Friday, 26 December 2014 14:03

Ég er bara langbestur !!!!!

Ágætu félagar, hér kemur grein frá Óla bruna sem ætti að vera skyldulesning núna um jólin (nægur tími yfir alla þessa frídaga)

 

Ég er bara langbestur !!!!!

Hver hefur ekki heyrt þessa setningu, eða eitthvað svipað frá eiganda mótorhjóls, sem segir okkur jafnvel óspurður að hann kunni allt og geti allt. En staðreyndin er önnur og því er góður mótorhjólaökumaður að læra allt sitt líf. Förum aðeins yfir nokkur atriði sem gætu hjálpað okkur að verða betri ökumenn og þá um leið öruggari í umferðinni bæði fyrir okkur sem og aðra. Þeir sem eru að byrja að aka mótorhjóli spyrja oft sér vanari: Hvernig mótorhjól ætti ég að kaupa mér ? En hvað með þá sem hafa átt hjól í nokkurn tíma, þeir spyrja sjaldan því þeir eru orðnir svo vanir ekki rétt !!

En hvað er vanur ökumaður ? Sá sem búin að vera með mótorhjólapróf lengi ? Nei það er sá sem hefur notað hjól nokkuð lengi og prufað margar týpur og tegundir hjóla við hinar ýmsu aðstæður. Svo er það spurningin um hvaða hjól er heppilegt fyrir vanan mann? Snýst um svo marga þætti að við förum ekki yfir það hér í þessum skrifum. En hér eru nokkur atriði sem gætu gert okkur að betri ökumönnum, sama hvaða hjóli við erum að aka:

Vanir menn eru búnir að temja sér vissa ögun þegar þeir aka mótorhjóli, þessi agi hefur áunnist með ekki bara árunum heldur líka meira með þeim km sem viðkomandi hefur ekið. Þeir læra af hverjum eknum km, hvort sem ekið er á malbiki, möl, í þurru, í bleytu, mikilli sól, þoku o.s.frv. Vanir menn eru ekki að æsa sig yfir smámunum þegar þeir aka mótorhjóli, þeir eru einbeittir og vita vel af umhverfi sínu. Þeir getað virkað frekar kærulausir þegar þeir eru ekki að hjóla, en verða „fagmenn“ þegar þeir aka mótorhjóli. Jafnvel frægustu hjólamenn heimsins getað virkað léttir og kátir (og eru það) en við akstur mótorhjóls eru þeir einbeittir fagmenn, því þeir vita að þeir sitja á ökutæki sem er aðeins á tveimur hjólum og hestöfl eru oft meira en eitt hestafl á hvert kíló. Að missa einbeitingu á kannski 200 km hraða (sko ég er að tala um akstur á braut ekki Reykjanesbrautinni !!) er ekki heppilegt , en hraðinn þarf ekki að vera svo mikill, höldum alltaf einbeitingu okkar,  sama hvað hraða við ökum á og við allar aðstæður.

Fljótur að hugsa og ert búin að skoða umhverfi þitt þ.e.a.s. það sem liggur framundan. Þú ert alltaf með augun vel opin og fylgist vel með t.d. næstu gatnamótum, umferðinni í sömu átt og þeirri sem kemur á móti. Þú ert orðin svo vanur að móttaka ótal upplýsingar frá umhverfi þínu að það er orðið þér eðlilegt, óvanur ökumaður horfir yfirleitt mjög stutt fram á við, sá óvani lætur jafnvel leiða sig í ógöngur af vönum ökumanni. Með því að fylgjast alltaf vel með umhverfi sínu og öllu því sem fram fer, þá er miklu minni hætta á því að lenda í óhappi. Það er ekki hægt að treysta neinu í umferðinni sem gefnum hlut: Aldrei.

 

 

 

Að skynja umhverfi sitt og umferðina, sem og að þekkja ökutæki sitt og eiginleika þess, er eitthvað sem lærist bara á einn veg: Við akstur hjólsins. Hvernig bregst ég við ef eitthvað fellur af vörubíl fyrir framan mig eða rolla hleypur í veg fyrir mig og þá er miðað við að þú eigir möguleika að bregðast við. Þú skoðar get ég ekið fram hjá þessu, get ég hemlað án þess að læsa t.d. framdekki, næ ég jafnvel að skipta niður um gír eða gíra. Vanur maður getur ákveðið þetta allt á örskömmum tíma, sá óvani rífur í frambremsu og endar oftast í götunni, nema að hugsanlega ABS kerfi hjólsins bjargi einhverju.

Þolinmæði er eitthvað sem við öll ættum að temja okkur, við erum nær sjaldnast það mikið að flýta okkur og í borgarumferðinni er það hvort eð er nær útilokað ekki rétt ? Svig er ágætt á skíðum, en virkar frekar illa í umferðinni. Vanir menn geta sloppið ja allavega stundum, en svo kemur að því að ökumaður járnbúrs á fjórum hjólum ákveður að skipta um akrein án stefnuljóss, er að tala í gemsann og að borða pylsu í leiðinni, þá er eins gott að hafa verið þolinmóður og vel vakandi fyrir umhverfi sínu. Með þolinmæði þá hefur þú lengri tíma til að bregðast við.

Að vita af því að maður er bara mannlega vera, við getum gert mistök eins og aðrir, engin okkar er eilífur. Lærum að þekkja takmörk okkar sem og hjólsins sem við ökum á. Látum ekki stoltið leiða okkur í ógöngur, það eru fullt af hjólamönnum sem eru betri en við, en með því að kyngja stoltinu, getum við orðið jafn góðir með tímanum. Það er hægt að kyngja særðu stolti en ekki særðum skrokk.

Vanur maður bregst við ósjálfrátt við óvæntum aðstæðum. Að verða vanur hjólaökumaður gerist ekki við að fá prófið eða kaup á hjóli, nei það gerist aðeins með tímanum og við það að ná þroska. Þetta getur tekið okkur mislangan tíma og já jafnvel nokkur óhöpp, en meðan við lærum þá verðum við betri. Um leið og við teljum okkur vera búin að læra allt þá ættum við eflaust að hætta að hjóla.

Einhver staðar er sagt að það sé mikill munur á því að t.d. að fljúga í þúsund klukkustundir eða að fljúga eina klukkustund í þúsund skipti. Þ.e.a.s. með því að gera alltaf sama hlutinn við nákvæmlega sömu aðstæður þá hugsanlega lærir þú ekki mikið. Að taka alltaf sama rúntinn, alltaf í góðu veðri og lítilli umferð, verður þú góður ökumaður, nei eflaust ekki. Því skiptir miklu máli að aka við nær allar aðstæður og láta reyna vel á sig, þó án þess að setja sig í hættu eða aðra. Beinir vegir og lítið af beygjum, gaman stundum en það er í raun ekkert að gerast. Lærum af því að aka við fjölbreytar aðstæður, mikið af beygjum, þröngar, aflíðandi, í þurru, í bleytu, með öðrum, gleymum ekki mölinni. Sumir segja að bestu ökumennirnir á malbiki séu þeir sem ekið hafi lengi á „drullumöllurum“, þeim bregður ekki þó hjólið renni til í beygjum, þeir hafa í raun tekist á við flestar aðstæður.

 

 

Eftir langt hlé, ja svona eins og við hér mörlandinn tökum okkur oftast yfir veturinn, þá  er algjör nauðsyn að æfa sig, því æfingin skapar meistarann segir einhversstaðar. Gott er að fara á bílastæði þar sem nóg pláss er og æfa sig í að bremsa, eða taka svona ímyndaða keilubraut, jafnvel gera þetta með stæl og láta einhvern koma með keilur eða eitthvað svipað. Gera það sem mörg okkur gerðu í upphafi við æfingar fyrir mótorhjólaprófið. Sumir fara jafnvel í endurhæfingu hjá ökukennara. Við erum líka hugsanlega að eignast braut sem hægt er að æfa sig á ? Það skiptir ekki máli hvað þú hefur haft próf lengi ! Nei það er sá tími sem þú hefur hjólað og þá við allar aðstæður.

Svo er líka gott að lesa sig til um allt sem varðar akstur mótorhjóla, mikið hægt að læra af því. Hvernig allt virkar og hvað gerist við hemlun, þegar maður hallar hjólinu í beygjum, hvert á að horfa þegar ökumaður stefnir að beygju, á að fara hratt inní beygju eða hægt, notkun fram og afturbremsu saman, það er hægt að telja upp margt. Hjólið sjálft, loftþrýstingur í hjólbörðum, smyrja keðju o.fl. o.fl. Þekkjum okkur sjálf, hjólið okkar sem og kynnumst fjölbreyttum aðstæðum.

Stolið og stílfært úr eigin heila sem og annarsstaðar

Óli bruni enn að læra

Read 3958 times