Monday, 28 October 2013 19:06

Frá Óla bruna #4

 

Búið er að fjalla um hjólaeign gjaldkera og formannsins í fyrri greinum frá Óla og þá er komið að öðrum stjórnarmönnum í einni og sömu umfjölluninni.

Suzuki Intruder 1800 er líklega algengasta hjólið í klúbbnum því þó nokkuð fleiri félagar en 3 stjórnarmenn hjóla um á þessari gerð. 

En hér kemur greinin.  Sjá einnig í spjallinu ásamt nokkrum myndum.

Suzuki Intruder 1800:  Mótorhjól sem lætur menn vita af því mótor er milli lappa þeirra, sem og nær skyldueign til að komast í stjórn Gaflara.

Við ungu mennirnir segjum þetta mótorhjól er hrikalegt og meinum þá að það sé flott “töff” o.s.frv.  Og það er óhætt að segja að Trúderinn sé hrikalegur með sinn 1783 cc mótor, það er sko alvöru V 2 mótor með stóru vaffi. Hjólið vigtar nær fjögurhundruð kílóum, nákvæmlega 347 kg og þessi samsetning segir: Mótorhjól fyrir alvöru karl- menn (og konur).

Trúderinn var kynntur til sögunar árið 2006 og árið 2010 kom M1800R á götuna.  Blaðamenn segja að þvermál strokka 112 mm sé með því stærsta í heiminum ef þá ekki það stærsta, þ.e. af fjöldaframleiddum hjólum. Tog er á við stóran skuttogara 118 ftlb og veitir eflaust ekki af miðað við þyngd. Sumir segja (þeir sem eiga ekki) að Trúderinn sé bara eftirlíking af Harley, ekki leiðum að lýkjast þar og blaðamenn bæta við að hjólið sé betur framleitt og með meira afl heldur en Harley.

Miðað við þennan stóra V mótor 1783cc, þá er hjólið í raun virkilega þýðgengt. Kúplingsátak er mjög létt miðað við búnað og það þarf aðeins tvo fingur á kúplingshandfang og rennur hjólið í gíra við skiptingar. Eins og hefðin hefur verið hjá Suzuki þá er beina innspýtingin og kveikjukerfi með því betra sem til er á markaðinum. Ekkert hik eða hikst vegna innspýtingar sem er nú nokkuð algengt. Í raun frábær hönnun á V mótor og flestir blaðamenn mótorhjólablað gefa mótor fjórar stjörnur af fimm og eigendur Trúdersins nær oftast fimm stjörnur. Svo eru einhverjir sem tuða yfir því að vatnskældur V mótor sé ekki alvöru “krúser”, dæmi hver fyrir sig.

Miðað við stærð hjólsins þá “höndlar” það virkilega vel, sætishæð er góð fyrir lappastutta aðeins 705mm svo jafnvel varaformaðurinn nær niður á gatnamótum þegar stöðvað er, Reyndar segja “vinir” hans að Trúderinn hans sé að skjóta rótum. Sama má segja um fótpedala meðalmenn ná vel á þá og áseta er þægileg, nema fyrir þá sem nota buxur með skálmasídd undir 29 tommum. Þyngd hjólsins liggur mjög neðarlega og gerir það að verkum að hjólið situr vel og ekki svo þungt í meðförum jafnvel á bifreiðastæði, en “vinir” ritara klúbbsins segja að hans hjól standi mest á bifreiðastæðum því hann sé alltaf upptekin við að bæsa sumarbústað sinn (ljóta bullið í þessum vinum).

Bremsur eru sagðar ágætar, tveir diskar að framan með fjögurra stimpla bremsudælum, en mættu vera betri, það þarf að taka vel á þeim við neyðar-hemlun, en gleymum ekki þyngd hjólsins, en ekki má gleyma mótorbremsunni þ.e. mótornum sjálfum.

Trúderinn er hlaðinn krómi svo miklu að gott er að eiga rafsuðu-hjálm segja sumir. Þó Suzuki verksmiðjurnar séu þekktari fyrir sporthjólin sín eins og GSX-R hjólin (uss gleymdi Bandit) þá er krúser framleiðsla þeirra alveg jafn vinsæl í USA og Þýskalandi, tala nú ekki um Ísland. Eina sem blaðamenn hjólablaða setja útá er svona endafrágangur og sparnaður í vali í boltum og róm, mætti vera betra.

Í samanburði við aðra krúsera í þessari mótorstærð t.d. Harley þá þyrftu menn í raun að fara í custom Harley CVO/Screaming Eagle til að fá svipað magn af krómi og dóti, en verðið já tveir Trúderar fyrir einn CVO Harley. Blaðamenn mótorhjólablaða gefa nær allir hjólinu fjórar stjörnur af fimm í heildareinkunn. Nú er bara að sjá hvort þessi grein sem og “vinir” varaformanns, ritara og meðstjórnanda Gaflara ýti þeim ekki útá malbikið meira heldur en hefur verið, en þeim til varnar verð ég að segja að það ringdi bara í allt sumar og að bóna allt þetta króm uss maður bara svitnar við tilhugsunina. Lesa má meira um þetta frábæra hjól á netinu.

Stolið og stílfær af netinu:  

Óli bruni

Read 5237 times