Sunday, 03 November 2013 10:14

#5 frá Óla bruna - Harley 2014

Vatnskældur Harley Davidson 2014

Jæja síðasta vígið er fallið því komin er á markað fyrir árið 2014 vatnskældur Harley Davidson í touring útgáfunni (ferðahjól/pylsuvagn/rútubíll).

Það var sagt í hjólablöðum í USA að H.D. verksmiðjurnar hefðu í raun hent sprengju inná Harley markaðinn með því að kynna vatnskældan Harley, jú við vitum öll um V-Rod en fæstir telja það með alvöru Harley hjólum, eflaust útaf því að V-Rod er aflmeiri og með betri akstureiginleika en öll önnur Harley hjól er það ekki, en það er nú allt önnur saga frá Þýskalandi.

Þetta leyndarmál Harley verksmiðjunar um að nýja ferðahjólið með 103 c.inc. mótor væri vatnskælt hafði verið haldið mjög vel leyndu, þannig að blaðamenn á kynningu 2014 hjólanna stóðu með opin munn af undrun. Einnig að við kynninguna var ekkert verið að flagga þessu sérstaklega og eins og sjá má á þessum vatnskældu hjólum þá er þessi frágangur mjög vel falinn, skrýtið að fela þetta svona því þetta er í raun ein mesta framþróun (já já veit afturför) Harley sem sést hefur í mjög mjög mörg ár. Þetta leyndarmál er kallað Project Rushmore, kaninn kann að finna upp nöfn, samanber nafnið New York steak á Z1 Kawasaki hjólinu áður en það var kynnt almenningi.

Í raun hafa orðið miklar stjórnunarbreytingar hjá Harley frá árinu 2009, þróunardeild þeirra fær nú bara þrjú ár í hverja hönnun í stað fimm ára áður. Auðvitað var þetta bara tímaspursmál hvenær H.D. hefði neyðst hvort er eð til að koma með vatnskældan mótor, því hitavandamál og annað hafa plagað þessi hjól í nokkuð mörg ár, sem og krafa um minni mengun. Það er 103 c.inc mótor í öllum ferðahjólum H.D. fyrir árið 2014 sú vél hefur verið „uppfærð“ en aðeins Ultra Limited og Tri Glide þríhjólið (heyrst hefur að Tryggvi bacon ætli að kaupa sér H.D. þríhjól) eru með vatnskælingunni, en H.D. kallar þessi hjól Twin-Cooled, samanber Twin Cam vélina, ekki mál gleyma CVO Screaming Eagle touring hjólinu með 110 c.inc, mótornum það er líka vatnskælt = Tví kælt !

Nýju 103 c.inc. vélarnar eru sagðar koma með aflaukningu uppá ca. 5-7%, en H.D. gefur aldrei út hestaflatölu, spurning af hverju !! En tog er sagt 105.5 lb.ft á 3.750 rpm/snúningum. Harley menn segja þ.e. verksmiðjunar, að mesti munur finnist við framúrakstur og það muni einni heilli sekúndu að fara úr 60 mph í 80 mph, ja sem þú ert fljótari !! Stóra spurning er hvort hinn almenni Harley eigandi og/eða áhugamaður vilji vatnskældan Harley? Allavega var ekki mikill áhugi fyrir V-Rod  meðal „hard“core Harley manna, en tíminn mun leiða þetta í ljós, en eflaust bara tímaspursmál að öll hjól frá Harley verði vatnskæld. Eins og flestir eigendur Harley ferðahjóla, allavega síðustu ár hafa orðið varir við þá verður hressilega heitt í kringum vélina, bæði fyrir ökumann og ef farþegi er með. Harley verksmiðjurnar hafa sett vindhlífar til að beina köldu lofti að vélinni (spjöld á grind) og síðan færðu þeir pústgreinar, ádrepi á aftari cylinder ofl. Með vatnskælingunni segjast verksmiðjurnar líka náð betri aflnýtingu (ekki veitir af segja sumir). Það þarf ekki að leita langt til að sjá að þetta vandamál hefur plagað fleiri framleiðendur mótorhjóla, því BMW er komin með vatnskældan R1200GS. Á nýja ferðahjóli Harley fer vatnskælingin eingöngu í gegnum „heddið“ og á að kæla útblásturventla (þ.e. ef ég skilið þetta rétt, hef ekki mikið vit á mótorhjólum). Síðan eru tveir vatnskassar faldir sitthvoru megin í neðri fóthlífum fyrir framan ökumann, vatnslás og vatnsdæla eru neðarlega á grind að framan, allt virkilega vel falið !

Blaðamenn í USA segja að eflaust munu alvöru Harleymenn og konur froðufella yfir þessu, eins gott bara að fá sér Væng frá Hondu. En verksmiðjur benda á að vatnskælingin sé jafnvel minna áberandi en gamla olíukælingin. Einn prufuökumaður sem ók bæði nýja vatnskælda hjólinu og því hefðbundna með 103 c.inc. mótornum sagðist í raun finna engan mun á þessum hjólum, hvorki í afli né öðru. Eina sem hann bætti við að honum hefði fundist betra afl í USA útgáfunni en þeirri sem fer til annarra landa. En segir nýja hjólið „höndla“ vel, frábært  tog og nokkuð góða hröðun við framúrakstur. Segir að hljóð sé svona aðeins mildara í þeim vatnskælda. Segir einnig frá smá bilun í Ride by wire bensíngjöfinni = engir barkar, þannig að viðkomandi varð að bíða eftir viðgerð tvisvar í sínum fyrsta prufuökutúr, en er þetta ekki bara eins og gengur og gerist með mannanna verk, nema hjá Honda !

Sagt er að nýja hjólið sé framför ekki spurning, en engin gífurlegur munur frá því gamla, góðir hlutir gerast hægt.  Að framan eru komnir 49mm framdemparar með stífari fjöðrun, virka vel í hraðari beygjum, en hjólið getur samt tekið aðeins af þér völdin ef hressilega er tekið á því. Sagt er að afturfjöðrun mætti vera betri því í svona stærri misfellum í malbiki slógu afturdemparar saman. En hjólið er í raun létt í meðförum þegar það er komið af stað þó það vikti heil 864 pund. Ekki er flókið að leggja hjólið þannig í beygjum að fótaborð (já fótaborð/floorbords) snerti malbik, en fáum okkur bara önnur hjól ef við ætlum að „reisa“. Eins og áður er sagt þetta hjól er frábært ferðahjól, fer vel með ökumann sem og farþega. Bremsur eru sagðar virkilega góðar og er ABS kerfið samtengt milli fram og afturbremsu sem er alveg nýtt hjá H.D. Þetta kerfi kemur inn við hraða yfir 25mph, undir þeim hraða er allt hefðbundið.

Aftur er sagt hvort gamlir Harley aðdáendur verði ánægðir með þetta. En ekki spurning að þetta bætir öryggi ökumann verulega og já ekki langt síðan fyrsta Harley hjólið kom með ABS. Ultra Limited hjólið (það vatnskælda) kemur einnig með vökvakúplingu fyrir árið 2014, Harley verksmiðjurnar eru alltaf að finna upp eitthvað nýtt ! Ekki finnanlegur munur á átaki kúplingshandfangs við skiptingar. Hjólið er með sex gíra kassa og gamla góða „klonkið“ er enn til staðar við að skipta hjólinu, en gírkassi er sagður góður, en stundum erfitt að finna hlutlausan, þá aðallega þegar hjólið var heitt. Allur frágangur á hjólinu í heild er góður og það verður að minnast á þær góðu breytingar með hliðartöskur þ.e. að í dag er hægt að opna þær með einni aðgerð/handtaki. Sama á við með farangurskassan að aftan, virkilega góð framför hvor tveggja. Rofahús á stýri hafa einnig verið uppfærð og að auki er komin stór skjár í mælaborð sem er mjög auðvelt að lesa af (er ég að lýsa mælaborði á bíl !). Það fylgja headsett hjólinu og hljóðnemi sem hægt að nota til fyrirmæla ef segja má svo, því þú getur sagt spila: Rolling Stones eða já fyrir þá yngri Coldplay ! Virkar flott er sagt.  Mælum hefur einnig verið breytt og gott að lesa af jafnvel í mikilli sól. Á hjólinu er nýr framljósabúnaður bæði aðalljós og kastarar eru með LED perum. Útlitisbreytingar í heild eru ekki svo miklar og þó það er komið gat í vindvörnina (Batwing) fyrir vatnskælinguna, sem og að stýra betur vind frá ökumanni, sem og að heildarhönnun er miðuð við það sem sést hefur í vindgöngum. Einnig eru komnir tveir fljótandi diskar fyrir frambremsuna, lofthreinsarahlíf er líka öðruvísi. En virkar vatnskæling við akstur í heitu veðri sem og við aðrar aðstæður ? Þeir sem hafa ekið vatnsHarleyinum segja að ekki sé neinn stórmunur, en kannski ekki alveg að marka þau orð, því samanburður var frekar takmarkaður miðað við akstur hjóla með eldri hönnunina.

En aftur sagt frábært ferðahjól sem hefur tekið miklum framförum á leið sinni inní framtíðina, svo má ekki gleyma samanburði við aðra USA framleiðslu á hjólum sem er Victory og Indian hjólin, en við sjáum til hvort vatnið taki yfirhöndina hjá Harley. Svo er bara að sjá hver verður fyrstur hér á landi að fá sér vatnasvín (bein þýðing á water hog). Um aðrar tæknilegar upplýsingar má lesa betur á netinu.

Stolið og stílfært af netinu:   Óli bruni # 173

Read 2944 times