Wednesday, 24 October 2018 17:24

Spyrnan

Norton

 

Honda 

 


Spyrnan

 

 

Sagan hefst í raun fyrir langa langa löngu, maður lifandi ! Já þegar menn voru menn og konur konur (MeeToo). Í þá daga byrjuðu strákar að leika sér á “skellinöðrum” frá unga aldri, löngu fyrir þann tíma sem þeir máttu aka “skellinöðrum” löglega fimmtán ára. Þessir ungu menn keyptu alls konar dót, því ekki var úrvalið í raun mikið og auraráð enn minni (nema þeir sem áttu ríka foreldra !!). Keyptar voru t.d. gamlar NSU”r, Kreidler og annað jafn gáfulegt, síðan voru það einu alvöru hjólin HONDUR ( já já ég veit það er annað til). Þarna komu til sögunar Hondur árg. 1963 sem voru 50cc með fjögurra gíra gírkassa. Flott hjól með sérstakri framfjöðrun síðan komu auðvitað, súkkur og yammar en það voru svona “nörðrur” sem skildu eftir sig reykjarslóð eins og indjánavarðeldur.

Frá því ökutæki voru fundin upp hafa menn reynt sig í “spyrnu” sín á milli, já jafnvel áður en hjólið var fundið upp (uss er þetta fornleyfafræði). Og auðvitað strax þarna í árdaga “skellinöðrunnar” reyndu hinir ungu menn með sér hver væri sá hraðasti á meðan horfðu ungar stelpur á (já já þær geta líkað “spyrnt”). Á þessum tíma voru ekki svo mörg mótorhjól hér á landi voru, en nokkuð mikið af “skellinöðrum” og þó skrítið sé þá var stór hluti þessara tækja staðsett á mjög lítilli eyju ekki langt frá aðaleyjunni eða er þetta sagt á hinn veginn !! Á þessari eyju er það hefð að allir beri aukanafn sem ekki er skráð í kirkjubækur (má ekki ennþá segja kirkja ?). Ef aukanafnið er ekki nefnt þá þekkir þá engin.

Á þessari eyju voru guttarnir sem áttu þessar nöðrur svo heppnir að eiga feður sem sigldu eins og sagt var og því gátu þeir beðið pabba að kaupa smá dót til að hressa nöðruna við. Því ekki mátti tapa í spyrnunni. NEI það var bara eitt sæti í þessari keppni á milli ungu ökumannanna NR-1. (þarna er ekki átt við meðlimanúmer í hjólaklúbb!!). Auk þess að vera spyrna var líka keppni í að prjóna (nei ekki þannig prjón Sko stelpur sjá um handprjón). Að geta ekki prjónað á nöðrunni sinni var í raun leið til að verða uppnefndur: Jarðbundin, flatur, flýgur látt og annað gáfulegt ! Þá fundu þeir upp nýtt heiti: Púkaprjón og þar var í raun allt leyfilegt bara að framdekkið færi frá jörðu.

En höldum okkur við spyrnuna: Þarna á þessari eyju þar sem vegir eru ekki margir og ekki hægt að aka hratt því þá var gatan bara búin ! Þá var stolist á flugvöllinn og reynt með sér þar. Síðan urðu götur betri og lengri og hægt að taka alvöru spyrnur og allir gírar notaðir. Þegar hér var komið í sögunni, þá voru skellinöðurnar orðnar gamall draumur (þó sumir eigi enn minningarnar í föstu formi) og menn farnir að kaupa sér alvöru mótorhjól, flest þeirra komu frá Bretlandi enda breskt best ! Síðan kom sá tími að Hrísgrjónaveldið fór að framleiða mótorhjól með stóru emmmmmi ekki bara skellinöðrur. Já hver man ekki eftir t.d. 300 Hondunni sem var oftast rauð og þótti ofurhjól, síðan kom t.d. Svarta sprengjan 450cc og þetta gat varla orðið meira: EN maður lifandi svo kom til sögunar fyrsta Súperbækið (ja sko held að Triumph og BSA hafi orðið á undan með 750cc þriggja strokka hjólin !). Þetta “fyrsta” Súperbæke var Honda CB750, fjögurra strokka línumótor, fjórir blöndungar, rafstart (konutakki), diskabremsa að framan og það fór alltaf í gang og SKO lak ekki olíu.

Nú veit ég að nokkrir olíumettaðir strompar eru farnir að segja: Uss hann veit ekki neitt þessi, hvað með Kawasaki 500 þriggja strokka hjólið sem reykti meira heldur hann afi gamli með pípuna sína. Það er bara þannig að sagan segir okkur að á þessum tíma sem CB750 Hondan fæddist og menn voru að tala um Mike the bike Hailwood og Agostini ofl: Að öll hjólblöð sögðu: Þarna er komið til sögunnar fyrsta Súperbækið (uss verð að skrifa þetta aftur) CB750 Honda.

Aftur til eyjunnar góðu, Hondan var mætt á svæðið í öllu sýnu veldi og það var strax farið að reyna með sér. Hondan góða (uss hvað varstu heilaþveginn) skildi flest hjól eftir í rykmekki ef segja má svo því ekki reykti hún, ja sko allavega ekki í byrjun ! Eina hjólið sem tók hana í spyrnu (segir sagan) var besta mótorhjól í heimi (já lesið bara mótorhjólablöð) var Norton Commando sem var bara tveggja strokka og lak oftast olíu. Síðan komu alls konar eftirlíkingar af fyrsta súperbækinu og þá enn betri hjól, nú brosa Kawamenn, ja þeir sem nennt hafa að lesa svona langt: Já það var Kawasaki Z1 900cc sem tók Honduna gömlu í nefið, enda tók það Kawamenn um þrjú ár að ná þessu fram !

Nú förum við örfá ár aftur í tíman já örfá: Þessir upphafsmenn “spyrnunnar” á eyjunni góðu eru orðnir fullorðnir menn (ja sko samkvæmt kennitölum) og enn eru þeir að tala um hver sé bestur NR. 1 (ekki klúbbnúmerið sko maður lifandi). Og nú finna þessir gömlu gráhærðu, já jafnvel afar uppá nýrri spyrnu og þar eru veitt verðlaun til þess sem tapar: Hann fær að gjöf risasnuð (þó mér hefði fundist gáfulegra að menn fengju frekar að svona kissa brjóst). Snuð þetta skal sá sem tapar sjúga í votta viðurvist. Á þessum tíma voru ekki mörg alvöru alveg “original” hjól sem gætu breytt sögunni í aðra átt en gamlar úreltar sögur sögðu. Nei reyndar bara ca. tvö hjól (eða aðrir þorðu ekki) Þetta var auðvitað besta hjólið (lesið blöðin) Norton Commando og eigandi þess er höfundur eftirnafns sem kennt er við breska heimsveldið, Norton-ið góða var og er algjörlega “original” jafnvel loftið í hjólbörðum þess og svo auðvitað fyrsta Súperbikið Honda CB750, eigandi þess ber eftirnafn í höfuð vinsæls morgunmatar sem bretar fundu upp er mér sagt ! Þessi Honda er líka algjörlega “original” sagt er að bensínið sé enn það sama og sett var á hjólið í Japan þegar það var prufað í verksmiðjunni.

“Spyrnan” Dagurinn er runninn upp og nú eru menn mættir á þessum tveimur alveg “original” hjólum, eyjan er í raun óvirk, búið að loka flestum fyrirtækjum og allir bátar í landi, aðeins eitt fyrirtæki opið bókabúðin í bænum (eitthvað með að borga þurfi ebay ??). Þessar tvær öldnu kempur eru tilbúnar, klæddir í sína leðurgalla, ekki neitt vélsleðagoritexjukk þarna. Þeir standa þarna við hjólin sýn, stífbónuð að vanda. Sumir spyrja hvaða Honda er þetta ? Átti hann ekki bláa Hondu ? Jú jú en hann á ein sex sett á græjuna, sko tanka og hlíðarhlífar öll í mismundandi lit maður lifandi. Jæja komið að því og við látum ökumenn þessara frægu hjóla segja frá:

Breska heimsveldið: Uss andskotinn það er olíublettur á götunni, vona að engin sjá þetta, djöfull er þetta ætlar hann ekki í gang, það er ekki létt að “kikka” þessu í gang á startsveifinni, ég sem fór yfir Amal blöndunga níu sinnum í nótt. Uss ég vona að ég klúðri ekki startinu, muna að keyra hann út í öllum gírum, ég ætla sko að rúlla upp þessu hrísgrjónadrasli. Æ æ komið að þessu, helvítis glottið á þessum vélstjóra, ég skal sko sína honum að breskt er SKO enn best.

Ég þen besta hjólið og læt kúpplinguna snuða aðeins, flott start og annar gír, æ smá mistök yfir í þriðja og helvítis Hondan er við hlið mér, fjórði og ég sé að þetta verður tæpt, hjólið titrar eins og graðhestur við hlið fallegrar meri, hægri spegill hefur snúist og mér virðist eins og hjólið ætli að hrista mig af sér, já þrátt fyrir mótorpúða. Ég nálgast endamarkið og smá lægð í götunni og mér finnst eins og hjólið lyftist, en lítið mál því við erum að tala um alvöru breska grind og fjöðrun (fjöðrun ha !). Ég hef unnið eins og ég vissi alltaf, þetta var lítið mál ! Verður þetta eins og í gamla daga þegar stelpurnar hrúguðust að manni eftir góða spyrnu, nei eflaust ekki og þó.

Japanska keisaraveldið: Uss þetta verður létt, smá snerting á konutakkann á meðan þessi gamli er nú þegar orðin sveittur við að reyna að koma þessu breska dóti í gang. En hver andskotinn ætlar hún ekki í gang æskuástin mín koma svo koma svo. Það er bara svona með þessar original græjur þær geta verið dutlungafullar ja eins og æskuástin var. En jú hún fer í gang, ég hafði bara gefið henni of mikið inn þegar ég ítti á konutakkann. Ég glotti til félaga míns ég veit að hann fer á taugum, en nei hann bara horfir bara gegnum mig, ískaldur og rólegur. Ég læt hann heyra alvöru hljóð og það megi sko snúa þessu meira en 5000 snúninga. Nú sný ég uppá rörið eftir að hafa sett í fyrsta (hérumbil gleymdi því) og mótorinn alveg öskrar (já þessar original Hondur gera það sko). Af stað, æ æ lét kúpplinguna snuða of mikið, en uss þetta verður létt. Annar gír, þriðji, fjórði og uss mig vantar afl enda “original” mótor, fimmti og ég hef gleymt að athuga hvar gamla breska draslið er. Ég er á súperhraða enda á Súperbæk-I, hljóðið í mótor er orðin hálf skrýtin, ætli “original” stimplasettið hafi eitthvað gefið eftir ? Endamarkið og ég er búin að vinna, enda maður lifandi á Hondu. Mín bíður sú ánægja að setja snuðið uppí gamla gaurinn, engin stelpuhópur við endamarkið enda mín bara að vinna (ebay).

Já sagan er orðin of löng en sagt er að báðir hafið unnið ! Spyrnurnar urðu fleiri og sögurnar um niðurstöður enn fleiri. Já þessi alveg “original” Honda keppti við nær öll ökutæki eyjunnar á tveimur hjólum, já meira að segja græju á kubbadekkjum. Og nú eru ekki nema örfáir dagar síðan síðasta keppni fór fram og þar var meira segja rant tant tant rant tant græja notuð. Ekki skiptir hver vann er það nokkuð, eða eins og alvöru íþróttamenn segja: Aðalatriðið er að vera með ! Við sem fylgjumst með úr fjarlægð vonum að þessir ofurhugar á suðureyjunni haldi áfram að SPYRNA.

Ath. allt hér að ofan er alveg satt eins langt og það nær, spyrjið bara bestu sögumenn suðureyjunnar, þeir meira að segja tölusetja sýnar sögur og sagt er að nú nefni menn bara tölur t.d. 48 og þá fara allir að hlægja, með því er hægt að segja miklu fleiri sögur SKO.

Óli “bruni”

 

Norton

Honda

 

 

 

 

Read 1460 times Last modified on Thursday, 25 October 2018 18:48