Saturday, 22 November 2014 12:27

Öryggi öryggi öryggi = framtíðin

Eftir að hafa lesið um öryggisbúnað, þ.e.a.s. hlífðarbúnað til notkunar á mótorhjólum í mjög mörg ár þá datt mér í hug að fara lesa mig til aftur og ekki veitir af. Ég hef alltaf lesið mig til um þann búnað sem ég hef ætlað að fjárfesta í, sama hvort það séu klossar, hanskar, buxur, jakkar og svo auðvitað hjálma. Nú nýverið las ég nokkuð mikið um hjálma og það var gaman en samt svolítið sérkennilegt hvað það voru margar misvísandi greinar á netinu. Fyrir ekki svo löngu þá skrifaði einn blaðamaður í USA um hjálma og annað, þessi blaðamaður var búin að vera hjólamaður í mjög mörg ár, hafði einnig skrifað hinar ýmsu greinar um mótorhjól sem og öryggisbúnað fyrir hjólamenn.

Þessi blaðamaður var ósáttur við öryggisstaðla í USA, en t.d. eru hjálmar frá USA DOT merktir, þ.e.a.s. það er þeirra vottun. En framleiðendur eins og t.d. Snell vildu í raun nota sína eigin merkingar og vottanir og fengu þær viðurkenndar ef ég hef skilið eina grein sem ég las, en áður en lengra er haldið þá eru öryggisstaðlar miklu kröfuhærri í Evrópu varðandi hjálma. Blaðamaður þessi gerði prufur á nokkrum tegundum hjálma sem eru vinsælir í USA og með DOT merkingum, niðurstöður þessara öryggisprófa voru svo sláandi að hann hafði samband við ritstjóra þekkts mótorhjólablaðs, en þegar þetta var skrifað var þessi blaða-maður sjálfstætt starfandi, ritstjóri þessa blaðs tjáði honum að hann hefði lesið greinina og borið hana undir þrjá framleiðendur hjálma sem voru prufaðir. Hver var niðurstaðan ? Jú þeir hótuðu því að segja upp öllum auglýsingasamningum ef greinin yrði birt. Þessi blaðamaður sem vildi segja sannleikann varð í raun atvinnulaus eftir þessi skrif sín. Blaðamaður þessi heitir Dexter Ford og þið getið örugglega fundið greinar eftir hann.

Sumir blaðamenn mótorhjólablaða fullyrða að ódýr hjálmur (lokaður) geti verið alveg jafn öruggur og sá dýri, sel það ekki dýrara en ég „las“ það. En skrifin sem hér koma á eftir fjalla um nær allan öryggisbúnað sem við ættum að nota við akstur mótorhjóla. Hvaða kröfur gerum við til búnaðar á okkur sjálf ? Hann á að halda okkur þurrum í rigningu, sé ekki of heitur í hita, heitum þegar kalt er og númer eitt að við slösumst ekki illa við óhapp. Hvað á ég að gera þegar rignir ? Fara í regngalla yfir þann fatnað sem tryggir þig sem best í óhappi, nota vatnshelda hanska, sem og skó, það að vera blautur og kaldur gerir þig örugglega að verri ökumanni. Nokkur atriði sem við verðum að hafa í huga við kaup á þessum öryggisbúnaði: Hann er dýr, endist misvel, enn er samt alveg jafn mikilvægur og kaup á hjólinu sjálfu.

Reiknaðu alltaf með að það taki nokkuð vel í „budduna“ að kaupa þann búnað sem telst jafn sjálfsagður og að anda ! Við erum að tala um hjálm, jakka, buxur (samanrennt) eða heilan galla, hanska, klossa og brynju, svo regngalla. Nema menn fari í nælon „snjósleða“ galla sem uppfyllir margt í einum pakka. En eins og leðurfatnaður, þá verður virkilega að skoða eiginleika Goretex nælonfatnaðar, vegna öryggisstaðla, gallinn getur verið hlýr og vatnsheldur en gerir lítið fyrir þig í óhappi.

Þeir sem aka um án alls öryggis og telja sig virkilega flotta, kunni þetta allt og þurfi ekki að vera með fiskabúr á hausnum, eru að öllu jöfnu frábærir „líffæragjafar“ segja læknar a.m.k. Það að hjóla án alls öryggisbúnaðar, ja við nær öllum þekkjum einhvern sem hefur reynt sjálfan sig sem tilraunadýr. Er stíll og útlit mikilvægari en heilsa eða lífið ? spurning sem örugglega er svarað bæði já og nei, eða bara svona smáatriði eins og að getað hjólað aftur. Þetta er farið að hljóma eins og einhver móðursjúk kerling sé að skrifa þetta, en þær eru oft ágætar !! Við hjólaeigendur veljum fatnað og hjálma mjög oft eftir því hvernig hjól við eigum og notum. Harley= pottlok eða opin hjálmur, skálmar og jafnvel bara leðurvesti yfir skyrtu eða bol, Racer= túpugalli, lokaður hjálmur, góðir hanskar og klossar, hvor er betur varin í óhappi spurning !! En rannsóknir sýna að mannslíkaminn er ekki byggður fyrir meiri hraða en ca. 35-40 km á klst., en jafnvel á þeim hraða getur þú slasað þig eða jafnvel dáið. Meiri hraði þá er nær allt inní okkar líkama í hættu. Tala nú ekki um stærsta lífærið: skinnið það virðist þola illa að strjúkast við malbik, rannsóknir sína að þú missir ca. 1mm af yfirborði þess hluta líkamans sem snertir malbik á 50 km hraða og það bætast við  1 mm við hvern rúman kílómetra á klst, sem reiknast með að þú missir svona í þykkt 4 cm af holdi við að falla í götuna án hlífa á 90 km hraða, við vitum öll að sums staðar er þetta hold ekki til staðar og þá tekur hvað við ? beinin !!

Maður er nú bara hættur að hjóla við að lesa þessar hryllingssögur !! Nú er margir farnir að hugsa hvað ég hef aldrei orðið fyrir óhappi !! Það þarf ekki að svara þessu allir kunna svarið. Sumir miða sig við þessar ofurhetjur sem keppa á mótorhjólum nefni t.d. Rossi eða núverandi heimsmeistari í GP hann Marquez, sem féll nýverðið á rúmlega 200 mílna hraða og stóð bara upp og dustaði af sér rykið. Af hverju ? Jú var hann ekki í skálmum með opin hjálm og grifllur fyrir hanska ekki rétt, nei allir vita hvernig hann er klæddur í kappakstri. En það er nær öruggt að engin okkar er með brot af þeirri kunnáttu sem ofangreindir menn hafa og þrátt fyrir að þeir séu að hjóla við bestu aðstæður, þ.e.a.s. engin umferð á móti, engir ljósastaurar eða annað til að lenda á, þá klæða þeir sig í besta hlífðarfatnað sem völ er á. Þá koma menn og segja: Ja sko ég er búin að vera hjóla í tugi ára og ég sko passa mig og fer varlega, já þú gerir það en hinir í umferðinni, sem og hver er raunveruleg geta þín ef þú þarft t.d. að nauðhemla í bleytu, eða jafnvel bara þurru.

Ekki batnar þetta vill einhver kaupa hjólið mitt !! Blaðamaðurinn sem á hluta af þessari sögu er búin að vera hjóla í mjög mörg ár, er talin góður ökumaður, en hvað hann fer samt á hausinn öðru hvoru og hefur lært af biturri reynslu. T.d. síðast þegar hann fór á hausinn þá var hann á c.a 50 km hraða og var í fullum skrúða nema ekki í réttum buxum heldur venjulegum gallabuxum. Hann fór í götuna og tók stykki úr annarri rasskinn, braut upp gamalt brot á hendi, rifbeinbraut sig og það kom 4 cm gat á hnéð þ.e. á dýpt og svo eitthvað fleira, má ekki gleyma verknum af sjúkrahúsreikningum sem var rúmlega 40.000 dollarar, hann nefnir að t.d. kostar allur hlífðarbúnaður Marques 6.500 dollara og hann var á rúmlega 200 mílum.

Hjálmar er sá hlífðarbúnaður sem skiptir mestu máli. Hvernig eru hjálmar byggðir, jú það er límt saman eitthvað frauðplast sem er síðan fest inní plastkúlu með gati á fyrir augun. Þykktin á frauðplastinu skiptir verulegu máli og þá líka hvernig hjálmurinn er smíðaður, er kúpan samansett eða steypt í heilu lagi, þess má geta að samansettir hjálmar eru ekki leyfðir í keppnum í mjög mörgum löndum. Glerið fyrir augun er líka búið til úr mjög sterku efni, sumir framleiðendur hjálma prufa þetta gler með því að skjóta í raun stálkúlum í glerið, þessar kúlur ná allt að 150 km hraða á klst. Þessi blaðamaður fullyrðir að verð segi alls ekki allt um gæði og öryggi hjálma. Rannsóknir sýni að ódýrir hjálmar geti verið nær alveg jafn góðir og öryggir og mjög dýrir (aðrar rannsóknir sýna líka andstæðuna). Þessi blaðamaður leggur meiri áherslu á hvernig hjálmurinn passar þér og þrengi hvergi að, huga t.d. að móðumyndun og festingum. Menn eru oft að borga fyrir þekkt nafn eða jafnvel bara flotta málningu. Hvernig á hjálmur að passa ? Settu hann á höfuðið og taktu með báðum höndum um hjálminn, reyndu að snúa honum og ef höfuðið hreyfist með, jafnvel þó þú reynir að halda höfðinu beinu, þá passar hann, þeir eiga að vera þröngir en ekki meiða þig. Láttu ekki góða sölumenn plata þig, lestu þig til og láttu hjálminn passa. Munum öryggismerkingar þ.e.a.s. miðum við Evrópu staðal ECE 22.05 en ekki DOT eða Snell M2010 (lesa má betur á netinu um hvernig hjálmar eru prófaðir). Margir framleiðendur hjálma segja líftíma þeirra vera um fimm ár, en þá er miðað við nokkuð mikið sólarljós og hita við notkun, en um leið og hjálmurinn er orðin laus á höfði þér, eða hefur fallið í götuna, þá skulum við kaupa nýjan.

Hanskar eru sagðir mjög mikilvægur öryggisbúnaður, af hverju jú liggur í augum uppi að við berum alltaf fyrir okkur hendur ef við föllum, hvort sem við föllum niður við gang eða af mótorhjóli. Það þarf ekki mikinn hraða til að stórskaða á okkur hendurnar, svo eru í þeim líka fullt af allskonar beinum. Hugum vel að því hvernig hanska við kaupum, ekki bara að þeir veiti okkar vörn við kulda og bleytu, nei þeir verða líka að getað tekið við höggum og nuddi.

Mótorhjólajakkar, buxur og heilir gallar, þessi búnaður er hugsaður til að verja stórt svæði, hugum vel að því hvaða leður við erum að kaupa, eru jakkar og buxur með mörg földum saum, er saumurinn teygjanlegur, þolir hann vel bleytu. Nælonfatnaður t.d. Cordura 500D gefur þér ekkert svipaða vörn og 1000D. Jakkar og buxur ættu alltaf að vera renndir saman með góðum rennilás. Sama á við kaup á Gore-Tex fatnaði. Munum alltaf eftir að allur þessi búnaður á að vera með sérstökum varnarpúðum á viðeigandi stöðum. Kaupum ekki of lítil föt, en samt ekki of stór, þannig að þau hreinlega renni af þér við það að falla í götuna. Allur þessi varnabúnaður ætti að vera CE merktur og er oft skipt í tvo flokka CE1 og CE2. Gleymum heldur ekki brynjukaupum og heilar brynjur ætti að öllu jöfnu ekki að vera renndar saman um miðjan brjóskassan, heldur til hliðar eða á ská. Heilir gallar veita bestu vörnina. Síðan er til góður alhliða undirfatnaður, sem í mörgum tilfellum er líka með höggvörn. Gleymum heldur ekki að það sé hægt að lofta jakkann og buxur líka, það er stundum heitt, það ætti aldrei að renna niður aðal rennilásnum til að hleypa inn kaldara lofti.

 

 

Það eru líka til gallabuxur sem eru seldar sem öruggur fatnaður til aksturs mótorhjóla, rannsóknir sýna að svo er ekki, þær veita vörn en ekkert svipað og alvöru leðurbuxur eða nælonfatnaður. En þessar mótorhjólagallabuxur veita þó margfalt betri vörn en venjulegar gallabuxur og henta sæmilega við réttar aðstæður þ.e. lítinn hraða.

Klossar og mótorhjólaskór, við sjáum hjólaeigendur í strigaskóm, já meira segja þekki ég einn sem vill nota inniskó !! Kaupum ekki einhverja „kúreka“ klossa og teljum okkur trú um að þeir séu góðir á mótorhjól ! Vöndum vel valið, mótorhjólaskór þurfa að uppfylla nokkuð margt, eiga að verja okkur og þá sérstaklega ökklann, eiga að vera þægilegir, það sé gott að skipta um gír, þola rigningu og það sé líka hægt að ganga í þeim.

En hvað með ´“lúkkið“ maður minn, ég maður lifandi læt ekki sjá mig í einhverjum snjósleða- galla og með fiskabúr á hausnum !!, nei það er leðrið og opin hjálmur, ég vill „lúkka“ rétt !! Fyrr myndi ég mæta dauður en í gulu vesti með sjálflýsandi röndum !! Regngalli er bara fyrir kerlingar, allavega fer ég úr honum þótt það rigni ef ég ætla að láta sjá mig innan um aðra „alvöru“ hjólamenn !! Þú ert í kúkagalla, ert eins og krypplingur eða líkari tannkremstúbu. Gaman að öllum þessum orðum og setningum en gleymum því aldrei að þú ert að hjóla fyrir þig og engan annan.

Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni

 

Read 8059 times