllum gróðrinum, hljóð hjólsins sem er tveggja strokka „hippi“ glymur í eyrum og það er sko gaman að vera til. En allt í einu ég finn högg og síðan tekst ég á loft og það næsta sem ég man er að ég ligg í vegarkanti sem er sem betur fer hulin grasi.

Eins og flestir, ja allavega sumir, þá hugsa ég lítið um hvað gæti verið að mér, er ég slasaður ?!! Nei ég rýk á fætur og geng hröðum skrefum að hjólinu mínu sem hefur runnið nokkuð marga metra frá þeim stað sem lenti, það liggur þarna á hliðinni, dautt er á mótor en ljósin loga enn. Ég hugsa hvað hefur gerst, engin umferð, á hvern andskotann ók ég á eða hvað læstist fram eða afturdekk, hvað gerðist eiginlega. Fer að skoða hjólið, hvað það sé mikið skemmt, því það var sko búin að fara ótrúlegur tími í að reyna að gera þetta hjól að einhverju sem virkaði sem gott mótorhjól. Þarna er ég að bogra yfir hjólinu til að reyna lyfta því upp, það komið meira myrkur, þá allt í einu heyri ég þessi líka ískur í hjólbörðum, þegar bifreið er nauðhemlað, ég sný mér við og sé að bifreiðin stefnir nær beint á mig því hjólið endaði á miðjum vegi.

Ökumaður bifreiðarinnar nær að stöðva bifreið sína aðeins nokkra metra frá mér. Ég geng að farþegahlið og svo banka létt á hliðarrúðuna, það er kona undir stýri og henni virðist hafa brugðið meira en mér, henni gengur illa að opna rúðuna í öllu fátinu, en það gengur að lokum og hún hrópar upp: Guð minn góður þú ert stór slasaður !! Þá fer ég loksins að skoða sjálfan mig, ég sé að önnur skálmin á leðurbuxum mínum er rifin nokkuð mikið og það skín í bert holdið og jú það blæðir líka eitthvað !! Horfi á sjálfan mig í hliðarspegli bifreiðarinnar og sé að það vantar glerið á hjálminn minn og andlit mitt er svona að hluta hulið með mold og eitthvað af grasi líka. „Shit“ hugsa ég hjálmurinn ónýtur og Hein Gericke leðurdressið mitt líka æ æ æ. Næ að snúa mér að konugreyinu og segja nei það er í lagi með mig, en hugsa djöfull var ég heppinn að það voru en ljós á hjólinu annars hefði konugreyið eflaust ekið yfir mig !! Get ég aðstoðað segir hún, já gætir þú ekið mér hérna aðeins lengra svo ég komist í síma (engir gemsar komnir á þessum tíma), en ég þarf að koma hjólinu af veginum bæti ég við.  Ég hleyp að hjólinu og reisi það við og sé þá betur í ljósunum frá bifreiðinni að græjan er „haugtjónuð“. Enn hugsaði ég hvað eiginlega gerðist, var ég úti að aka (það gerist).

Ökumaður bifreiðarinnar beið rólegur og eflaust í miklu meira sjokki en ég. Hún ók mér á smá sveitabýli þarna rétt hjá, en á leiðinni þangað fór ég að athuga betur með ástand mitt, jú það var löng rispa á innanverðu lærinu, en eflaust ekkert sem þurfti að sauma, ég sá líka útundan mér að konan sem ók bifreiðinni var alltaf að gjóa augunum til mín, svo sem allt í lagi, hún var á besta aldri, eða hvort það voru áhyggjur af heilsufari mínu eða að henni litist vel á mig, það er spurningu sem aldrei verður svarað. Hún skildi svo við mig á hlaðinu á sveitabýlinu og lét mig hafa símanúmer sitt sem og nafn, hafði skrifað þetta á miða og sagði það væri eflaust gott vegna hugsanlegra vitna útaf tjóninu.

Ég fékk að hringja á bænum og hringdi fyrst í konuna mína og lét hana vita af þessu slysi, hún sagði: Jæja þetta kannski þroskar þig og þú hættir þessum leikaraskap !! Dream on !! Síðan hringdi ég á sendibíl og í lögregluna.

Sendibílinn var komin löngu á undan löggunni, hugsanlega ekki skrýtið þeir eru alltaf uppteknir við mikilvæg störf. Ég fór með sendibílstjóranum að hjólinu, við komum því inní sendibifreiðina og þá sá ég enn betur að blessað hjólið var bara  í stuttu máli í „drulluhaug“. Eftir að við vorum búnir að ganga frá hjólinu þá birtist löggan og fór að spyrja alls konar spurninga um: Veður, umferð, skyggni, hraða, yfirborð vegar, var blautt eða þurrt, já það borgar sig að vera nákvæmur !!

Hvað gerðist spurði eldri löggan ? Veit það ekki, ég bara skil það ekki svaraði ég, eina mínútuna var ég hjóla og næsta sem ég veit að ég ligg hérna í grasinu. Meðan ég var að spjalla við eldri lögguna og hún að kvarta yfir að ég hafi fært hjólið og hvað þá sett það inní sendibifreiðina, kemur sá yngri og segir spekingslega: Þú hefur ekið á hjólbarða á felgu, það er auðséð þar sem það eru för í malbikinu eftir felguna !! Einhver hefur misst varadekkið af jeppanum sínum grunar mig, eða eitthvað svipað og þú hefur lent á þessu og felgan sem og hjólbarðinn farið hérna útfyrir veg. Já gæti verið rétt, ég sá þetta aldrei, ég var með háa geislann á svo þetta hefur farið fram hjá mér, meðan ég hugsa ja það er betra að fylgjast með götunni heldur en fallegu umhverfi.

Gamli garmur heldur áfram að spyrja um ökuhraða og bætir við að þessir hjólamenn séu allir hættulegir umhverfi sínu !! Ég spyr gáfulega: Líka löggur á mótorhjólum ?? Man ekki hvað gamli garmur sagði en það var eitthvað mjög gáfulegt um mótorhjólamenn almennt. Hætti ég að hjóla eftir þetta, nei nei, Allavega í smá tíma horfði betur í kringum mig.

 

 

 

 

Já ég fór hausinn, en hafið ekki áhyggjur, þetta var ekki mikið tjón og ég slapp nær alveg ómeiddur. Þetta gerðist þannig að ég var að aka hjólinu mínu sem er svona „dual“ sport hjól frá BMW.

Ég ók á malarvegi og var á svona 70 km hraða þegar þetta gerðist, það var virkilega gott veður sól og hiti og umferð var nær engin, aðeins smá steinar og ryk á ferðalagi mínu. Ég ók í mjög fallegu sem og hrikalegu umhverfi, með stór fjöll á báðar hliðar og það rann fljót eitt á hægri hlið mína (er þetta skáldsaga !!)

Ég var að njóta þessa alls og hafði skömmu fyrir óhappið stöðvað til að taka nokkrar ljósmyndir. Ég ók uppá hæð eina og niður hinumegin, en þarna hafði auðsjáanlega verið nýlega heflað og líka nýt lag af möl, allt frekar laust í sér, ég hægði verulega á mér, en það dugði ekki því hjólið fór að sveiflast til og frá í lausri mölinni, ég reyndi mitt besta til að halda því uppréttu en við það að fara utar á veginn varð mölin enn lausari í sér, ég náði samt enn að halda því uppréttu og hélt beint áfram, en það gekk ekki því nú var komin beygja á veginum, ég reynd að beygja en þetta gat bara endað á einn veg ég fór útaf veginum, niður kantinn og svo á hausinn með stæl, ja svona féll á vinstri hlið og lenti undir hjólinu þeim megin sem pústið er og mér fór strax að hitna hressilega, þarna sem ég lá klemmdur á milli móður jarðar og hjólsins.

Hjólið var enn í gangi svo ég teygði mig á ádreparann og náði að drepa á mótor. Svo tók við smá barátta við að koma sér undan græjunni, sem hafðist nú að lokum. Stoltið var verulega sært því ég hafði aldrei farið á hausinn fyrr og búin að vera hjóla í um 10 ár.

Nú tók við annað stríð að rétta hjólið við og eins og oft gerist þá gleymdi ég öllu sem ég hafði lært um hvernig væri best að lyfta hjóli upp einn. Eftir nokkrar tilraunir í svitabaði, þá var baki snúið að hjólinu og því lyft að mestu með fótleggjum, já svona öfug hnébeygja.

Nú tók við skoðun á hjólinu og ég sá strax að stefnuljós að aftan var brotið, vélarhlíf skemmd (hefði átt að kaupa mér veltigrind) og rispur á tank og ýmsu öðru, jú ekki má gleyma brotnu kúpling handfangi, en allavega ekki það mikið brotið að það mátti vel kúpla hjólinu, já svo svona hefðbundið brotið plasthlífardót.

Ég virtist sjálfur hafa sloppið nokkuð vel, já sá smávegis á fatnaði mínum, sem og nýju endúro klossunum mínum, en það er nú bara gott, alltaf hálf hallærislegt að vera í nýjum svoleiðis skóm. En ég var aumur á nokkrum stöðum og ákvað að vera ekkert að skoða mínar skemmdir betur fyrr en ég kæmi heim. En hvað hafði farið úrskeiðis?? Ég svona vanur og kunni þetta allt er það ekki, nei staðreyndin er sú að um leið og við hættum að læra þá eigum við í raun að hætta að hjóla. Ég hafði bara farið of hratt miðað við aðstæður, tekið í bremsu á röngu „momenti“ verið of stífur og já vantaði bara æfingu í því að takast á við þessar aðstæður.

Þarna sat ég í dágóða stund og velti þessu öllu fyrir mér og grét smávegis innra með mér vegna skemmda á hjólinu, en það má nú allt lagfæra. En þetta var fyrsta Fallið mitt og það var allt mér að kenna og engum öðrum.

Ég hugsaði með mér hvað ég hafði heyrt margar sögur hjólamanna sem segja frá því hvað þeir hefðu verið rosalega klárir en svo væru til aðrir vitleysingar sem hefðu komið þeim á hausinn !!

T.d. ég var sko á 180 km hraða sá hest á veginum svo ég hemlaði og þegar ég sko sá að ég næði ekki að hemla þá sko lagði ég hjólið niður og rann á milli fram og afturfóta hestsins !!! En við vitum öll að það rétta er: Ég sá hestinn  og mér brá og svo ég læsti frambremsu og fór á hausinn með stæl !!

Stolið og stílfært frá hinum ýmsu stöðum

Óli bruni

Read 4616 times