Thursday, 06 March 2014 17:55

#18 frá Óla bruna - Langbesta hjólið - Súkka

 

 

 

 

Hvaða mótorhjól er bara lang best: SUZUKI:

 

Stór orð og erfitt að sanna eða afsanna en svona er þetta bara allir segja að sitt sé best og þá aðallega meðan viðkomandi eigandi á gripinn. Hef meira segja heyrt suma segja að Honda sé besta hjólið, allavega fjallað langt mest um það á heimasíðu einni, já svo ganga sumir svo langt að segja að Harley eigi enga keppinauta, svo það hlítur að vera mjög erfitt fyrir suma að eiga bæði Hondu og Harley: Valkvíði á háu stigi.

 

En snúum okkur að þessu alvöruhjól sem sameinar nær alla kosti sem mótorhjól þarf að bera, útlit, afl, fjöðrun, þægindi og hægt að nota sem sport hjól eða hrein- ræktaða ferðagræju, allt í einu hjóli: SUZUKI GSX 1250 FA, en er þetta ekki bara Bandit með auka plasti ? Jú í raun en með betri hlífum og ABS bremsum, kemur einnig með miðjustandara. Því að eiga mörg hjól (uss hvaða vitleysingur skrifar þetta) þegar þú getur átt í einni græju allt sem þú þarft til að njóta þess að hjóla. Spara allar þessar tryggingar og svo geymsluplássið sem þarf til að eiga mörg hjól, já og að fá húsbóndann á heimilinu til að samþykkja allt ruglið!!

 

Framfjöðrun er sögð góð og er stillanleg og gefur þér um 5.1” í fjöðrun, afturfjöðrun er einn olíufylltur dempari með gorm og stillanlegur. Fram og afturfelgur eru þriggja bita 17” úr áli , hjólbarðar eru að framan 120/70ZR en að afan eru 180/55ZR. Frambremsur eru góðar og það eru tveir fljótandi diskar sem sjá um að hægja á græjunni, en hefðbundin einn diskur að aftan svo er þetta allt tengt ABS. Lengd milli hjóla eru 58.5” en heildarlengd hjólsins eru 83.9”, þyngd er sögð 537 pund, sætishæð er 31.7” í lægstu stöðu en má hækka í 32.5”

 

Hjólið er sagt höndla vel og eins og áður sagt notagildið er mikið, áseta er góð, nema kannski fyrir þá sem eru yfir 190cm. Stýrið er í góðri hæð og liggur vel fyrir ökumanni. Þægindi eru mikil og þá í hvaða aðstæðum sem er, eins gott innanbæjar sem utan. Svo það er sama hvað týpa þú ert: Sá sem er á afturdekkinu (þekki einn sem á bláa Súkku sem sparar framdekkið reglulega), eða bara sá rólegi sem svona rúllar þetta rólega á sínum hraða.

 

Tog mótors er mjög gott ja eins og gefur að skilja með 1255cc við hendina, en mótor er fjögurra strokka línumótor, með tveimur yfirliggjandi knastásum, 16 ventla og er vatnskældur. Hestöfl eru sögð 98.9 við 8800 snúninga og eins og áður sagt tog er 77.4  við 5.900 snúninga. Já ég veit að það er hægt að finna hærri tölur um afl og tog, en blaðamenn skrifa það sem þeim er borgað fyrir er það ekki. Gírkassi er sex gíra og með þessu ná menn að fara í 100 km hraða á 3. sekúndum.

 

Mælaborð er svona nokkuð hefðbundið með alls konar ljósum sem gefa til kynna hvaða gír þú ert í, hleðsla, hlutlaus, háuljósin og annað sem hentar eldri borgurum og þessum sem muna ekki eftir í hvaða gír þeir eru o.s.frv.  Af hverju að fjalla um sama hjólið aftur þ.e.a.s. Bandit í sparifötunum, jú maður reynir alltaf að gera mönnum til hæfis og þá sérstaklega þegar fyrir liggur aðalfundur í einu mótorhjólafélagi í Hafnarfirði (þessi grein birtist eflaust eftir þennan fund) þar sem kjósa á formann til æfiloka og heyrst hefur að þetta verði rússnesk kosning svona svipað og hjá Pútín. Kannski væri sniðugt að breyta um nafn á stöðu þess er gegnir formennsku: Formaður í 4. ár, síðan yfirformaður í 4. ár, svo aftur formaður o.s.frv. þá eru menn aldrei að gegna sömu stöðunni lengi !! En nú er maður komin útí hálfgerða pólitík og svoleiðis skrif ættu aldrei að sjást á heimasíðum mótorhjólaklúbba !! En sama hjólið aftur, jú eru þessi mótorhjól ekki öll eins, með tveimur hjólbörðum og einum mótor tengdum við gírkassa, það er bara miklu miklu meira gaman á SúZúKi sagði góður maður. En takið eftir þetta er skrifað á svartan grunn svo minna beri á að þetta sé svipuð grein sem var skrifuð um Bandit hérna fyrir ekki svo löngu síðan.

 

Stolið og stílfært af netinu:

 

Óli bruni.

 

 

 

.

Read 2942 times