Tuesday, 22 July 2014 20:22

Smá saga um kókdós og mótorhjólamann

Þeir sem drekka kóka kóla brosa allan daginn ??!!!

Smá saga um kók dós, en allar auglýsingar sýna að þeir sem drekka kók séu alltaf ánægðir með lífið, tala nú ekki um þá sem drekka sykurlaust kók þeir eru nú bara ofuránægðir og alltaf tágrannir !!, nema jólasveinninn í kók auglýsingum. En snúum okkur að sögunni um kókdósina: Einu sinni var alvöru mótorhjólamaður (á japönsku hjóli)  á ferðlagi um okkar ástkæra land og hafði ekið í gegnum nokkur bæjarfélög á austurlandi, veðrið var gott, sól hátt á lofti, allt svo hreint og fallegt, jæja þið sjáið þetta fyrir ykkur þ.e.  þeir sem muna eftir sólinni og góða veðrinu. En eins og gengur og gerist þá henda sumir umbúðum utan af drykkjarföngum sínum þegar búið er að tæma þau, hvar sem er og hvenær sem er. Í ónefndu bæjarfélagi þarna fyrir austan sér minn maður kókdós á miðjum vegi, hún stendur upprétt, alveg óskemmd, er svo fallega rauð og freistandi. Minn maður hugsar með sér sko: ég er sko alvöru mótorhjólamaður sem kann sko að stýra þessari græju minni af mikilli nákvæmni, ég ætla sko að fletja út þessa kókdós með bæði fram og afturdekki !! Og viti menn hann hittir beint á blessaða kókdósina, heyrir þegar hún kremst saman og hvað gerist næst, jú hann liggur í götunni, með stoltið sært, sem og hjólið, ekki bætir úr skák að það eru nokkrir áhorfendur þarna sem standa bara og hlæja af þessum mótorhjólasnilling. En eins og allir vita þá gera allir mótorhjólamenn (ekki konur þær athuga annað) það sama, það er að reisa hjólið við og skoða skemmdir !! Minn maður gerir það og athugar líka hvað hafi nú gerst, jú fyrir utan rispaðan og dældaðan bensíntank, skemmt frambretti og brotið handbremsu handfang, brotið stefnuljós og annað smávegis (sniff sniff sniff), þá hafði „helvítis“ „andskotans“ „djöfulsins“ kókdósin fest við framdekkið, haldið sem leið lá, undir frambrettið og fest sig þar svo hressilega að framdekk læsist og þetta virkaði eins og að rífa hressilega í frambremsuna á þurru malbiki. Eins og áður er fram komið í þessari sögu þá voru þarna nokkrir áhorfendur og tveir þeirra eldri maður og kona, spurðu þennan súper vana hjólamann hvort hann hefði nú nokkuð meiðst og hvort ekki mætti aðstoða hann eitthvað. Hjólamaðurinn mikli þáði aðstoðina og hjólinu var ýtt að húsi þeirra hjóna, því það vildi ekki í gang. Mínum manni var boðið inn og þá kom í ljós að smá skemmdir höfðu einnig orðið á honum (svona smá rispur og mar) sem og fatnaði hans. Sú gamla hreinsaði sár snillingsins og að því loknu bauð hún honum uppá smá hressingu og hvað var borið á borð jú að sjálfsögðu KÓKA KÓLA í rauðri kókdós, segið svo ekki að kóksullarar skemmti sér ekki meira en aðrir !!!!

Óli bruni   (drekk nú bara sjálfur Pepsi Max !!!)

Read 3793 times