Tuesday, 11 February 2014 20:52

#15 frá Óla bruna - Giacomo Agostini

Giacomo Agostini „næst“ frægasti mótorhjólaökumaður allra tíma.

Hverjum myndi hugnast að fullyrða eitthvað svona ?! Jú auðvitað ég, því alveg sama hvað titlar segja þ.e.a.s. fjöldi titla þá var bara einfaldlega Mike „The bike“ Hailwood betri. Af hverju var Hailwood betri ? Jú ef menn og konur skoða á hvaða hjólum þeir voru að keppa þ.e.a.s. hvaða framleiðendur voru með þá á samning, þá sést fljótt að það var nokkuð mikill munur á því. En þetta er bara álit mitt og eflaust örfárra annarra !! Agostini var fæddur á Ítalíu 16.06.1942 í Brescia, Lombardi, er reyndar alltaf kallaður Ago. Hann Ago náði sér í örfáa ! ökumannstitla t.d. 122 í Grand Prix, 15 heimsmeistaratitla, af öllum þessum vinningum vann hann 68 sinnum á 500cc hjólum auk 8 titla, restin var á 350cc hjólum. Hvernig hófst þetta allt saman jú í upphafi í svona brekkukeppnum og almennu drullumalli síðan á götuhjólum. Pabbi hans var nú ekki ánægður með þennan áhuga unga mannsins á mótorhjólum, „skrýtið“ og reyndi allt til að Ago hætti þessu bulli. En svo sá gamli maðurinn að drengurinn var snillingur á hjólum og ekki leið á löngu þangað til að Ago árið 1963 varð Ítalíumeistari á 175cc Morini hjóli. En Ago var með heppnina með sér þegar einn af ökumönnum Morini (Taquinio Provini) hætti og fór yfir til Benelli og því komst Ago að. Það var Count Alfonso Morini sem réð ungan manninn til að keppa fyrir sig. Árið 1964 vann Ago Ítalska 350cc titilinn og náði fjórða sætinu á Monza brautinni í Grand Prix keppni. Ævintýrið var hafið. Það var síðan Count Domenico Agusta sem nældi í ungan manninn til að aka MV Agusta hjólum og það var engin aukvisi sem var með í hópnum því það var sjálfur Mike Hailwood. Ago barðist síðan við Jim Redman sem ók á Hondu um heimsmeistaratitil 350cc fyrir árið 1965 og Ago var með þetta í hendi sér, en MV Agusta hjólið bilaði í síðustu keppni ársins á Suzuka brautinni í Japan og Redman varð heimsmeistari.  Eftir að keppnum ársins 1965 lauk þá hætti Hailwood og fór yfir til Honda (skrýtið!!), því Mike samdi ekki við Count Agusta. Þá varð Ago ökumaður nr. 1 hjá Agusta og varð sjö ár í röð heimsmeistari í 500cc flokknum á MV Agusta, sem og einnig sjö sinnum í 350cc flokknum. Ago nældi sér einnig í 10 Isle of Man TT titla. Ago og Hailwood háðu oft harða keppni og þeir börðust um 1967 heimsmeistaratitilinn og Ago náði þeim titli í síðustu Grand Prix keppni ársins. Ago tók stóra ákvörðun á árinu 1972 þegar hann tilkynnti að hann myndi aldrei aftur keppa í TT keppninni á Isle of Man, vegna þess að góður vinur hans Gilberto Parlotti fórst þar í keppni, þetta olli miklu fjarðafoki. Ago sagði að 37 mílna braut Isle of Man væri einfaldlega stórhættuleg fyrir Grand Prix keppnir, en þessi TT keppni var með þeim vinsælustu og þar voru það aðeins þeir langbestu sem unnu, eða réttara sagt menn með tvær risastórar kúlur eða þannig sko. En Grand Prix keppnum var hætt þarna árið 1977. Ago kom mönnum enn og aftur á óvart þegar hann hætti hjá Agusta og gekk til liðs við Yamaha árið 1974, minnir á þegar Rossi hætti hjá Honda og fór til Yamaha, en það er nú önnur saga. Í sinni fyrstu keppni fyrir Yamaha vann hann Daytona 200 kappaksturinn og varð 1974 350cc heimsmeistari á Yamaha, en meiðsli og bilanir 500cc hjólsins komu í veg fyrir að hann tæki þann titil líka. En Ago kom á fullu gasi til baka á árinu 1975 og nældi sér í 500cc titilinn og var það í fyrsta sinn sem tvígengis græja náði þeim titli. Þetta var síðasta árið sem Ago vann heimsmeistaratitil og þá orðin 33 ára. Árið eftir ók Ago bæði Yamaha og MV Agusta hjólum í 500cc flokknum, en tók aðeins einu sinni þetta ár í 350cc flokknum og vann þá í Assen. Nurburgring er ekki fyrir alla en þar tók Ago þátt í 500cc flokknum á MV Agusta og vann þá sinn síðasta kappakstur og líka var þetta í síðasta sinn sem MV Agusta var á verðlaunapalli sem og að fjórgengishjólin höfðu lokið blómaskeiði sínu a.m.k. í bili. Ago hætti öllum hjólakappakstri árið 1977 en það ár varð hann sjötti í heimsmeistarakeppninni. En eins og Hailwood tók Ago þátt í formúlu eitt bílakappakstri og fleiri keppnum á bifreiðum en hætti því árið 1980. Árið 1982 tók hann að sér að vera liðsstjóri fyrir Malboro Yamaha og stýrði frægum mönnum eins og Kenny Roberts og Eddie Lawson. Ago tók einnig að sér að stýra aksturshóp Cagiva árið 1992. Ég sá Ago fyrir nokkrum árum á hjólasýningu í Englandi og heyrði líka í honum þegar hann lýsti einum kappakstri sem hann tók þátt í. Flottur karl og mjög vinsæll um allan heim og Ítalir elska hann jafnmikið og Rossi.

Stolið og stílfært af netinu Óli bruni

Read 2793 times