Print this page
Thursday, 01 November 2018 17:14

Upprunalegt-Original

Það er alltaf gaman að misjöfnu áliti manna (já já konur eru líka menn) um hvað sé rétt þegar kemur að uppgerð ökutækja og miðað hvar þetta verður hugsanlega lesið þá: Uppgerð mótorhjóla af ýmsum stærðum og gerðum. Hvað er rétt í þeim ferli ? Allt munu sumir segja aðrir munu segja verður að vera “original”. Hvor leiðin er réttari ? Báðar eiga rétt á sér því eigandi viðkomandi mótorhjóls ræður alveg för ekki satt ?!

Eins og örfáir hafa tekið eftir þá þykir mér gaman að skrifa smá bull, en öllu bulli/gamni fylgir smá alvara ekki satt ?! Viðbrögð áhugamanna um mótorhjól eru eins mismunandi eins og við erum mörg, þ.e. hvað sé eina rétta leiðin til að viðhalda sögu viðkomandi mótorhjóls. Hvaða rugludalli myndi detta í hug að breyta t.d. fjögurra strokka Henderson í Chopper eða jafnvel café racer ?!

mynd 1

Uss ljótt að sjá hvaða vitleysing dettur svona nokkuð í hug eða er þetta kannski bara “original”

 

Frá því fyrsta mótorhjólið leit dagsins ljós, við að skrifa “ljós” dettur mér strax í hug Lucas rafkerfi, ja það er önnur saga, já frá því að það leit dagsins ljós þá hafa misvitrir eigendur hjóla tekið sig til og breytt viðkomandi hjóli í allt annað en það var hannað fyrir.

T.d. “hvurslags” rugl þetta fallega ómetanlega lang besta (nú næ ég prik) mótorhjól heimsins-BMW-R69S er breytt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd :

mynd 2

Hvaða rugludallur gerði þessa hörmung spyr maður sig ! Sko það er bara búið að eyðileggja þetta hjól, meira að segja svartar felgur úff, hvað geta eigendur lagst lágt í eyðileggingunni, maður bara spyr. Ath. sá fær verðlaun sem getur bent á hve mörgu hefur verið breytt á þessum Bimma.

Jafnvel fallegasta hönnun í heimi (nei ekki súkka) er eyðilögð þá á ég við Ducati sjáið þið fyrir ykkur t.d. 900ss t.d. 1975 árgerðina og svo þetta:

mynd 3

Nú segir einhver er eigandinn með á myndinni, nei eigandi tók myndina en lét annað sem honum þykir vænt um að vera með: konuna, hún er reyndar með sólgleraugu til að þekkjast ekki eins vel og horfir til himins, segir það okkur ekki eitthvað !

Jafnvel bestu hjól í heimi eru, heyrðu þú sagðir að BMW væri best, ja sko hum í Þýskalandi, en auðvitað vita allir að lang bestu mótorhjól heimsins koma frá BRETLANDI=breskt er best og til að skýra þetta rugl enn betur þá læt ég eina mynd fylgja með sem útskýrir vitlaust hugarfar vissra manna !!!!!!!!!!!!!

mynd 4

Þarna hefur rugludallur dauðans tekið sig til og notað Norton grind í röngum lit, náð sér í Triumph mótor og sett í grindina, sett eitthvað sem kallað er sæti, náð sér í forljóta frambremsu, BSA hljóðkúta og toppurinn á ruglinu er nafnið TriTon, SKO það er engin TriTon verksmiðja til og hefur aldrei verið, eins gott því þetta hefði aldrei selst, nei ekki möguleiki.

Lang lang lang besta mótorhjól heimsins, uss ruglið heldur áfram, kemur frá landi rísandi sólar og nú erum við að tala um eina sanna Mótorhjólið: SúsúkkkÍ og toppinn á því Bandit (blátt):

mynd 5

Já ekki spurning að það er hægt að gera original Súsúkkkí Bandit fallegri og betri, hafið þið séð fallegra mótorhjól, nei örugglega ekki !! (sagt er að formaður vor sé í breytingum)

Næst besti hrígjónabrennarinn er að sjálfsögðu fyrsta súperbækið: Honda CB750 og hverjum myndi nokkurn tíma detta í hug að hægt væri að “lagfæra fullkomið mótorhjól, nei það er alls ekki hægt og þó:

mynd 6

 

Þetta er algjör fullkomnun, hér er í raun óskarverðlaunin í betrum bætingum hins fullkomna mótorhjóls ekki satt, jafnvel Hondupabbi á suðureyjunni mun gráta af gleði yfir þessari mynd, ja maður lifandi.

 

Þá komum við að endalokum þessarar “greinagerðar” um hvernig á að fullkomna mótorhjól og hvað er nú það spyrja þessir tveir sem lesa þetta (ég meðtalin), jú að sjálfsögðu það sem ekki þarf að “diskótera” um: Ef þú þarft að spyrja þá skilurðu það ekki: Hardley Moving Davidson (Harley Davidson) og þarna tölum við um eina fullkomna heild: Útlit, akstureiginleika, hröðun, þægindi o.s.frv. við erum að tala um Monu Lisu mótorhjólanna, hverjum myndi detta í hug að mála yfir andlit Mónu Lísu, engum, nema kannski einhverjum sem væri andlega veikur og þó, því virðið fyrir ykkur algjöra fullkomnun HD Café Racer touring og annað enn fallegra:

mynd 7

mynd 8

 

Kv. HR. original Óli (bruni)

Read 1369 times